142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum um að þessi umræða er góð og nauðsynleg. Ég held reyndar að stærsta viðskiptatækifærið felist í því að skapa á Íslandi fleiri vel launuð störf. Ég held að málið snúist um að nýta grænu orkuna okkar heima og að virðisaukinn af henni verði eftir í þjóðfélaginu. Við þurfum að skapa störf sem gefa góðar tekjur og eru hálaunastörf. Það getum við gert með því að nýta orkuna hérna heima.

Það er alveg ljóst að með því að tengjast Evrópska efnahagssvæðinu á þennan hátt, með streng, hækkum við rafmagn til íslenskra heimila um 30–50%. Við hækkum rafmagnið til atvinnulífsins um 30–50%, við sem erum alltaf að tala um að lítil og minna orkusækin fyrirtæki þurfi að fá aðstoð.

Er það virkilega hlutverk Alþingis að standa í því núna, þegar við erum að reyna að komast upp úr erfiðum vandamálum, að leggja álögur á íslensk heimili og atvinnulíf með því að ræða það að flytja út orkuna? Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki að gerast á morgun en ég held að það sé mikilvægt að við tryggjum að virðisaukinn af orkunni verði eftir í landinu.

Ég hef sagt það í gamni og alvöru að ég kann Englendingum litlar þakkir fyrir það hvernig þeir koma fram við okkur nú um stundir. Þeir vilja setja á okkur hafnbann út af makrílveiðum og ég held að við eigum ekkert að vera að þakka þeim sérstaklega fyrir það með því að senda þeim græna orku sem þeir geta baðað sig úr. Við sem þjóð eigum nýta endurnýjanlega orku hér heima og virðisaukinn af henni verði til í landinu.(Gripið fram í.)