142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur nú gerst aftur að efnislega umræðan fer fram löngu eftir að henni er ætlað að fara fram á hinu háa Alþingi. Ég verð að segja að þetta mál allt hefur veitt mér mikla reynslu um það hvernig Alþingi virkar, hið háa Alþingi, eða öllu heldur virkar ekki.

Mig langar að nefna sérstaklega þau atriði sem hæstv. forsætisráðherra nefndi, að þetta hefði verið í fyrri ríkisstjórn. Það er engin afsökun, það er stjórnarskráin sem hindrar þetta frumvarp. Það kemur fyrrverandi ríkisstjórn ekkert við. Þótt fyrrverandi ríkisstjórn hefði brotið mannréttindi réttlætti það ekki að við gerðum það líka.

Hvað varðar dulkóðun í grunninn hefur verið talað um að gögnin eru enn þá persónugreinanleg og verða alltaf persónugreinanleg. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þetta mundi hæstv. forsætisráðherra vita ef hann hefði tekið þátt í umræðunni.

Hvað varðar það að markmiðið hér sé einfaldlega að vera á móti öllu, það þarf virkilega, með fullri virðingu fyrir hinu háa Alþingi, að hafa ekkert fylgst með umræðunni til að komast að þeirri niðurstöðu. Við hvert fótmál höfum við stungið upp á hugmyndum og lýst yfir einlægum samstarfsvilja sem hefur ekki verið efast um fyrr en nú (Forseti hringir.) eins og venjulega.