142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

12. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ef umræðan gæti flætt á milli dagskrárliða mundi ég gjarnan vilja taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, að þegar fólk horfir til búsetu hygg ég að það sé alveg hárrétt, sem fram kom í hennar máli, að fólk láti sig skipta hvernig búið er að börnum í nágrenni tilvonandi vinnustaðar.

Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum sem ég lagði fram í vor ásamt hv. þingmönnum Árna Þór Sigurðssyni og Bjarkeyju Gunnarsdóttur.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að senda tilmæli til Íbúðalánasjóðs og áskorun til lífeyrissjóða og fjármálastofnana um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns niðurstaða liggur fyrir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.“

Í upphafi greinargerðar með tillögunni, ályktuninni, segir:

„Í aðdraganda alþingiskosninganna og í tengslum við myndun núverandi ríkisstjórnar voru gefin út mjög afdráttarlaus loforð um aðgerðir í þágu skuldugra heimila, þar á meðal var heitið verulegri lækkun á höfuðstól lána. Þetta hefur skapað væntingar en jafnframt leitt til óvissu.“

Ég held að óhætt sé að segja að á undanförnum vikum og dögum hefur ekki dregið úr þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið og þar af leiðandi þeim væntingum sem uppi eru, ekki síst eftir að menn eru farnir að tala um að slá heimsmet í skuldaniðurfærslu.

Síðar í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Eftir sem áður er staðhæft að verulegra aðgerða sé að vænta sem muni rétta hlut lántakenda. Fyrir fólk sem komið er í greiðsluþrot eða er í þann veginn að missa heimili sitt skiptir sköpum að fá boðaða úrlausn sem allra fyrst, megi það verða til að forða frá heimilismissi eða gjaldþroti. Einnig skal halda því til haga að ákveðin biðstaða hefur myndast á fasteignamarkaði og í úrvinnslu greiðsluerfiðleikamála. Er ástæðan meðal annars væntingar einstaklinga til þess að fá lausn sinna mála og er mikilvægt að koma til móts við þann hóp. Ef úrræði ríkisstjórnarinnar ganga eftir gæti ákveðinn hópur fengið lausn sinna mála án greiðsluerfiðleikaúrræða, svo sem greiðsluaðlögunar eða gjaldþrots. Af þessum sökum er mikilvægt að kanna þessa leið til að einstaklingar geti notið þessara úrræða og hlýtur það að vera auðsótt þar sem ríkisstjórnin hefur gefið loforð um skjótar efndir.

Þess vegna er hér lagt til að á meðan tillögur ríkisstjórnarinnar eru í vinnslu verði Íbúðalánasjóði gefin fyrirmæli um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns niðurstaða liggur fyrir í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum send samsvarandi áskorun.“

Þetta hefur verið til umræðu hér í þinginu að undanförnu og þá einnig 10. september sl. þegar rætt var um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þá viku einhverjir þingmenn í stjórnarmeirihlutanum orðum að fyrrverandi stjórnarliðum og sögðu að það skyti skökku við að þeir væru uppi með málflutning af þessu tagi og minntu á að að meðaltali, alla vega seinni hluta tímabilsins, hefðu þrjár fjölskyldur verið bornar út á dag.

Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að vitna í bréf frá Vilhjálmi Bjarnasyni, formanni Hagsmunasamtaka heimilanna, sem hann hefur sent mér og eflaust mörgum öðrum þingmönnum. Þar gerir hann þau ummæli, sem ég vék að hér síðast, að umræðuefni. Hann segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi hafi engin breyting orðið. Þrátt fyrir þær yfirlýsingar og heitstrengingar sem núverandi ríkisstjórn gaf og ríkisstjórnarflokkar gáfu í aðdraganda kosninganna hafi engin breyting orðið og enn séu þrjár fjölskyldur á dag bornar út af heimilum sínum.

Ég ætla að vitna í bréfið, með leyfi forseta:

„Ég og við í Hagsmunasamtökum heimilanna höfum verið að reyna að fá ykkur þingmenn og ráðherra til að sjá að það gengur ekki að þremur fjölskyldum sé hent út á degi hverjum. Hvernig má það vera að þið getið horft upp á það að á meðan beðið er boðaðra aðgerða ykkar sjálfra muni þrjár fjölskyldur á dag missa heimili sín sem mundu hugsanlega geta bjargast ef og þegar þessar boðuðu aðgerðir ykkar koma til framkvæmda í haust? Ef þið trúið ekki sjálfir á það sem þið eruð búnir að setja fram um lausnir handa heimilunum, hvernig getið þið þá ætlast til að við trúum því?

Ég skal trúa ykkur og ríkisstjórninni um að þið ætlið að gera eitthvað fyrir heimili landsins ef þið stöðvið nauðungarsölur og gjaldþrot strax núna á septemberþinginu. Með þessu er ég að hvetja þessa ríkisstjórn til að gera eitthvað í þessum málum strax og sannarlega er ég ekki að mæra seinustu ríkisstjórn sem stóð sig engan veginn fyrir heimili landsins.“

Það er Vilhjálmur Bjarnason, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, sem undirritar þetta bréf.

Þetta er einmitt það sem margir hafa sagt og beint gagnrýni að okkur sem höfum setið í ríkisstjórn undanfarin fjögur ár, að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi. Það er alveg rétt að finna má að ýmsu sem við gerðum eða gerðum ekki. En þó vil ég nefna að í upphafi kjörtímabilsins var sett frost á nauðungarsölur. Það frost var framlengt að minnsta kosti einu sinni, ekki við nein gríðarleg fagnaðarlæti frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en það var gert. Það var gert meðan í ljós kæmu þau úrræði sem ríkisstjórnin hefði að bjóða fólki sem ætti í skuldaerfiðleikum. Þetta var gert.

