142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi og tekjum af orkuauðlindum.

44. mál
[18:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um tillögu til þingsályktunar sem líta má á sem fyrst og fremst leiðbeinandi tillögu fyrir þá vinnu sem er í gangi í atvinnuvegaráðuneytinu varðandi endurskoðun á löggjöfinni um fiskveiðistjórn. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að hafa þau skilaboð skýr að við teljum að hluti af því gjaldi sem lagt er á auðlindir landsins renni til byggðarlaganna, þ.e. til sveitarfélaganna, þó að alltaf megi deila um með hvaða hætti það eigi að vera.

Ég fékk tækifæri til þess að vinna að skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða ásamt hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, sem var í ræðustóli áðan, þar sem okkur gafst tími til að skoða söguna. Það er svolítið forvitnilegt að skoða tímabilið í sjávarútvegi frá 1993 til okkar daga, sem sagt síðastliðin 20 ár, og hvaða leiðarstef hefur verið þar í gangi frá því að kvótakerfið var sett á og raunar sjálfsagt áður og nefndir hafa verið skipaðar til að rétta við ákveðna hluti. Rauði þráðurinn í gegnum alla þá vinnu, aftur og aftur í gegnum endurtekna vinnu, því að ákveðnir hlutir hafa alls ekki náðst í gegn, hafa verið tveir að mínu mati: Það eru annars vegar mjög rík byggðasjónarmið, sem því miður hefur ekki verið komið til móts við þrátt fyrir góðan vilja, og hins vegar þörfin á sátt í samfélaginu á milli þjóðarinnar, sem er eigandi auðlindarinnar, og þeirra sem fá leyfi til að nýta hana. Það er kannski það sem við erum enn þá að eltast við. Það hefur einhvern veginn ekki tekist á öllum þessum tíma að ná meiri hluta fyrir því á Alþingi Íslendinga í baráttunni við hagsmunaöflin á hverjum tíma að ná þessum tveimur meginsjónarmiðum fram. Ég hef ítrekað sagt í ræðustól að það er fullkomlega óþolandi fyrir atvinnugreinina, mikilvægustu atvinnugreinina í landinu, að það skuli sífellt og endalaust verið að takast á um starfsumhverfi hennar og það skuli vera pólitískt mál á fjögurra ára fresti í kosningum. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum með einhverjum hætti sátt í þessu máli en þá verða menn að koma til móts við sjónarmið hver annars.

Það er líka forvitnilegt að skoða auðlindaumræðuna, þ.e. réttlætið í kringum nýtingu auðlinda, hverjir eiga að eiga auðlindir í landinu, hvernig á að stýra þeim og hver á að njóta arðsins. Það er heldur ekkert nýtt mál. Hér var skipuð auðlindanefnd fyrir síðustu aldamót sem skilaði ítarlegri skýrslu árið 2000 þar sem tekin var heildarstefna þar sem sjávarútvegurinn var aðeins lítill hluti. Það er fróðlegt að lesa þá skýrslu vegna þess að við erum í raun enn að fjalla um sömu hlutina. Skýrslan var síðan unnin að nýju af nýrri auðlindanefnd og skilaði af sér á síðasta kjörtímabili þar sem enn er verið að reyna að finna út með hvaða hætti við eigum að deila þessum sameiginlegu auðlindum og láta þjóðina sem heild njóta arðsins.

Það var forvitnilegt, og ég hef oft verið að rifja það upp, að þegar auðlindanefndin hafði lokið störfum var skipuð endurskoðunarnefnd til þess að útfæra hugmyndir frá auðlindanefndinni hvað varðar sjávarútveginn. Þar kom upp ágreiningur, sem var mjög harður á þeim tíma, um það hvernig menn ættu að taka gjald af sjávarútvegi. Rætt var um hvort það ætti að gera það með veiðileyfagjaldi eða með svokallaðri fyrningarleið sem þekkt er, eða gjaldtöku sem fólst í því að menn borga fyrir afnotin í gegnum markaðsverð á auðlindinni. Niðurstaðan eftir miklar deilur og ótrúlega lítinn mun á milli þessara tveggja skoðana var að fara veiðigjaldsleiðina. Síðan var veiðileyfagjaldið lagt á, en ég hef nú sagt að illu heilli þá voru burðir Alþingis ekki meiri en að síðan var samið um hvernig ætti að leggja það á. Það var tengt afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna og megnið af þeim tíma sem leið frá því að þetta var lagt á upp úr 2000 var undanþága frá ákvæðinu og það ekki látið taka að fullu gildi vegna afkomunnar í sjávarútveginum. Samt var tillagan afkomutengd. Þannig hefur þetta verið í gegnum árin og í raun og veru hefur sjávarútvegurinn aldrei greitt það gjald sem þarna var þó lagt á. Og ekki voru það vinstri menn sem voru við stjórn á þeim tíma heldur sömu aðilar og eru núna við stjórnvölinn.

