142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[15:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu og held reyndar að þingheimur sé búinn að taka hana nokkuð oft enda ljóst að þetta er viðfangsefni sem við höfum verið að horfa til í langan tíma. Ég tek sérstaklega undir það sem kom fram hjá nokkrum þingmönnum, og er kannski líka dálítið undirstaða þess að við þurfum að gera betur og horfa til nýrra lausna, og það er íslensk neytendavernd og íslensk neytendalöggjöf. Það er nokkuð sem við verðum að líta til í þessu samhengi og má sannarlega finna rök fyrir því að betur hefði mátt standa að því. Það er nokkuð sem ég held að við þurfum að hugleiða mjög vel í framtíðinni.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Brynjari Níelssyni varðandi það að hér eru auðvitað á ferðinni, og það er það sem ég sagði í ræðu minni í upphafi, fyrstu ræðunni, frjálsir samningar milli einstaklinga. Ekki er bara um að ræða eignarrétt þess sem tekur lánið heldur líka eignarrétt þess sem veitir það. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að skoða það í samhengi. Ef við erum ósátt við eða ef menn telja að meiri fjölbreytni þurfi að vera í þessum lánasamningum er það nokkuð sem verður að taka upp með öðrum hætti.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi rétt leigjenda sem ég veit að verið er að skoða sérstaklega í þeirri vinnu sem hv. þingmaður kom inn á og fer fram í velferðarráðuneytinu. Ég veit að hæstv. velferðarráðherra er mjög meðvitaður um þessa stöðu og mun skoða það í þessu samhengi.

Öðru er varðar þessi mál vísa ég líka til þess sem ég sagði hér í upphafi sem lýtur að þeirri vinnu sem fram hefur farið í sumar á grundvelli þeirrar þingsályktunartillögu sem hér var samþykkt. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Þeirri vinnu á að ljúka nú í haust eins og ítrekað hefur komið fram. Ráðuneyti innanríkismála og ráðuneyti velferðarmála munu skila sínum tillögum hvað þetta varðar í lok september þannig að við erum komin á endapunkt með það og ég vona að þar séu einhverjar lausnir. En ég minni líka á það í málinu sem við ættum kannski að ræða meira sem er sú staða, sem kom réttilega fram hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur (Forseti hringir.) hér áðan, að þessum sölum er varða nauðungarsölur hefur fækkað á umliðnum árum. Sá stóri vandi sem var til staðar, t.d. árið 2010 — það hefur fækkað þar (Forseti hringir.) og þessar sölur eru í dag að jafnaði jafn margar og þær voru árið 2003.