142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[15:41]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila, þ.e. svokölluð lánsveð. Frumvarpið er á þingskjali 95 og er 36. mál þessa þings. Flutningsmaður málsins ásamt mér er hv. þm. Katrín Júlíusdóttir.

Hér er á ferðinni einfalt frumvarp til heimildar laga til handa ríkissjóði Íslands, þ.e. að ríkið fái heimild til að stuðla að lækkun eftirstöðva lánsveðslána lífeyrissjóða, lána sem tekin voru fyrir 1. janúar 2009, með því að greiða til hlutaðeigandi lífeyrissjóðs sem svarar allt að 90% kostnaðar við niðurfærslu á eftirstöðvum slíkra lána. Lífeyrissjóðirnir mundu annast um framkvæmdina en ríkið tæki þátt í kostnaðinum af niðurfærslunni sem næmi allt að þessum mörkum.

Um það hefur orðið samkomulag við lífeyrissjóði, sem ég kem nánar að á eftir, að greiðslum ríkisins yrði þannig hagað að þær kæmu í þremur jöfnum áföngum í janúarbyrjun árin 2014, 2015 og 2016 og bæru greiðslur tveggja síðari áranna vexti upp á 3,25%.

Að öðru leyti er frumvarpið um að hafa skuli samráð við og tryggja samþykki Fjármálaeftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA sem og Samkeppniseftirlitsins um framkvæmdina og að lífeyrissjóðirnir efni að sínu leyti samkomulagið með því að hafa staðfest þátttöku sína í því.

Um forsögu málsins er það að segja, virðulegur forseti, að hér er á ferðinni sá vandi sem skapast af því að á undangengnum árum keyptu menn fasteignir í talsverðum mæli og tóku til þess lán hjá lífeyrissjóðum en höfðu ekki veðrými á sinni eigin eign og fengu það þá oftast lánað hjá einhverjum tengdum aðilum. Þannig sýndi gagnaöflun á árinu 2012 að tæplega 10 þúsund af um 100 þúsund fasteignaviðskiptum á árunum 2000–2011 voru fjármögnuð að einhverju leyti með lánuðum veðum eða lánum sem veð voru veitt fyrir í annarri eign. Athugun leiddi enn fremur í ljós að heildarfjöldi þessara skuldara var um 6.700. Af þeim höfðu tæp 4 þúsund nýtt lánin beinlínis til að fjármagna íbúðarkaup, því að að sjálfsögðu nýttu menn sér lánsrétt sinn hjá lífeyrissjóði í einhverjum mæli. Þeir fengu til þess lánað veð en notuðu fjármunina til annars en íbúðarkaupa. Þau lán eiga að sjálfsögðu ekki við hér, það er ekki verið að ræða um að færa höfuðstól þeirra niður.

Það kom sömuleiðis fram við gagnasöfnun á árinu 2011 og 2012 að það er nokkuð erfitt að fá heildaryfirlit eða sýn yfir þennan hóp í heild sinni og einnig að átta sig nákvæmlega á stöðu hans í dag einfaldlega vegna þess að margir í þessum hópi hafa væntanlega jafnframt verið með gjaldeyris- eða gengistryggð lán og fengið einhvern endurútreikning á þeim og staða þeirra hefur þar af leiðandi lagast. Sömuleiðis hefur þessi hópur í einhverjum mæli notið góðs af svonefndri 110%-leið og þá í þeim tilvikum að fasteign viðkomandi var orðin yfirveðsett og umfram 110% þannig að menn fengu einhverja niðurfærslu á lánunum sem stóðu á eigninni í eigu lántakans, en að sjálfsögðu hafa lánsveðin þá ekki verið hreyfð í þeim tilvikum.

Menn reikna því með að vandinn hafi eitthvað minnkað en hann er engu að síður tilfinnanlegur og hefur legið alllengi fyrir að það vandkvæði væru við að tryggja þessum hluta hópsins sambærilega úrlausn og 110%-leiðin gerði almennt gagnvart öðrum. Það á sérstaklega við þegar lánin voru frá lífeyrissjóðum.

