142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

friðlýsing Þjórsárvera.

[15:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Í viðtali við hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu síðasta mánudag kemur fram að hann segist telja að almenn sátt sé um verndun Þjórsárvera. Eins og kunnugt er frestaði hæstv. ráðherra því að staðfesta friðlýsingu Þjórsárvera nú í sumar og var það gert allskyndilega, mér er meira að segja sagt að búið hafi verið að baka kökurnar fyrir friðlýsinguna þegar ákveðið var að fresta þeirri athöfn, hæstv. ráðherra getur kannski staðfest það hér á eftir.

Í ljósi þeirra orða hæstv. ráðherra — sem ég tek undir, ég tel að almenn sátt ríki um verndun þessa svæðis — langar mig að inna hann eftir því hvort ekki standi til að ljúka því friðlýsingarferli sem hafið var. Hæstv. ráðherra gaf jú þá skýringu að borist hefðu athugasemdir sem þyrfti að fara sérstaklega yfir. Mér hefur borist til eyrna að nú þegar sé búið að vinna úr þeim athugasemdum þannig að mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort og þá hvenær standi til að ljúka því að staðfesta friðlýsingu Þjórsárvera.