142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að taka til máls um atkvæðagreiðsluna þegar fyrir liggur þessi skvetta frá hæstv. forsætisráðherra sem við fengum að verða vitni að áðan. Hér er ekki verið að greiða atkvæði um frumvarpið á einn veg eða annan, heldur er til atkvæðagreiðslu frávísunartillaga vegna þess að frumvarpið er vanbúið.

Hæstv. forsætisráðherra segir að það sé fáránlegt að hafa efasemdir um frumvarpið ef menn hafi á einhverjum tímapunkti hugleitt söfnun upplýsinga vegna skulda heimilanna eins og gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Rétt er að benda hæstv. forsætisráðherra á að þau frumvörp sem þá voru unnin miðuðu að því að vera forsenda aðgerða, en það liggur fyrir í þessu máli að hæstv. forsætisráðherra er búinn að lofa úrlausn handa heimilunum í nóvember en niðurstaða úr frumvarpinu á ekki að skila sér fyrr en í mars. Það liggur þar af leiðandi alls ekki ljóst fyrir til hvers er verið að safna þessum upplýsingum. Þar við bætist auðvitað að þingmenn Framsóknarflokksins tilkynna okkur það eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson (Forseti hringir.) hér í dag að frumvarpið eigi að vera til þess að koma í veg fyrir höfuðstólslækkun til afmarkaðra hópa. Það eigi að vera hægt að plokka af (Forseti hringir.) fólki það sem það hafi hingað til fengið í gegnum 110%-leiðina, í gegnum sérstaka skuldaaðlögun eða aðrar leiðir. Og þá er nú (Forseti hringir.) endaleysa hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli orðin alger.