142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og hefur komið fram hefur Landsvirkjun unnið að hagkvæmnikönnun á lagningu sæstrengs til Evrópu og skilaði í sumar áfangaskýrslu um hagkvæmni þess að tengjast evrópskum raforkumörkuðum með lagningu sæstrengs. Ég tel mjög mikilvægt að í þessari vinnu hafi verið tekið tillit til allra sjónarmiða og horft á umhverfisþætti, áhrif á orkuverð innan lands og auðlinda- og orkunýtingu þjóðarinnar til langrar framtíðar. Ekki eigi að horfa til skammtímasjónarmiða á kostnað hagsmuna hins almenna raforkunotanda innan lands.

Mörg aðvörunarljós kvikna þegar horft er til þeirra áhættuþátta sem gætu fylgt í kjölfarið ef við færum inn á evrópskan raforkumarkað, samkeppnismarkaðinn þar. Gætum við tryggt íslenskum heimilum og fyrirtækjum áfram lægra verð en selt á toppverði umframorku í gegnum sæstreng? Stæðist það EES-samninginn eða væri það brot á jafnræðisreglu?

Allt bendir til þess að orkuverð innan lands mundi hækka sem mundi bitna sérstaklega hart á íbúum á köldum svæðum á landsbyggðinni sem þurfa að kynda í dag með raforku og greiða í dag himinháa reikninga. Gætum við haldið áfram að vinna að því að jafna raforku- og húshitunarkostnað landsmanna, t.d. með jöfnunargjaldi sem legðist á hverja framleidda kílóvattstund eins og starfshópur lagði til síðastliðið ár?

Þannig gæti maður spurt áfram. Hvað með afhendingaröryggi, raforkuöryggi innan lands sem er nú ekki í góðu lagi í dag á mörgum landsvæðum? Mundi ekki skapast stóraukinn þrýstingur á virkjunarframkvæmdir með tilheyrandi ágangi á náttúruna?

Stóra spurningin er sú: Hvernig ætlum við sem þjóð að nýta orkuauðlindir okkar til langrar framtíðar til hagsbóta fyrir land og þjóð? Við þurfum að draga fram kosti og galla og horfa til þess hvað er skynsamlegt fyrir okkur sem þjóð. Skammtímagróðasjónarmið eiga ekki að ráða för í þessum efnum fremur en öðrum.