Síðan er nauðsynlegt að setja þessi mál í sögulegt samhengi þannig að menn séu látnir njóta sannmælis í þessari umræðu. Nú vitum við að engu okkar sem hér erum finnst það í lagi þegar verið er að bera fólk út af heimilum sínum. Engu okkar finnst það vera í lagi og við viljum öll að sjálfsögðu reyna að koma í veg fyrir það. En við verðum þá að taka alvarlega þau loforð sem sett voru fram fyrir kosningarnar og flokkarnir voru kosnir samkvæmt. Þetta voru loforðin sem fólk hafði fyrir sér þegar gengið var til síðustu alþingiskosninga.

Því miður varð reyndin ekki sú eftir hrunið að setja lánamálin undir neyðarlögin. Það hefði verið hyggilegt að gera það. Þá er ég að horfa til gengislánanna, ég er að horfa til alls kyns misvísandi framkvæmdar og dómsuppkvaðninga varðandi lánamálin. Við hefðum getað sparað okkur mikið með því.

Ég var sammála þeim tillögum sem fram komu frá Hagsmunasamtökum heimilanna um almennar niðurfærslur. Ég taldi það vera rétta niðurstöðu. Við vorum ekki öll á einu máli í þessu og það voru engar flokkslínur í því. Mismunandi sjónarmið voru uppi hvað þetta snertir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var hins vegar alveg klár á því að þetta mætti ekki gera, en við vorum mörg á þessu máli.

Lokaorrustan að mínum dómi átti sér stað haustið 2010 í ströngum fundarhöldum sem fóru fram í Þjóðmenningarhúsinu, síðan í Stjórnarráðinu, við fjármálafyrirtækin, við lífeyrissjóðina þar sem freistað var að ná samkomulagi um niðurfærslu lána, sem þessar stofnanir tækju þátt í. Það samkomulag náðist ekki, heldur sátum við uppi með hótanir frá fjármálastofnunum og ekki síst lífeyrissjóðunum um að farið yrði í alls kyns skaðabótamál um eignaupptöku ef menn voguðu sér að setja einhver lög um þetta eða þvinga þetta fram með einhverjum stjórnvaldsaðgerðum. Enginn grundvöllur var fyrir hinu, að við næðum samkomulagi um þetta.

Hvað gerðum við þá? Þá var ákveðið að setja sérstakan skatt á fjármálafyrirtækin til þess að fjármagna kjarabætur til þurfandi fólks, skuldugra heimila. Á þeim grundvelli komum við með hinar sérstöku vaxtabætur, bættum þar verulega í, til að létta undir með skuldugum heimilum. Þetta gerðum við þá. Að sjálfsögðu er allt önnur aðgerð að lækka höfuðstólinn vegna þess að sú aðgerð er varanleg og nær inn í framtíðina en ekki hin, að koma með plásturinn á hverju ári í vaxtabótum. En fyrir einstaklinginn og fjölskylduna skiptir að sjálfsögðu máli þegar einhver hundruð þúsunda koma inn í heimilisbókhaldið með þessum hætti. Þetta voru þær ráðstafanir sem við gripum til eftir að ljóst varð að við mundum ekki ná samkomulagi við fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðina um skuldaniðurfærslu.

Í kosningunum settum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fram ákveðnar tillögur um hvernig unnt væri að nota vaxtabæturnar og þá hugsanlega sérstakar vaxtabætur sem yrðu fjármagnaðar með skattheimtu frá fjármálafyrirtækjunum, til að lækka höfuðstól. Við tefldum þessu fram í kosningabaráttunni en gáfum engu að síður engin sver loforð, kannski líka brennd á því hvað hægt væri að okkar mati að gera og hvað við gætum staðið á að lofa afdráttarlaust gagnvart fólki sem væri í neyð.

Það voru ekki allir á þessum buxum. Framsóknarflokkurinn sérstaklega setti fram mjög ákveðin loforð og Sjálfstæðisflokkurinn gekkst inn á þau loforð með því að mynda stjórn með Framsóknarflokknum. Nú er okkur sagt að við fáum að vita í nóvember með hvaða hætti loforð um að færa niður höfuðstól lána verði framkvæmd. Síðast í dag er verið að fullyrða við okkur að þetta verði gert, og það er tifað á því í fjölmiðlum og í þingsal og hvar sem er að þetta verði gert. Með öðrum orðum að staðið verði við það að koma til móts við skuldugt fólk með því að færa niður höfuðstól. Allt í lagi, skyldi það ekki skipta máli fyrir skuldug heimili? Og er ekki eðlilegt að fólk sem stendur frammi fyrir því að verða borið út af heimili sínu eða missa heimili sín geri þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún sýni í verki að hún trúi á sjálfa sig, að hún trúi því sjálf að hún ætli að standa við loforð sín? Um það fjallar þessi þingsályktunartillaga, að hið sama verði gert og við gerðum sem sátum í fyrri ríkisstjórn að setja uppboðin í frost, að núverandi stjórnarflokkar geri það sama og við gerðum.

Við hétum því að gera allt sem við gætum til að koma til móts við skuldug heimili. Það er gagnrýnt að við höfum ekki gert nóg, við skulum taka þeirri gagnrýni. En við sögðum: Á meðan það er að gerast skulum við setja þetta í frost. Tillagan gengur út á þetta. Ég spyr stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og aðstandendur þessara loforða: Ætla þeir ekki að sýna okkur í verki að þeir trúi á sjálfa sig?