142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

37. mál
[17:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram af þingflokki Vinstri grænna og þeirri umræðu sem hefur farið fram sem hefur verið afar málefnaleg og vönduð með rökstuðningi fyrir af hverju ástæða sé til að reyna að mæta þörfinni fyrir uppeldislegar aðstæður og umönnun og gæslu frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til að börn komast inn á leikskóla. Þetta er gamalt og nýtt baráttumál Samfylkingarinnar einnig því að þegar hér var lögð fram tillaga af fyrrverandi ríkisstjórn um að lengja fæðingarorlofið þá var einmitt eitt af markmiðunum að reyna að brúa þetta bil vegna þess að það ríkir víða mikil óvissa og það er ekki mikil samfella í þeim tilboðum sem gjarnan eru á dagvistarþjónustu eftir að fæðingarorlofi lýkur þangað til leikskóli byrjar. Þess vegna fagna ég þessari tillögu.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að sveitarfélögin eru að sjálfsögðu þeir aðilar sem verða að vinna að þessu enda kemur skýrt fram í tillögunni að það er verið að óska eftir því að ríkið taki frumkvæði að því að leiða saman aðila og ræða með hvaða hætti er hægt að koma til móts við þessa þörf. Ég vona sannarlega að jafnvel þó að hart sé í ári enn þá að okkur takist að lengja fæðingarorlofið í samræmi við þá samþykkt sem þingið hefur þegar gert og að það gangi í gegn árið 2016.

Íslendingar búa svo vel að enn eru barneignir á Íslandi með því mesta í Evrópu og eftir því sem ég best veit þá er enn verið að tala um 2,2 börn að meðaltali á hverja móður. Á sama tíma er það merkilegt að á Íslandi er atvinnuþátttaka almennt mjög mikil, ekki síst kvenna, með því mesta í heiminum. Það er auðvitað hluti af styrk okkar sem samfélags að geta búið þannig um að fólk eigi kost á því að ráða hvort það er á vinnumarkaði eða sinnir barnauppeldi. Í sjálfu sér eru það rök líka, sem hafa þegar komið fram í umræðunni, að það skipti máli fyrir börnin að fá að komast á leikskóla, vera í félagsskap, vera með öðrum börnum. Eins og hér hefur verið bent á og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið eru 10% af þeim börnum sem fæðast börn innflytjenda eða nýrra íbúa á Íslandi og þau börn þurfa ekki hvað síst á því að halda að komast inn á leikskóla og njóta þeirrar samveru sem þar er, bæði í gegnum leikinn og félagsskapinn sem þar er.

Þó að við ræðum þetta út frá samfélagslegum forsendum og út frá foreldrunum þá á þetta auðvitað, eins og hér hefur komið ágætlega fram áður, að snúast fyrst og fremst um börnin. Hvað hentar þeim best? Þess vegna skiptir úrræðið miklu máli, hvort sem leikskólinn verður lengdur fyrir yngstu aldurshópana, sem er í raun og veru komið í gang í þó nokkrum sveitarfélögum, við megum ekki gleyma því, eða gripið verður til annarra lausna. Úrræðið þarf að vera vandað, það þarf mikið öryggi, vandað uppeldi, þroskavænlegt umhverfi, fræðslu og eins og ég segi góða umönnun. Við þurfum alla þessa þætti, okkur getur greint á um þetta og stundum er togast á um það hvernig börn læra og þá tek ég heils hugar undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að börn læra hvað best í gegnum leik á þessum árum og skiptir miklu máli að við nýtum okkur það betur en víða er gert í skólakerfinu núna.

Það er ekki tilviljun — og þess vegna eigum við að halda áfram — að á undanförnum árum og allt fram á þennan dag hefur Ísland verið skilgreint það land í heiminum þar sem er hvað best að vera með barn. Það hefur líka verið skilgreint að þar sé einna best að vera kona. Nú eru þessir mælikvarðar alltaf hættulegir og samanburðurinn og svo framvegis, en þarna eru þó að baki vandaðar kannanir og samanburðarupplýsingar og við eigum að leggja metnað okkar í að halda þessari stöðu þrátt fyrir þá erfiðleika sem hafa dunið á samfélagi okkar og hafa þann skýra fókus að mælikvarðinn á gott samfélag er hvernig við búum að börnunum okkar. Það er þannig í dag að við eigum leikskóla sem eru með þeim betri í heiminum. Þá tala ég af reynslu frá nokkrum löndum þar sem ég hef fengið að sjá hvernig búið er að krökkum. Þó að auðvitað sé hægt að finna mismunandi útgáfur á Íslandi þá erum við með afar vel menntað fólk inni á leikskólum, við erum með góða aðstöðu og eigum að vanda okkur að missa það ekki niður þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu.

Ég tek því heils hugar undir þessa þingsályktunartillögu og treysti á að hún fái vandaða umfjöllun í þinginu, verði send til umsagnaraðila og menn sameinist um að koma því í farveg með hvaða hætti við getum sinnt börnunum okkar best, fyrst með fæðingarorlofinu, síðan með úrræði eins og leikskóla sem þá tekur við sem er fyrsta skólastigið af mörgum í okkar kerfi. Ég treysti því á að þessi tillaga fái framgang, kannski næst það ekki, hún klárast varla á morgun en hún getur farið til umsagnar og verið endurflutt á þinginu í haust.