142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

þverfagleg samvinna í heilbrigðisþjónustu.

[15:16]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Herra forseti. Sjaldan hefur verið svo mikil þörf á markvissri nýtingu mannafla í heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir byltingarkenndar framfarir í þekkingu og færni fagfólks eru megindrættir í skipulagi og skiptingu verkefna og ábyrgðar þeir sömu og voru áratugum fyrir þessar miklu framfarir. Faghópum heilbrigðisþjónustu hefur fjölgað og þekking hefur stóraukist í öllum faghópum. Aukin þekking og færni nýtist skjólstæðingum og hefur ótvíræð áhrif á öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Margar vísbendingar eru þó hér á landi um að þekking og færni heilbrigðisfagfólks sé ekki nýtt sem skyldi á sjúkrahúsum og í heilsugæslu. Rannsóknir sýna að markvisst samstarf fagaðila sem eru sérfræðingar hver á sínu sviði og axla ábyrgð til samræmis eykur öryggi þjónustu og hefur jákvæð áhrif á starfsorku og starfsánægju.

Nú er brýnt að hvetja stjórnendur í heilbrigðisþjónustu til að endurskoða skipulag starfa, þverfaglegt samstarf og útdeilingu ábyrgðar í ljósi mikilla breytinga á þekkingu og færni mannafla. Til dæmis er öfugsnúið að læknar verji tíma og starfsorku til að kvitta upp á meðferð annarra sérfræðinga eins og sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa. Það er líka öfugsnúið að þeir verji tíma sínum og starfsorku í að ávísa lyfjum sem hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa þekkingu og færni til að annast.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvaða áætlanir liggja fyrir á þessu kjörtímabili til að efla þverfaglega samvinnu og til að bæta markvissa nýtingu þekkingar og færni mannafla til hagsbóta fyrir skjólstæðinga, starfsfólk og rekstur heilbrigðisþjónustu hér á landi.