142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

12. mál
[18:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég var leiðréttur hérna áðan og langar að benda á að í þingsályktunartillögunni kemur fram, með leyfi forseta, að send séu tilmæli til Íbúðalánasjóðs og áskorun til lífeyrissjóða og fjármálastofnana. Það eru því tilmæli til Íbúðalánasjóðs sem þýðir víst, er mér sagt, að Íbúðalánasjóður fellur undir framkvæmdarvaldið og þar af leiðandi geta ráðherrarnir skipað þeim fyrir.

Ef svo er er þetta náttúrlega borðleggjandi dæmi, þá þarf ekki að fara í dómsmál um þetta, eða hvað? Það þarf ekki að beita lögbanni, þá er Íbúðalánasjóði bara skipað að taka ekki íbúðir eignarnámi eða setja íbúðir á nauðungarsölur ef húseignin sem lánið hvílir á er heimili fólks, þannig að það er náttúrlega borðleggjandi.