142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Steingrími Sigfússyni, og hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör við þessa umræðu. Stærsti vandi okkar núna og sá sem við verðum að leysa fyrst af öllu er snjóhengjan svokallaða sem hér kom fram að væri allt að 1.200 milljarðar.

Þessar krónur eru í eigu erlendra aðila sem ekki hafa venjuleg samskipti við Ísland eða tengsl. Þær hafa ekki mjög mikið vægi í augum þeirra. Hins vegar eru 2.000 milljarðar í þrotabúunum nokkuð sem þeir horfa mikið á og þá verðum við að nota og gæta þess að þessir 2.000 milljarðar í erlendum gjaldeyri fari ekki undan áhrifavaldi okkar.

Hagsmunir okkar og kröfuhafanna fara að mörgu leyti saman vegna þess að þeir þurfa að byggja á því að íslenskt atvinnulíf geti framleitt gjaldeyri sem þeir þurfa til að fá kröfur sínar. Þar af leiðandi ætti að finnast á þessu ágætur samningsflötur. Ég tel að lausn þessa máls varði miklum hagsmunum, allt að því öryggi þjóðarinnar og ég vona að sú góða samvinna sem var á síðasta kjörtímabili milli þingmanna allra flokka um þetta mál haldist.

Ég fellst á það með hæstv. fjármálaráðherra að mikilvægt sé að flana ekki að skipulagi þessa máls. Það þarf að fara mjög varlega í það. Ég er sammála því að fá erlenda aðila til að veita okkur ráðgjöf. Menn þurfa að vanda til skipulagsins. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að vinna hratt að því að leysa þetta mál, þetta er mikið atriði fyrir efnahagslífið, fyrir erlenda fjárfestingu og að mörgu leyti er þetta mjög dýrt fyrir okkur öll sem þjóð. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra að standa vel að því skipulagi sem hann er að byggja upp.