142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

12. mál
[18:08]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni að í tillögunni eru einmitt tilmæli annars vegar og svo áskorun sem á að vera hægt að framfylgja án þess að það taki stórkostlega á kerfið. Fyrr í dag þar sem var rætt um eignarrétt lántakenda kom margt afar áhugavert fram en nú er til umræðu tillaga okkar nokkurra þingmanna Vinstri grænna til þingsályktunar um frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum. Ég vona svo sannarlega að hún fái góðar undirtektir.

Stjórnvöld hafa boðað stórtækari aðgerðir til lækkunar á lánum einstaklinga í skuldavanda en dæmi eru um áður. Í umræðum um vel kunna þingsályktunartillögu ríkisstjórnarflokkanna sem dreift var á Alþingi þann 11. júní gekkst hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson greiðlega við því að íslenskum almenningi hefði með þingsályktunartillögunni verið gefnar ástæður til að vænta þess að mjög verulegar breytingar á skuldamálum almennings væru í vændum. Með þingsályktunartillögunni hefði verið lagður grunnur, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, „að umfangsmestu aðgerðum í þágu heimila, ekki bara á Íslandi heldur a.m.k. í Evrópu og hugsanlega heiminum öllum“. Það er ekkert minna.

Það er verið að leggja grunn að aðgerðum á heimsmælikvarða, sagði forsætisráðherra og var glaðbeittur í ræðustól 27. júní síðastliðinn. Það voru sannarlega mikil tíðindi sem hæstv. forsætisráðherra flutti landsmönnum á þessu sumarþingi. Sjálfur heimsmælikvarðinn átti að gilda þegar ráðstafanir í skuldamálum einstaklinga yrðu undirbúnar og framkvæmdar, ekkert minna en það. Fólk hefur svo sannarlega gert sér væntingar af minna tilefni. Orð forsætisráðherra voru sannarlega stór og tilkomumikil og hver veit nema þau hafi beinlínis verið á heimsmælikvarða. En það verður að fylgja þessari sögu að enn þá eru það stóru orðin ein sem standa upp úr flatneskjulegu athafnaleysi sem ríkt hefur í skuldamálunum vondu og margumtöluðu frá því að þau voru sögð í sumar.

Virðulegi forseti. Eins og gefur að skilja hafa bæði skuldarar og lánveitendur lagt eyrun við orðum hæstv. forsætisráðherra. Annað væri fráleitt og óábyrgt þegar aðgerðir á heimsmælikvarða eru í vændum. En sumarið er liðið og enn lítið um efndir. Vonin um skjótar aðgerðir hefur dvínað, enda öllu vísað í ráð og nefndir. Það verður að segjast eins og er að ef íslensk stjórnmálasaga hefur kennt okkur eitthvað þá er það það að mál sem sett eru í nefndir klárast gjarnan seinna en ráð var fyrir gert í upphafi og sum aldrei.

Hér erum við nú og enn er ekki ljóst í hverju aðgerðirnar stóru felast sem þýðir vitanlega að ekki er unnt að bregðast við þeim með raunhæfum hætti. Þau skrumkenndu kosningaloforð um skuldalækkun sem tóku á sig mynd í fyrrnefndri þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafa enn ekki megnað annað en að auka óvissu fólks um málalyktir á þeim vettvangi. Hversu mikil verður skuldalækkunin, hvaða lán verða lækkuð, hvenær gerist eitthvað af því sem boðað hefur verið? Þannig spyr fólk hvert annað, þannig spyr það mig og sjálfsagt fleiri fulltrúa hins opinbera. Enn er fátt um svör og meðan svo er búa landsmenn við óvissu sem verður því óbærilegri sem lengra líður frá hinni mergjuðu yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra.

Þingsályktunartillagan sem hér er flutt um frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum felur í sér viðbrögð við því óvissuástandi sem loforð um skuldaniðurfellingu á heimsmælikvarða hafa skapað. Megintilgangur hennar er að skapa viðunandi ástand meðan þess er beðið hvaða ráðstafanir heimsmælikvarðinn mun mæla út til handa skuldugum Íslendingum.

Því skal einnig haldið til haga að skammir frestir geta valdið þeim lántakendum tjóni sem eru í baráttu við fjármálafyrirtæki með fullt af sérfræðingum, lögmönnum eða annars konar sérfræðingum sem eiga að reikna út.

Virðulegi forseti. Fregnir hafa borist af því að eigendur skuldsettra fasteigna ýmist veigri sér við að selja eignir sínar eða setji fyrirvara í kaupsamninga um efndir á loforðum ríkisstjórnarinnar þar sem fólk óttast að glata rétti sínum til skuldaniðurfellingar. Það hefur verið sett ákveðið frost í markaðinn þar sem beðið er eftir aðgerðum sem áttu að koma strax í vor. Þar sem ég stóð nú sjálf í slíkum fasteignaviðskiptum hafði ég bein samskipti við fasteignasala sem staðfestu þetta.

Því hefur verið haldið fram að fyrri ríkisstjórn hafi gert lítið í skuldamálum heimilanna. Ég get ekki verið meira ósammála þó að margt megi gera betur. Allt kjörtímabilið var unnið að lánamálum heimilanna með margvíslegum hætti. Það er ástæða til að rifja upp, eins og hv. 1. flutningsmaður þessa máls gerði áðan, að sú ríkisstjórn sem hér sat árin eftir hrun gekkst fyrir tímabundinni frystingu af þessu tagi fljótlega eftir hrun og hún var svo síðar framlengd. Var 1. flutningsmaður þessa máls þar í fararbroddi og hvatti okkur nú til dáða að gera það aftur því að við vitum að svona stór mál verða ekki leyst með einni einfaldri aðgerð sem hentar öllum alltaf. Þess vegna höfum við efasemdir um tillögu framsóknarmanna sérstaklega, hún hittir alla vega ekki alveg í mark hjá okkur.

Eins og hv. þingmaður fór yfir áðan kom í ljós haustið 2010 þegar rætt var heilmikið við fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðina að þessir aðilar mundu ekki sætta sig við það að fara í slíkt, þ.e. almenna niðurfærslu. Það er auðvitað alveg þess virði að skoða þá aðferð sem þar var notuð, þ.e. að skattleggja fjármálafyrirtækin og fjármagna sérstakar vaxtabætur, eins og hér var komið inn á áðan, í staðinn fyrir að lækka skatta út um allar koppagrundir. Sú aðferð væri frekar notað akkúrat í þessari aðgerð. Það er í rauninni ástæða til að halda þessum greiðslum áfram, a.m.k. þar til eitthvað liggur fyrir, einhverjar aðrar lausnir sem fólk getur fest hönd á.

Virðulegi forseti. Það segir sig sjálft að fyrir fólk sem er í brýnum vanda og á yfir höfði sér að missa íbúðarhúsnæði sitt gerir sér réttmætar vonir um að boðaðar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar muni rétta hlut þess. Það er af þeirri ástæðu sem við þingmenn Vinstri grænna teljum mikilvægt að kanna þá leið sem í þingsályktunartillögunni felst til að einstaklingar geti notið þessara úrræða. Ef ríkisstjórnin tekur sjálfa sig alvarlega og miðað við loforð um skjótar efndir ætti henni ekki að verða skotaskuld úr því að reyna að telja lánamarkaðinn á að fresta innheimtuaðgerðum á uppboðum þar til ríkisstjórnin er tilbúin með sínar tillögur til framkvæmda.