142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga umfjöllunarefni og ráðherranum fyrir yfirferð sína. Það gladdi mig að heyra þann tón í yfirferð hennar að þetta sé umfjöllunarefni sem krefjist miklu meiri umræðu því að hér er um að ræða algjöra eðlisbreytingu, algjörlega nýja hugsun gagnvart því hvaða erindi orkuöflun á við okkur sjálf og við umheiminn.

Eins og hefur komið fram bæði hjá framsögumanni og hæstv. ráðherra kom fram í skýrslu ráðgjafarhópsins, sem lögð var fram í júní, að þessum framkvæmdum fylgir gríðarlega mikil óvissa. Til að mynda er talað um að útflutningstekjurnar geti numið allt frá 4–76 milljörðum kr. á ári. Bara það bil segir dálítið mikið um umfang óvissunnar í þessu máli.

Í öðru lagi vil ég nefna að Environice tók sérstaklega út umhverfisleg álitaefni sem gætu tengst lagningu sæstrengs. Var tekið fram að það væri auðvitað lítil reynsla af framkvæmdum af þessari stærðargráðu, en þó var bent á að það mundi auka þrýsting á frekari virkjanir á Íslandi og hefði margvísleg áhrif á lífríki strandar og hafsbotns, bæði á framkvæmdartíma og á rekstrartíma. Ákveðnar tegundir gætu jafnvel yfirgefið svæðið eða dáið út og gætu ekki náð að aðlagast þessari truflun. Á rekstrartímanum er svo hætt við að yfirborð breytist sem leiði til flótta tegunda. Rafsegulsvið við strenginn var nefnt og ýmislegt því um líkt, sem er auðvitað stórmál fyrir fiskveiðiþjóð. Þrýstingur á meiri nýtingu gagnvart rammaáætlun er líka stórmál í þessu samhengi, en ég tek undir það sem hér hefur komið fram, bæði hjá framsögumanni og hæstv. ráðherra, að hér höfum við rétt aðeins tækifæri til þess að krafsa í yfirborðið á þessari mikilvægu umræðu. En ég hef tekið það að mér hér, með leyfi forseta, að halda uppi varnaðarorðum í þessari stuttu ræðu.