142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

37. mál
[17:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hér skuli vera svolítið af sveitarstjórnarfólki sem þekkir kannski akkúrat þessa hlið málanna. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni rétt áðan að þetta er ekki lögboðin þjónusta sem við erum að ræða, enda er fjallað um það í ályktuninni að skipa samráðshópa sem hafa mjög víðtækra hagsmuna að gæta og er áætlun um hvernig hægt sé að gera þá hluti.

Þetta er afar mikilvægt mál fyrir fjölmargar fjölskyldur, ungar fjölskyldur og ég ætla að ræða málið í dag út frá hlutverkum skólastiga, út frá jafnréttis- og hagfræðilegum sjónarmiðum og hugmynd sem við Vinstri græn lögðum til á Alþingi fyrir nokkru síðan um gjaldfrjálsan leikskóla. Það er nefnilega svo að það foreldri sem gjarnan verður lengur heima eftir að fæðingarorlofi lýkur er frekar það sem hefur lægri tekjur og þar erum við konur óneitanlega í meiri hluta. Vegna launamismunar eru konur líklegri til að draga sig af vinnumarkaði þegar kostnaður við að velja daggæslu og atvinnuþátttöku er meiri en sá ávinningur sem hægt væri að afla með því að notast við hana. Með sömu rökum er líklegra að konur kjósi að vera í hlutastörfum en karlar í fullu starfi fyrstu ár barnsins. Þetta er eitt af því sem hefur myndað það sem ég vil kalla vítahring sem kjör og tækifæri kvenna á atvinnumarkaði eru.

Fórnarkostnaður þess að spara peninga og vera heimavinnandi er sá að fara á mis við reynsluna úti á vinnumarkaðnum. Þetta hefur áhrif á tækifæri fólks síðar á lífsleiðinni. Hlutverk skólastiganna hefur alla tíð verið ólíkt og má rekja til þess að Barnavinafélagið Sumargjöf setti árið 1945 á fót dagheimili sem var ætlað að jafna uppeldisskilyrði barna. Árið 1931 var fyrsti eiginlegi leikskólinn stofnaður og var þá hugsaður sem gæsluúrræði fyrir börn útivinnandi foreldra og einkum börn einstæðra mæðra. Það er svo ekki fyrr en 1944 sem leikskólinn er viðurkenndur sem fyrsta skólastigið. Heimspekingurinn John Dewey sagði reynslu og samspil mannsins við umhverfið vera grundvallaratriði í allri menntun og taldi það mikilvægara en námsgreinabundna kennslu. Samfella þyrfti að vera í reynslu barnanna svo að athafnir og upplifanir byggðu á einhverju sem það hefði fengist við áður. Samkvæmt þessum hugmyndum Deweys ætti leikskólinn ekki að leggja áherslu á að undirbúa börnin fyrir grunnskólagöngu heldur halda áfram að byggja við þá reynslu sem börnin taka með sér inn í framtíðina.

Grunnskólanám ætti hins vegar að byggja á þeirri reynslu sem börnin koma með úr leikskólanum og nota þá reynslu til að útvega börnunum viðfangsefni sem eru þeim ný og ókunnug. Stjórnvöld hafa sýnt metnað í að auka flæði á milli skólanna undanfarin ár og sá samhljómur sem finna má í námskrám þessara skólastiga eykur líkur á að samfella náist í skólagöngu. Það hefur líka verið rætt og ritað að aukið samstarf skólastiganna sé hluti af farsælli skólabyrjun ungra barna. Í eldri tillögum Vinstri grænna um gjaldfrjálsan leikskóla kemur fram að leikskóli sé viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og fátt sem réttlæti að greitt sé fyrir skólahaldið á meðan önnur skólastig séu gjaldfrjáls eða töluvert mikið niðurgreidd. Þá hefur Félag leikskólakennara ályktað að leikskóli þurfi að vera hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar eins og önnur skólastig og að sveitarfélögin eigi að vinna markvisst að því að börnum gefist kostur á sex tíma leikskólagöngu daglega án endurgjalds.

