142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[15:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Svo að það komi alveg skýrt fram er ég ekki að tala um það að brjóta á eignarrétti kröfuhafa. Kröfuhafar hafa eignarrétt, lántakendur hafa líka eignarrétt. Þeir hafa eignarrétt í sinni eign, þeir fengu lán frá kröfuhöfum sem eiga lánasamninga og eiga kröfur, en lántakendur eiga sína eign, sitt húsnæði.

Lög sem hafa verið innleidd vegna tilskipunar Evrópusambandsins á Íslandi — á grundvelli þeirra laga var dæmt núna fyrr á árinu. Í þeim dómi segir Evrópudómstóllinn að það sé ólögmætt að binda í lánasamninga, þegar kemur að heimilum fólks, að hægt sé að ganga að húseigninni, þar sem fólk býr og á sitt heimili, að hægt sé að ganga að heimili fólks, meðan vafi er um þá lánasamninga sem krafan hvílir á. Þetta er alveg skýrt. Þessi lög hafa verið innleidd á Íslandi, þarf þá ekki að framfylgja þeim lögum? Og hver á að framfylgja þeim lögum? Hver ætti að framfylgja lögum þegar kemur að samningum, lánasamningum, húsnæðislánasamningum, hver á að framfylgja þessum lögum? Þetta þurfum við að vita.

Maður mundi halda að samkvæmt forsetaúrskurði heyri öll þessi mál undir innanríkisráðherra, það virðist vera. Hvað finnst frú Hönnu Birnu innanríkisráðherra?