142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á þeim ágæta degi 26. júní sl. skilaði ráðgjafarhópur iðnaðar- og viðskiptaráðherra skýrslu um lagningu sæstrengs til Evrópu í framhaldi af því framfaraskrefi sem stigið var af þáverandi iðnaðarráðherra, Oddnýju Harðardóttur, um að stofna þennan hóp og setja þessa vinnu í gang. Hann skilaði svo þessari skýrslu. Skýrslan er þó aðeins hænuskref á langri vegferð hvað þetta varðar að mínu mati. Ráðgjafarhópurinn er samhljóða í ályktun sinni um að frekari upplýsingar þurfi til að unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja streng sama hvar hann kemur að landi í Evrópu.

Ég er því algerlega sammála. Ég tel að allt of margir þættir séu enn þá óljósir, veigamiklar breytur sem háðar eru umtalsverðri óvissu, eins og t.d. bara um reiknilíkan fyrir þjóðhagslega hagkvæmni. Öll þessi atriði eins og eignarhald, lengd samninga, orkumagn og orkuverð, allt eru það óvissuþættir sem setja þarf inn og ræða og reynslan frá Noregi gerir mann hræddan um að orkuverð til almennings hafi hækkað.

Inn í það blandast auðvitað líka það sem við viljum, Íslendingar, þ.e. að nota okkar grænu orku til að gera meira hér á Íslandi og selja meira fullunna vöru frekar en að nota raforku sem hráefni til Evrópu, þannig að margt er eftir. Ég vissi hins vegar ekki, virðulegi forseti, að umræðan um lagningu sæstrengs til Evrópu eða Bretlands væri einhvern veginn samtengd ESB-umsókn, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gat um áðan í ræðu sinni. En ég er efins, ég er oft mjög efins um þetta. Þess vegna segi ég að skýrslan er aðeins lítið skref í þessari umræðu.

Þess vegna er ég alveg sammála því, og það skulu vera mín lokaorð, að hvetja hæstv. ráðherra til að skila skýrslu hingað til Alþingis á þessum vetri, eins og mér heyrðist hún ætla að gera, til að taka almennilega umræðu á Alþingi um kostina (Forseti hringir.) og gallana og um hvað við ætlum að gera næst.