Við vitum öll að gjaldfrjáls leikskóli yrði kjarabót fyrir fjölskyldur með ung börn og mundi því leiða af sér fjölskylduvænna samfélag. Tölur frá Hagstofunni sýna fram á að skipting foreldra- og fæðingarorlofs árið 2011 var á þann veg að konur tóku að jafnaði um 180 daga en karlar einungis 81. Það er því þörf á að bregðast við. Fyrsti ávinningur með gjaldfrjálsan leikskóla væri jafnari tækifæri kynjanna til að samþætta fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku og samrýmist grundvallarhugsun Vinstri grænna. Síðasta ríkisstjórn lagði fram frumvarp um breytingu á lögum þar sem fæðingarorlof lengist úr samtals 9 mánuðum í 12 á ákveðnu tímabili. Það var liður í að bakfæra þær skerðingar sem urðu á orlofinu í kjölfar niðurskurðar frá árinu 2008. Í greinargerðinni kemur fram að feður taki fæðingarorlof í minna mæli en áður og megi það rekja að einhverju leyti til þess að karlar hafa að jafnaði hærri laun en konur og þess að hámarksorlof hafi lækkað mikið á undanförnum árum.

Í ritgerð Hildar Bjargar Vilhjálmsdóttur um gjaldfrjálsan leikskóla þar sem hún hefur að leiðarljósi jafnréttislega nálgun, kostnað og ávinning kemur meðal annars fram, með leyfi forseta:

„Einnig gæti menntunarstig í landinu hækkað og með aukinni atvinnuþátttöku mundu ráðstöfunartekjur heimilanna hækka umfram þá upphæð sem nemur leikskólagjöldum. Ef aðeins er horft til kostnaðar við að leggja af leikskólagjöld og hann miðaður við ýmis önnur útgjöld ríkis og sveitarfélaga, til dæmis barnabætur sem eru tekjutengdar. Er hægt að sýna fram á að gjaldfrjáls leikskóli ýti undir aukna virkni mæðra á meðan annars konar velferðarbætur gætu dregið úr virkni vegna hærri fórnarkostnaðar við að fara aftur út á vinnumarkað. Gjaldfrjáls leikskóli ætti því að vera forgangsatriði í velferðarhugleiðingum ríkis og sveitarfélaga. Annar ávinningur er sá að vegna lægri fórnarkostnaðar verður að teljast líklegra að konur fari fyrr út á vinnumarkað eftir fæðingarorlof, þær gætu einnig kosið að fara í nám og því gæti menntunarstig í landinu aukist. Af þessu tvennu leiðir að landsframleiðsla mun aukast og tekjur ríkis og sveitarfélaga sömuleiðis.“

Það er akkúrat þess vegna sem ég tel mjög mikilvægt að börn geti farið á leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi.

Það er ekki hægt að skýla sér á bak við það að leikskólinn sé ekki gjaldfrjáls þar sem hann er ekki skyldunám þar sem ríkið rekur framhaldsskóla og háskóla og hvorugt þeirra skólastiga er skyldunám. Það verður einnig að hætta að líta eingöngu á leikskóla sem gæslu ungra barna því að innan veggja leikskólans fer fram markvisst menntastarf eins og við vitum held ég flest hér.

Virðulegi forseti. Vissulega eiga mörg sveitarfélög erfitt eftir hrunið og því mikilvægt að sú vinna sem er lögð til í þessari þingsályktunartillögu nái fram að ganga til að finna leiðir til að vinna þessu máli framgang. Velferðarkerfi sem kennir sig við jafnrétti ætti að hafa það sem meginmarkmið að bjóða leikskólapláss um leið og fæðingarorlofi lýkur og gera langtímaáætlun um gjaldfrjálsan leikskóla í samvinnu við sveitarfélögin. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Mjög mikilvægt er að samhliða þeirri breytingu verði létt af ungbörnum og foreldrum þeirra óvissunni sem nú ríkir um dagvistunarmál þessa aldurshóps með því móti að sveitarfélögin sjái til þess að leikskólar þeirra standi ársgömlum börnum opnir. Einungis með því móti er unnt að tryggja að velferðar- og uppeldismarkmið samfélagsins nái fram að ganga.“