Bankar og önnur fjármálafyrirtæki hafa í talsverðum mæli fundið lausn á þessu máli, sérstaklega þegar um er að ræða að báðir aðilar, sá sem lánið tók og sá sem lánaði veðið, voru í viðskiptum hjá sama banka. Er ástæða til að ætla að þá hafi almennt unnist úr málum viðkomandi þannig að þeir hafi fengið sambærilega úrlausn og aðrir að breyttu breytanda. En þegar lánin voru hjá lífeyrissjóðum hefur lítið gerst.

Vandinn var mönnum í sjálfu sér ljós þegar samkomulagið tókst um 110%-leiðina í desember 2010, sem undirritað var 15. janúar 2011. Þá var ásetningur aðila sem að því samkomulagi stóðu, ríkisins, lífeyrissjóðanna og fjármálafyrirtækjanna eða bankanna, að skoða það í framhaldinu hvernig hægt væri að takast á við þennan afmarkaða þátt málsins. Það reyndist hægara sagt en gert og mætti segja af því talsverðar sögur hversu strembnar þær viðræður voru og voru lífeyrissjóðirnir ákaflega á varðbergi gagnvart því að taka á sig kostnað sem menn gætu haldið fram að væri að einhverju leyti á kostnað sjóðfélaganna og eignar þeirra í réttindum í lífeyrissjóðunum.

Í raun er það svo að lífeyrissjóðirnir gerðu það að fortakslausu skilyrði fyrir þátttöku í samstarfi að þessu leyti að leiðir fyndust til þess að tryggja að ekki væri um beina skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignarréttindum sjóðfélaganna að ræða. Hafa stjórnendur lífeyrissjóða að sjálfsögðu mikið til síns máls í þeim efnum að hlutverk þeirra er að sjálfsögðu að gæta þeirra réttinda.

Það breytir ekki hinu að þetta eru líka þeir sjóðfélagar sem lánin tóku á grundvelli lánsréttar hjá lífeyrissjóðum sínum og vandi þessa hóps er tilfinnanlegur. Í mjög miklum mæli er hér um ungt fólk að ræða, iðulega fólk sem keypti sína fyrstu eign á þessum árum og fékk lánað veð hjá foreldrum eða systkinum. Það verður því ekki deilt um samfélagslegt mikilvægi þess að finna lausn á þessum vanda og lífeyrissjóðirnir eiga líka mikið í húfi að málið leysist vel. Við höfum af hálfu ríkisins fært fram þau rök að með þessu batni þær eignir sem eftir standa, greiðsluviljinn aukist og lífeyrissjóðirnir eigi þar af leiðandi líka mikilla hagsmuna að gæta í því að úr þessu greiðist og að reikna megi það til fjár. Þar af leiðandi sé eðlilegt að lífeyrissjóðirnir taki að talsverðu leyti þátt í kostnaðinum.

Það er líka ljóst að það mun draga mjög úr þörfinni fyrir sársaukafullar og kostnaðarsamar fullnustuaðgerðir af hálfu lífeyrissjóða sem hafa óumdeilanlega í för með sér kostnað. Í bankakerfinu er jafnvel talið að reikna megi með að um 20% fari í slíkar aðgerðir í formi kostnaðar og eignarýrnunar og annarra slíkra hluta.

