142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[17:05]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil enn á ný þakka þessa umræðu og ég er sannfærðari nú en áður um þá ákvörðun sem ég hef tekið um að leggja skýrslu ráðgjafarnefndarinnar til þingsins til umfjöllunar. Ég hef í hyggju að óska eftir löngum og ítarlegum umræðutíma þannig að þingmönnum gefist kostur á að tjá sig í þingsalnum en skýrslan fari síðan til nefnda þingsins. Atvinnuveganefnd liggur beint við en það er hugsanlegt að aðrar nefndir þingsins hafi einnig áhuga á að kynna sér þetta mál.

Ég er ósammála hv. þm. Björk Ólafsdóttur um að við eigum fyrst að semja og svo að ræða málið. Ég held að það sé mjög óheillavænlegt og ég vil ekki sem ráðherra þessa málaflokks fara af stað, þó að það séu ekki nema könnunarviðræður, fyrr en ég er búin að heyra sjónarmið þingsins, ræða málið.

Það hefur komið fram í umræðunum og fleiri en einn sagt að umræðan er rétt að byrja og við þurfum að vita um hvað við erum að tala áður en við förum lengra af stað. Ég tel einmitt til að forðast að við förum ofan í skotgrafir, til að forðast að við sköpum deilur, eigum við að fara vel og vandlega yfir málið, gefa okkur tíma í það í þinginu og síðan þegar sú umræða hefur átt sér stað er tímabært að stjórnvöld ákveði næstu skref. Það verða ekki frekari skref stigin fyrr en sá þingvilji er kominn fram.

Ég get ekki úttalað mig um það hvaða ákvörðun verður tekin, eðlilega, þar sem sú umræða hefur ekki farið fram. En þetta er risastór ákvörðun og við tökum hana ekki á morgun eða hinn. Það er mjög gott fyrsta skref að fá þessa skýrslu og ég hvet okkur til þess þegar hún kemur fram í þinginu í október að við notum tækifærið, (Forseti hringir.) vinnum þetta saman á þinginu, ræðum málið og fáum fram ólík sjónarmið.