142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur hafið hér umræðu um stór og mikilvæg mál en um þau flest ríkir óvissa og óvissan er okkur kostnaðarsöm. Fyrirtæki fá ekki betri vaxtakjör til fjárfestinga eða endurfjármögnunar. Á meðan óvissan ríkir halda menn að sér höndum og bíða. Þess vegna er svo mikilvægt að hæstv. ríkisstjórn leggi fram skýrt plan sem við getum treyst að virki.

Sennilega er losun gjaldeyrishafta eitt mikilvægasta og flóknasta viðfangsefnið í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir. Höftin reyndust mikilvæg við að ná stöðugleika eftir bankahrunið í framhaldi af því fjármálaáfalli sem það leiddi af sér. Það er jafn mikilvægt að afnema þau eins fljótt og hægt er, ekki aðeins vegna þess að alþjóðlegir samningar gera ráð fyrir því heldur vegna þess að það verður mikill kostnaður af þeim til lengdar og hann verður meiri af þeim en ávinningurinn. Höftin munu einnig valda versnandi lífskjörum.

En hvað gerist þegar höftin hafa verið afnumin og veruleikinn án hafta blasir við? Mun íslenska krónan nýtast okkur án þess að hún verði í einhvers konar höftum til framtíðar? Mér finnst mikilvægt að skoðað verði vandlega hvernig losun hafta tengist vali á stefnu í gjaldeyris- og gengismálum og hvort kostir í þeim efnum geri losun haftanna auðveldari. Einnig ættum við að nýta okkur þá möguleika sem kunna að skapast í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar í gegnum aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hæstv. utanríkisráðherra hefur að vísu tilkynnt að gert hafi verið hlé á viðræðum en, virðulegur forseti, Alþingi hefur ekki falið ríkisstjórninni að slíta viðræðunum þannig að það er enn von að við nýtum þessa skynsamlegu leið þjóðinni til heilla.