142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða mál sem hafði verið samþykkt í síðustu ríkisstjórn og meira að segja sett í það fjárveiting og ekki talin þörf á því að það kæmi yfir höfuð inn í þingið vegna þess að það væri það smávægilegt.

Síðan þá hafa verið gerðar gagngerar breytingar á frumvarpinu þannig að það gengur ekki nærri því jafnlangt og áform síðustu ríkisstjórnar fólu í sér, áform sem voru samþykkt á ríkisstjórnarfundi þar sem áttu meðal annars sæti ráðherrar, hv. núverandi þingmenn, sem nú koma hér upp og vilja að málinu sé vísað frá.

Virðulegur forseti, það er ekki heil brú í þessu, þetta virðist eingöngu snúast um það að vera á móti öllu sem kemur frá nýrri ríkisstjórn. (Gripið fram í.)

Það er víða pottur brotinn varðandi friðhelgi einkalífs, meðal annars hér á Íslandi, en þetta frumvarp bætir engu við þann vanda. Hér er um að ræða upplýsingar sem í þessu tilviki verða dulkóðaðar hjá ríkisstofnun, upplýsingar sem unnið er með víða annar staðar, meðal annars í einkafyrirtækjum. (Gripið fram í.)Það frumvarp sem hér er til umræðu eykur ekki á vandann varðandi friðhelgi einkalífs en það getur hins vegar vel verið að full ástæða sé til að taka á þeim vanda víða annars staðar.