142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að kalla eftir því að þetta mikilvæga mál kæmi hér á dagskrá. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, hér er um að ræða umfangsmesta efnahagsverkefni okkar eins og sakir standa. Til þess að vel takist til að endurheimta traust á efnahagslífinu þarf að takast vel til við afnám haftanna og í því sambandi að ganga þannig frá því máli að það ógni ekki fjármálastöðugleika eða greiðslujöfnuði okkar inn í framtíðina.

Hér er um víðan völl að fara ef maður ætlar að gera öllum hliðum þessa máls góð skil en spurningar sem eru framkomnar og beinast til mín varða ekki síst skipulagið og ég ætla að byrja á að lýsa því eins og ég best get.

Í mjög stuttu máli hefur það verið þannig undanfarnar vikur, frá því að ríkisstjórnin tók við, undanfarna mánuði, að ný ríkisstjórn og þeir sem einkum bera þar ábyrgð á þessu máli hafa þurft að glöggva sig á stöðunni, kalla eftir gögnum, áætlunum, áformum sem hafa verið í vinnslu í stjórnkerfinu, þar með talið í ráðuneytum og Seðlabanka, til að geta tekið ákvörðun um næstu skref. Við hæstv. forsætisráðherra erum sammála um að í öllum meginatriðum sé skynsamlegt að byggja áfram á því stjórnskipulagi sem gilt hefur um þessi mál. Þar koma við sögu þessir vinnuhópar, ef ég leyfi mér að nota það orð, sem hv. þingmaður vék að. Þar ber í fyrsta lagi að nefna ráðherranefnd um efnahagsmál sem fer þá fyrir þessum málum þar sem forsætisráðherra hefur formennsku, og sérstakur stýrihópur undir forustu fjármála- og efnahagsráðherra leiðir starfið. Í þeim stýrihópi eru þá seðlabankastjóri, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og aðrir alveg eins og verið hefur. Undir þeim stýrihópi er samráðsnefnd embættismanna. Ég sé ekki fyrir mér að við þurfum á þessu stigi að taka ákvörðun um framhald þeirrar nefndar sem hér var nefnd ad hoc nefnd og hefur gengið undir því heiti en ég tel samt mikilvægt að við köllum eftir því að sú nefnd skili skýrslu sem þar hefur verið unnið að til stýrinefndar og ráðherranefndar.

Ég sé engar meginbreytingar fram undan á hlutverki Seðlabankans í þessu samhengi öllu saman. Varðandi sérfræðingahóp eða við gætum kallað hann líka ráðgjafanefnd get ég svarað því þannig að við hyggjumst koma á fót til hliðar við þetta ferli sérstakri nefnd ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í málinu og varðandi mögulegt hæfi eða vanhæfi manna til að taka sæti í slíkri nefnd verður því að sjálfsögðu gefinn gaumur. Enginn hefur enn verið formlega beðinn um að taka sæti í slíkri nefnd, henni hefur ekki enn verið komið á. Eitt af því sem er til skoðunar í því efni er hvort ástæða væri til að kalla til einhverja erlenda ráðgjafa.

Ég vona að þetta svari spurningum um heildarskipulagið. Eina breytingin sem hægt er að tala um að verði frá því sem verið hefur er að þá kæmi ráðgjafanefnd ríkisstjórninni eða ráðherranefndinni til ráðgjafar. Það er spurning hvort ástæða sé til að láta þessa ad hoc nefnd starfa mikið lengur áfram.

Ég get lítið sagt um það hvaða svigrúm ég telji til staðar en við sjáum á þeim tölum sem um er að ræða hér, þar sem skuldabréf nýja Landsbankans til þess gamla losar 300 milljarða, að þar er þrýstingur ef ekki verður endursamið um bréfið. Íslenskar krónueignir í þrotabúi Kaupþings og Glitnis eru rúmlega 400 milljarðar og aflandskrónurnar um 340 milljarðar. Þetta eru þessir þrír stærstu liðir sem saman mynda þrýstinginn á mögulegt gengi krónunnar verði höftunum aflétt og er uppistaðan í því verkefni að finna lausn á þessum þremur meginþáttum.

Við getum notað ýmsa mælikvarða til að átta okkur á því hvað þarf að gerast til þess að við náum nýrri aðlögun að ásættanlegum greiðslujöfnuði til framtíðar. Ein leið til að átta sig á þessu væri að spyrja sig: Hvernig sjá kröfuhafarnir þetta sjálfir? Þeir hafa verðmetið kröfurnar í viðskiptum sín á milli og (Forseti hringir.) væntanlega þá tekið í reikninginn hvað þeir telja að þurfi að gerast þegar fram í sækir.

Ég vonast til að koma fleiri atriðum að í seinni ræðu minni.