142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

37. mál
[17:38]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari tillögu frá hv. þingflokki Vinstri grænna og tel þessa umræðu virkilega þess virði að taka hana. Konan mín er leikskólastjóri og ég kem mikið inn á leikskóla. Mér finnst gaman að hlusta á hv. þm. Pétur H. Blöndal þegar hann talar um blessuð börnin sem eru í aðlögun, að það sé misjafnt eftir því á hvaða aldri þau eru hvernig þau þola það. Ég kom einmitt inn á leikskóla nú í síðustu viku og þar var einn í aðlögun og hann horfði á mig bænaraugum hágrátandi og spurði um mömmu — en svona er þetta.

Ég fagna sérstaklega þeim þætti sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, það er þætti atvinnulífsins. Hvernig getum við reynt að laga atvinnulífið að börnunum en ekki börnin að atvinnulífinu? Það er einhvern veginn þannig sem við þurfum að taka alla þessa umræðu, allan þennan vinkil. Þess vegna fagna ég þessari tillögu og vona að þetta fari áfram í þann farveg að við getum rætt þetta á málefnalegan og góðan hátt. Ekkert er mikilvægara í þessu þjóðfélagi en börnin, hvernig við ölum þau upp, hvernig samfélag við viljum byggja. Það er gríðarlega mikilvægt og ekki síst á tímum eins og þessum þegar báðir foreldrar þurfa að vinna úti til að ná endum saman.

Ég hef fylgst með frændfólki mínu og öðru fólki sem er með lítil börn — afi og amma eru ekki alltaf til taks í dag því að þau eru að vinna. (Gripið fram í.) — Já, segir hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Þau eru ekki alltaf til staðar eins og var í gamla daga. Maður gat alltaf hlaupið til ömmu og afa eftir skóla og annað. Það er bara ekki þannig í dag. Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera varaafi og það er dásamlegt starf að taka það að sér. En þetta er mjög þörf umræða og við þurfum að taka á þessu af fullum krafti og einhvern veginn fá heildstæða niðurstöðu í þetta.

Það er gríðarlegur kostnaður sem fylgir þessu. Þetta kom til umræðu í sveitarstjórn í Grindavík fyrir nokkrum árum, þá var einkaskóli sem vildi koma til Grindavíkur. Það var ekki samþykkt þá. En það þarf að ræða þetta. Það er gríðarlegur kostnaður sem fylgir þessu en samfélagið — allir í samfélaginu þurfa að taka sig saman um að fá niðurstöðu í þetta og leggja sitt af mörkum til að þetta sé hægt. Eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði áðan þá er mikilvægt að hafa mannauðinn — þó að maður vildi náttúrlega sjá börnin heima hjá mömmu og pabba til tveggja ára aldurs að lágmarki því að ekkert er börnunum mikilvægara en foreldrarnir, þeir eru kennararnir þeirra nr. eitt, tvö og þrjú, nógu snemma fara þau samt.

Ég fagna þessari tillögu og mun leggja mitt af mörkum til að við fáum góða niðurstöðu í málið.