Það er mjög gaman að lesa margar setningar úr þessum skýrslum, það kemur ágætlega fram í skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða vegna þess að viðfangsefnið þar var að draga þetta fram og vinna úr því. Ég nefni þetta hér vegna þess að ég held að það sé mikilvægt að við reynum að ná einu skrefi í viðbót. Við verðum að heita á nýja ríkisstjórn að hún þori að fylgja eftir mörgum af þeim málum sem sett voru í gang og að við hjálpumst öll að við að reyna að klára málið ef mögulegt er til þess að fá fram sátt um málið.

Það sem er mjög forvitnilegt við þessa „endurskoðunarnefnd“ árið 2001 er að fram kemur í tillögunum að nefndin leggur til að fjórðungur veiðigjalds umfram einn milljarð renni til almennrar styrkingar sveitarfélaga sem treysta á sjávarútveg í samræmi við uppruna greiðslunnar, þ.e. veiðigjöld vegna þeirra heimilda sem bundnar eru við skip í sveitarfélaginu. Það er strax komið inn hjá „endurskoðunarnefndinni“ árið 2001. Það hefur líka verið rík tilhneiging og það hefur alltaf verið sett inn í markmiðskaflann í sjávarútvegsmálunum að eitt af hlutverkunum í stjórn fiskveiða eigi að vera það að efla atvinnu og efla byggð. En þar hefur gengið á ýmsu og það er alveg rétt sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir bendir á að það getur verið erfitt þegar menn ræða núna um að skila einhverju til sjávarútvegssveitarfélaga, að það eru auðvitað sveitarfélög sem misst hafa kvóta og eru ekki lengur í þeim flokki. Hvernig á að koma til móts við þau? Á hinn bóginn er Reykjavík auðvitað eitt af stóru útgerðarsveitarfélögunum og nýtur svo ýmiss konar forréttinda vegna stærðarinnar og vegna þess umhverfis að hafa hér obbann af þjónustunni í landinu og miðlægu stofnanirnar fyrir landið allt. En það breytir því ekki að það er mikilvægt að tillagan komist inn í þingið og fái þar umræðu og fari til vinnslu í atvinnuvegaráðuneytinu við þá vinnu sem þar er unnin núna við endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Frekari úrræði sem notuð hafa verið til þess að reyna að jafna stöðuna eru meðal annars byggðakvótinn. Einnig hafa verið ákveðnar ívilnanir og þess vegna voru hér tillögur um að vera með ákveðinn hluta af sjávarútvegskerfinu sem væru einhvers konar pottar, eins og það var kallað, sem væru til þess að koma til móts við sérstakar aðstæður á ólíkum stöðum. Byggðastofnun hefur, ef ég hef skilið rétt — ég er nú ekki alveg viss um að ég fari rétt með töluna, en ég var að hlusta á Þórodd Bjarnason sem er stjórnarformaður Byggðastofnunar — um 1.800 tonn til úthlutunar sérstaklega til sveitarfélaga þar sem skiptir mestu máli að tryggja að lífið haldi áfram þar og þau verði til sem sveitarfélög inn í framtíðina. Við megum heldur ekki gleyma því sem gert var á síðasta kjörtímabili, meðal annars varðandi strandveiðarnar, sem hefur auðvitað styrkt ákveðnar byggðir og fært líf í hafnirnar og haft veruleg áhrif. Einnig var ákvæðum breytt í sambandi við það hverjir mættu veiða síld og makríl. Smábátar hafa verið að veiða þær tegundir sem hefur þýtt að minni byggðarlög hafa getað nýtt sér það. Það hefur haft veruleg áhrif á stöðum eins og Hólmavík þar sem útgerðin er að öðru leyti farin. Þetta eru allt saman hlutir sem byggja þarf á áfram þannig að við sköpum ólíkum útgerðarformum möguleika á því að þrífast á minni stöðum um landið allt.

En hér er sem sagt tillaga sem ég vona að fái að fara til umsagnar. Þá koma menn með þau sjónarmið hvort rétt sé að binda þetta við þau sveitarfélög sem hafa orkuna eða sjávarútvegsfyrirtækin eða hvort horfa skuli til annarra hluta. En skilaboðin sem skipta mestu máli eru skýr, við viljum að veiðileyfagjaldið verði notað til þess að efla byggðir í landinu til þess að tryggja að Ísland verði áfram í byggð. Það eru ekkert lítil skilaboð, það skiptir miklu máli að við förum að gefa skýr skilaboð um það því að það kemur alltaf annað slagið upp í umræðunni að einhver sveitarfélög verði jafnvel að leggjast af og það sé spurning um hagkvæmni og svo framvegis. Ætlum við að byggja Vestfirði eða ætlum við ekki að byggja þá? Við ætlum að byggja þá, við ætlum að halda þeim gangandi. Þá verðum við líka að setja það í forgang að hlúa að þeim þannig að byggðarlögin þar geti lifað áfram, svo ég taki bara einn landshluta sem málið fjallar meðal annars um.