Eftir gríðarlega langt og strembið samningaþóf náðist loks samkomulag og var sameiginleg viljayfirlýsing undirrituð í aprílmánuði sl. af fjórum ráðherrum í þáverandi ríkisstjórn og forsvarsmönnum lífeyrissjóða og Landssamtaka lífeyrissjóða. Allir stærstu lífeyrissjóðirnir voru þátttakendur í því samstarfi þar sem búið er um málið með þeim hætti að meginþorri kostnaðarins lendi að vísu vissulega á ríkissjóði enda höfðu menn þá sætt sig við að þannig yrði það að vera, ætti að ráðast í þessa aðgerð, en þó taki lífeyrissjóðirnir þátt í kostnaði sem nemur á bilinu 10–15%, aldrei minna en 10% og ekki meira en 15%. Lausleg áætlun var að niðurstaðan gæti orðið nálægt 12% hjá lífeyrissjóðum og 88% hjá ríki.

Það er rétt að halda til haga að lífeyrissjóðirnir samkvæmt þessu samkomulagi taka líka að sér að annast um alla framkvæmdina og bera kostnaðinn af því. Þeir leggja í raun út fyrir niðurfærslunni og ríkið greiðir sitt til baka á þremur árum með tiltölulega hagstæðum kjörum þannig að í reynd má segja að þátttaka lífeyrissjóðanna sé verðmætari en sem nemur þessum hundraðshlutföllum einum saman.

Eitt af skilyrðum samkomulagsins, eigi það að ganga eftir og komast til framkvæmda, er að ríkisstjórn afli nauðsynlegra lagaheimilda til þess að skuldbinda ríkissjóð til að endurgreiða lífeyrissjóðunum kostnað. Lífeyrissjóðirnir vilja hafa fast land undir fótum áður en þeir hefja framkvæmdina varðandi það að aðgerðin njóti tilskilins stuðnings á Alþingi og að nauðsynlegar heimildir komi í lög til þess að ríkið geti endurgreitt þeim kostnaðinn á næstu þremur árum. Að sama skapi er það eitt af skilyrðum samkomulagsins að lífeyrissjóðirnir hafi staðfest formlega þátttöku í því með samþykktum í viðkomandi stjórnum og að framkvæmdin standist skoðun eftirlitsaðila.

Vandinn er, að ég hygg, flestum þingmönnum vel kunnur, að minnsta kosti þeim sem sátu hér á síðasta kjörtímabili. Þá var oft rætt um vanda þessa hóps. Það er alveg ljóst að hann stendur eftir og er tilfinnanlegur í samanburði við ýmsa aðra. Hefur orðið umtalsverð töf á því að þessi hópur fengi sambærilega úrlausn og margir aðrir hafa fengið, sérstaklega í gegnum 110%-leiðina, og einnig er uppi ójafnræði á milli þeirra sem tóku lánin hjá lífeyrissjóðunum og eru með lánuð veð vegna þeirra og hinna sem voru með lánsveð í bankakerfinu. Þar hefur unnist úr málum en ekki í tilviki lífeyrissjóðanna.

Að mínu mati er því engin spurning um að það er mikilvægt jafnræðis- og sanngirnismál að þetta nái fram að ganga.

Þrátt fyrir stórbrotin loforð núverandi stjórnarflokka um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila var ekki vikið sérstaklega að högum þessa hóps í þeim loforðum og var ekki fjallað um hann sérstaklega í vor í þingsályktunartillögu tengdri skuldamálum heimilanna. Ég bind vonir við að það sé ekki ávísun á að ríkisstjórnin og núverandi stjórnarflokkar og meiri hluti vilji skilja þennan hóp eftir í einhverri óvissu. Það er afar mikilvægt að tekinn verði af allur vafi um það hvort vilji stendur til að fullnusta samkomulagið og í raun hefði þurft að ná því máli fram í vor. Ég batt vonir við að ríkisstjórnin yrði með þetta mál að eigin frumkvæði á vorþingi en svo varð ekki. Ráð hafði verið fyrir því gert að leitað yrði eftir heimildunum strax á vorþingi og lífeyrissjóðirnir miðuðu undirbúningsvinnu sína við það. Strax í framhaldi af samkomulaginu hófst vinna við að móta verklagsreglur og undirbúa framkvæmdina sem verður, eins og áður segir, á vegum lífeyrissjóðanna, en þangað til tekið er af skarið um að nauðsynlegar lögheimildir fáist á Alþingi er hætt við að málið liggi í bið.

