142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég er ein af þeim sem vilja fara mjög varlega í tengslum við hugmyndir um sæstreng en hér kom fram athyglisverð hugmynd sem ég reifaði mjög mikið á síðasta kjörtímabili. Ég skildi ekki af hverju var ekki hægt að lækka orkuverð til gróðurhúsabænda þegar við áttum í svo miklum vandræðum með gjaldeyri og mjög margir voru að kikna undan orkuverðinu, það þurfti að hækka verð á dreifikerfinu til þeirra og margir urðu að hætta starfsemi sinni. Þá var mér sagt að það væri ekki hægt út af EES-reglugerðum. Ég velti fyrir mér þeirri hugmynd sem hefur komið fram að hugsanlega mætti lækka orkuverð til gróðurhúsabænda eða annarra ef fallist yrði á þennan sæstreng og framkvæmdir á honum yrðu að veruleika.

Mig langaði bara að fá úr því skorið hvort ég hafi fengið villandi upplýsingar síðast og hvort möguleiki sé á að hæstv. ráðherra hafi einhver svör um þetta. Það kom fram í umræðunum að þetta væri tillaga að ákveðnum lausnum ef sæstrengur yrði að veruleika.

Ég hef miklar áhyggjur af tvennu. Í fyrsta lagi hækkun á raforku til heimilanna. Eitt af því sem gerir mörgum kleift að búa á Íslandi er að orkuverð er svo lágt fyrir heimilin, allt annað er svo dýrt. Er til einhver tölfræði um það hve mikið orka til heimilanna hækkar þegar farið er út í sambærilegar aðgerðir? Síðan finnst mér líka mjög vert að hafa í huga umhverfisáhrifin en við erum að reyna að markaðssetja Ísland sem hagkvæman kost fyrir gagnaver út af grænni orku. Er þetta skynsamleg leið út af áhættuþáttum?