142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir svörin. Mér þykir hann hins vegar, í svörum sínum hér, hafa varpað frekar litlu ljósi á hvað raunverulega stendur til af hálfu ríkisstjórnarinnar. Af orðum hans má ráða að ítrekaðar fréttir í sumar, af nefndaskipunum og sérstökum trúnaðarmönnum, sem verið væri að kalla til til afnáms gjaldeyrishafta, eigi ekki við rök að styðjast.

Hæstv. ráðherra talar hér um óbreytt skipulag við afnám gjaldeyrishafta en við búum samt við þær sérkennilegu aðstæður að kröfuhafar hafa leitað eftir svörum frá ríkisstjórninni og viljað tala við ríkisstjórnina en hún hefur ekki svarað þeim.

Ég hlýt líka að gera athugasemdir við það að ríkisstjórnin haldi áfram þeirri stefnu sinni að loka dyrum fyrir landinu og skaða möguleika okkar með því að telja enga sérstaka ástæðu til þess að hin svokallaða ad hoc nefnd sérfræðinga frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og íslenskir sérfræðingar haldi áfram að vinna. Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að vinna áfram eftir þeirri leið, ekki síður en öðrum, til að kanna hvaða kostir okkur bjóðast.

Ég hlýt að síðustu að lýsa eftir því að haft verði samráð við stjórnarandstöðu við afnám gjaldeyrishafta. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því ítrekað yfir þegar hann var í forustu fyrir stjórnarandstöðuna að það væri grundvallaratriði að þverpólitísk samstaða yrði um afnám gjaldeyrishafta. Það eru ekki boðleg vinnubrögð af hálfu ráðlausrar ríkisstjórnar, hversu ráðlaus svo sem hún kann að vera, að láta leka í fjölmiðla hálfkveðnar vísur um hvað standi til í þessum málum, bera þær jafnharðan til baka og ræða ekki við stjórnarandstöðuna um framgang mála. Við hljótum að gera kröfu til þess að ríkisstjórnin eigi við okkur formlega fundi, ræði við okkur í trúnaði um hvað standi til. (Forseti hringir.) Sá trúnaður er í boði af okkar hendi. Spurningin er hvort ríkisstjórnin getur staðið við stór orð um ný vinnubrögð og nýtt samráð.