142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi og tekjum af orkuauðlindum.

44. mál
[18:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni þessarar tillögu til þingsályktunar fyrir framsögu hennar og kynningu á málinu. Við ræðum hérna hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi og tekjum af orkuauðlindum. Ég veit að það er verið að hugsa þetta þannig að verið sé að reyna að ná sátt í því umdeilda máli sem veiðigjöldin eru. Fá mál hafa verið rædd jafn mikið á þingi undanfarna mánuði og missiri og sérstök veiðigjöld og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í heild. Þetta er því mál sem hefur verið í mikilli umræðu úti í samfélaginu, hjá sveitarfélögunum og íbúum sjávarbyggða og hjá fólki almennt í landinu sem vill að auðlindarentan nýtist til uppbyggingar innviða alls samfélagsins.

Þá er komið að því að hugsa með hvaða hætti sé hægt að deila þessari sameiginlegu köku okkar landsmanna, auðlindum landsins, hvort sem talað er um sjávarauðlindina eða annars konar auðlindir eins og auðlindir í vatnsfalli og jarðvarma og fleiri auðlindir sem auðlindarenta kemur til með að verða tekin af fyrir sameiginlega sjóði landsmanna. Í þessari þingsályktunartillögu er gengið út frá því að ríkisvaldið í samráði við Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og Samtök orkusveitarfélaga móti tillögur sem lúta að því hvaða hluta af þessari köku sjávarútvegssveitarfélög og svokölluð orkusveitarfélög fái. Ég skil það þannig að verið sé að tala um að þau fái hluta af þessari köku umfram önnur sveitarfélög sem falla ekki undir orkusveitarfélög eða sveitarfélög sem eru í Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga. Í þeim efnum getur margt verið vandmeðfarið, eins og hvernig hægt er að útfæra það án þess að mismuna íbúum landsins með einhverjum hætti.

Í frumvarpi sem var lagt fram í vetur um heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða voru tillögur um að sveitarfélögin fengju ákveðinn hlut af leigu aflaheimilda og sá pottur skiptist þannig að sveitarfélög fengju 40% af tekjum sem mundu verða til við að leigja úr þeim potti, ríkið 40% og 20% færu til þróunarsjóðs tengdum sjávarútvegi. En útfærslan á því var ekki frágengin og það var sett í hendur landshlutasamtökum sveitarfélaga og hagsmunaaðilum og ríkinu að koma með tillögur í þeim efnum og útfæra þær.

Það sem ég geld varhuga við varðandi þetta mál er að við séum að horfa til þeirra sveitarfélaga sem eru betur sett en mörg önnur vegna þess að þau hafa stóran hluta af atvinnutekjum sínum úr sjávarútvegi og hafa því ekki farið illa út úr kvótakerfinu. Önnur sveitarfélög sem hafa farið illa út úr kvótakerfinu sitja þá eftir og fá ekki sinn skerf af þessari sameiginlegu auðlind í formi auðlindarentunnar til þess að byggja sig upp og byggja upp innviðina í kjölfar þess að hafa misst frá sér aflaheimildir. Eins og ég hef skilið þessa tillögu þá á að taka tillit til hlutfalls starfa í viðkomandi sveitarfélögum þegar útdeilingin verður og hlutfall starfa hjá þeim sveitarfélögum sem hafa farið illa út úr kvótakerfinu er því lægra. Þetta er eitt af því sem ég er hugsi yfir.

Í fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar voru tekjur af sérstöku veiðigjaldi markaðar í brýn verkefni vítt og breitt um landið sem nýttist vel íbúunum og átti það jafnt við um svæði sem höfðu sjávarútveg sem aðalatvinnuveg og önnur sem voru ekki með sjávarútveg sem aðalatvinnuveg. Frekar var horft til þess hvar væri brýn þörf á að mæta veikari byggðum vítt og breitt um landið, sem er auðvitað mjög nauðsynlegt að gera.

Ég horfi líka til þessa varðandi orkusveitarfélögin í landinu. Ef hugsunin er sú að þau eigi mögulega að fá tekjur af auðlindarentu af þeirri auðlind sem þar er undir umfram önnur sveitarfélög sem eru ekki svo heppin að hafa virkjanir eða auðlindir þá horfi ég til þess hvort við séum nokkuð að gæta jafnræðis á milli sveitarfélaga.

Ég er hlynnt því að við göngum þann veg að við reynum að jafna sem mest gæðin á landsvísu. Eins og varðandi orkuna — að reynt verði að jafna orkuverð á milli sveitarfélaga á köldum svæðum og sveitarfélaga sem eru svo heppin að vera á svæðum þar sem orkuverð er lágt og hafa miklar tekjur af orkuveitum og virkjunum. Þau sveitarfélög sem nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar ættu að leggja eitthvað til til þess að jafna hag annarra sveitarfélaga og íbúa. Ég vil ganga út frá því að leita eigi allra leiða til þess að deila þeim hagnaði og þeim ávinningi sem er af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, hvort sem það er vatnsafl eða jarðvarmi eða fiskimið okkar, sem best til allra landsmanna.

Ég veit ekki alveg hvort það er rétta leiðin að gera akkúrat þessum Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga og Samtökum orkusveitarfélaga hærra undir höfði en öðrum sveitarfélögum sem falla ekki þarna undir. Ég vil sjá þarna jöfnuð en ekki að verið sé að ýta undir að þessi sveitarfélög hafi einhvern forgang umfram önnur að fá hluta af kökunni.

Ég held að það sé mjög brýnt að taka þessa umræðu og fara vel ofan í saumana á þessum málum. Ég veit að flutningsmönnum þessarar tillögu gengur að sjálfsögðu gott til, ég efast ekki um hug þeirra varðandi þetta mál, en ég held að við þurfum að fara mjög vel ofan í þetta (Forseti hringir.) og sjá hvernig hægt er að jafna sem best ávinningi af auðlindum landsins til allra landsmanna.