142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Stutta svarið við þessari spurningu er að engar ákvarðanir hafa verið teknar um að gera breytingar á því fyrirkomulagi eins og verið hefur. Eins og þingmaður lýsti hefur formlega samstarfið verið fyrst og fremst tvíþætt. Annars vegar hefur verið um að ræða sameiginlegu þingmannanefndina og er hún enn þá starfandi. Á fundi hennar í júní sem haldinn var í Reykjavík var rætt um að halda því samstarfi áfram, að minnsta kosti um sinn, þannig að gert er ráð fyrir að næsti slíkur fundur verður í Brussel í nóvember. Verði breyting á formlegri stöðu Íslands sem umsóknarríkis mun það væntanlega leiða til breytinga á þessari stöðu, en hún hefur ekki orðið enn þá eins og hv. þingmönnum er kunnugt.

Það má reyndar geta þess til gamans að samstarf Alþingis Íslendinga og Evrópuþingsins er eldra en aðildarumsóknin. Sameiginleg þingmannanefnd var til staðar áður en Ísland sótti um aðild en munurinn er kannski fyrst og fremst sá að þá var hist einu sinni á ári en ekki tvisvar.

Ég get líka upplýst um það að mörg af þeim málefnum sem tekin eru fyrir á fundum sameiginlegu þingmannanefndarinnar eru ekki beintengd aðildarumsókninni og reyndar mundi ég hyggja að ef litið er á dagskrá síðustu funda nefndarinnar þá snúist meira en helmingur þess sem þar er rætt um aðra hluti en tengjast aðildarumsókninni beinlínis. Verði breyting á stöðu Íslands sem umsóknarríkis er ekki þar með sagt að íslenskir þingmenn hætti að hitta þingmenn frá Evrópuþinginu. Það verður um nóg að tala engu að síður.

Varðandi þátttöku í COSAC erum við í þeirri stöðu að hafa áheyrnaraðild sem umsóknarríki í augnablikinu. Önnur ríki hafa áheyrnaraðild jafnvel þótt þau séu ekki umsóknarríki, t.d. Norðmenn. Verði breyting á formlegri stöðu Íslands geri ég ráð fyrir því að Ísland muni leita eftir að fá sömu (Forseti hringir.) stöðu og Noregur gagnvart þeim fundum.