Það kemur fram í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem heyrir undir félagsmálaráðherra að eitt af markmiðum félagsþjónustunnar sé að auðvelda foreldrum að stunda atvinnu. Í 30. gr. kemur fram að félagsmálanefnd skuli sjá til þess að börn njóti hollra og þroskandi skilyrða, t.d. með því að sækja leikskóla. Í 33. gr. segir að sveitarstjórnin skuli tryggja framboð á leikskólarými og skal framboðið vera í samræmi við þarfir barna. Í 1. gr. jafnréttislaga segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Markmiði þessu skal náð með því að:

a. gæta jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins,

b. vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu,

c. gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf …“

Það kemur líka fram í 16. gr. leikskólalaga frá því 2008 að sveitarstjórn eigi að koma á gagnvirku samstarfi leikskóla og grunnskóla. Félagsleg tengsl og vinir þykja nauðsynleg þegar börn flytjast á milli skólastiga og barn sem fylgir vinum sínum við upphaf skólagöngu er líklegra til að upplifa ánægjulega skólabyrjun.

Að gera leikskólann formlega að fyrsta skólastiginu, þ.e. að fimm ára börn séu í raun skyldug til að sækja leikskóla, eykur líkurnar á því að börn til dæmis af erlendum uppruna sitji ekki eftir þegar kemur að vinatengslum og málkunnáttu. Það ætti líka að geta spornað við einelti og að auki hjálpað erlendum fjölskyldum að samlagast umhverfi sínu.

Mig langar til að lesa upp nokkrar af þeim tillögum sem höfundur þeirrar ritgerðar sem ég vísaði til hér að framan telur að gott væri að skoða nánar, með leyfi forseta. Höfundur bendir á að skoða ætti:

„… hvar mikilvægast sé að stíga fyrsta skrefið í átt að gjaldfrjálsum leikskóla. En sé það talið mikilvægast að báðir foreldrar komist út á vinnumarkað eða hafi tækifæri til að komast út á vinnumarkað að loknu fæðingarorlofi verður að byrja á að lækka dagvistunargjöld yngstu barna. Skoða hvort setja þurfi viðauka við lög þar sem tekið sé fram að börnum skuli tryggð dagvistun að loknu fæðingarorlofi. Helst gjaldfrjáls en að öðrum kosti ekki hærri en sem nemur gjaldskrá leikskóla. Athuga hvernig best sé að fjármagna breytingarnar, sérstakar barnabætur eru greiddar til foreldra barna 7 ára og yngri, ein hugmynd væri að nota upphæð þess málaflokks frekar í gjaldfrjálsan leikskóla.“

Síðan bendir hún á að skoða megi hvort gjaldfrjáls leikskóli geti einnig dregið úr notkun annarra velferðarbóta eins og atvinnuleysis- eða örorkubóta og telur hún að með aukinni atvinnuþátttöku kvenna almennt sé líklegt að landsframleiðsla hækki, en einnig sé hugsanlegt að færri vinnustundir þurfi á hverja manneskju til þess að landsframleiðsla standi í stað. Þannig yrði samfélagið í heild fjölskylduvænna.

Þetta er yfirskriftin hennar, jafnrétti og hagræn útfærsla. Þess vegna kemur hún kannski inn á þetta í tillögum sínum, hvað varðar alla þessa þætti. Málið er gott, held ég. Við vitum að það eru litlir peningar til alls staðar en málið krefst þess samt að það sé skoðað og ég held að ríki og sveitarfélög eigi að leggjast á eitt í málinu. Það er mikilvægt að tryggja öllum börnum leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi þar sem fagfólk heldur utan um þennan mannauð framtíðar okkar.