142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

kynbundinn launamunur.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel að ekki sé mikill ágreiningur á milli flokka um markmiðin í þessu. Það er einfaldlega óþolandi að fólki sé mismunað á grundvelli kyns þegar unnin eru sambærileg störf og menn gegna sambærilegri ábyrgð. Það er bara óþolandi. Það er misrétti sem við viljum ábyggilega öll vinna gegn. Hvernig það verður best gert er greinilega stóra úrlausnarefnið.

Stundum nálgast menn umræðuna þannig að það beri að einblína á stéttir þar sem einkum eru konur að störfum og menn hafa þá dregið fram að þar virðast launin almennt vera lægri. Það er auðvitað ein leið, en mér sýnist að almennt hafi það orðið til þess að aðrir sem telja sig gegna sambærilegri ábyrgð hafi um leið litið til þeirra breytinga sem þar hafa orðið á kaupi og kjörum og sagt að það eigi þá um leið að eiga við sig.

Nýjasta dæmið um þetta er þegar laun voru hækkuð hjá hjúkrunarfræðingum. Það er mjög greinilega uppi almenn krafa um (Forseti hringir.) það innan launþegahreyfingarinnar að horfa til þess sem þar (Forseti hringir.) gerðist, alveg óháð því að þar var að uppistöðu til um kvennastétt að ræða.