Þess vegna er nú þetta frumvarp flutt, til að ýta við málinu, þótt ég hefði gjarnan viljað komast hjá því og þá auðvitað vegna þess að ríkisstjórnin sjálf og meiri hlutinn hefðu sinnt málinu. En svo er nú ekki. Til þess að koma til móts við þennan hóp var þó gripið til þess ráðs, og það er rétt að halda því til haga, að sérstakar lánsveðsvaxtabætur standa nú til boða þeim sem eru yfirveðsettir og skuldsettir langt umfram aðra vegna þess að þeir hafa ekki notið úrræðanna vegna þröskuldarins, hinna lánuðu veða. Allt að 500 millj. kr. verða nú greiddar til þeirra sem sitja uppi með mikla veðsetningu og þunga vaxtabyrði af lánum sem ekki hafa tekið neinni niðurfærslu af þessum sökum. En það er að sjálfsögðu ekki varanleg aðgerð heldur eingöngu viðurkenning á því að úrlausnin fyrir þennan hóp hefur dregist umtalsvert umfram aðra. Flestir sem ekki voru með lánuð veð á eignum sínum fengu 110%-niðurfærsluna á árinu 2011 og þar af leiðandi er að verða komin tveggja ára töf hvað þennan hóp snertir.

Menn geta vissulega fært fyrir því rök að þessi hópur sé ekki algjörlega í sambærilegri stöðu og þeir sem ekki fengu lánuð veð því að vissulega fengu menn þessi veð lánuð og væntanlega hafa báðir aðilar gert sér grein fyrir því hvað í því fólst, annars vegar að menn reyrðu sér skuldbindingu umfram veðsetningarrými á viðkomandi eign og einhverjir velviljaðir aðilar lánuðu veðin. Það breytir þó engu um þá stöðu sem viðkomandi hópur er í og þetta eru kannski um það bil síðustu lánin sem sómakært fólk vill láta lenda í vanskilum út af vegna þess að þriðji aðili verður fórnarlamb þess ef ekki er greitt af þessum lánum. Ég þekki margt ungt fólk sem er nákvæmlega í slíkri stöðu og hefur þurft að leggja hart að sér til að halda hlutunum gangandi þessi ár og bíður í óþreyju eftir því að loksins fáist nú botn í málið.

Það leið varla sá dagur á meðan viðræður okkar stóðu við lífeyrissjóðina að ekki væri spurst fyrir um stöðu málsins og ég giska á að einhverjir hv. þingmenn þekki það að enn er verið að spyrja um hvort ekki sé nú að komast botn í málið.

Hér var í salnum áðan hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og starfandi forsætisráðherra í einum og sama manninum. Ég hefði óskað eftir því að hæstv. ráðherra gæti verið hér örlítið viðstaddur umræðuna áður en ég lýk máli mínu því að ég hef áhuga á því að leggja fyrir hann ósköp einfalda spurningu. Hún er um afstöðu núverandi ríkisstjórnar til þessa máls og hvort þess sé að vænta að það njóti stuðnings þar. Eins og ég sagði hefði ég helst kosið að þurfa ekki að flytja málið vegna þess að það væri þá þegar komið í farveg. En ég held að það megi ekki dragast lengur en þá í allra mesta lagi fram í fyrstu vikur októbermánaðar að það fáist á hreint hvort efna á þetta samkomulag og fara í þessa aðgerð. Hún er nú ekki stór í sniðum, satt best að segja, borið saman við ýmislegt sem nú er á dögum. Það er erfitt að áætla nákvæmlega hvert umfangið gæti orðið en besta nálgun sem við töldum okkur komast að í vor eða á útmánuðum síðastliðnum var að líkleg stærðargráða væri 2, 2,5 til 3 milljarðar króna og hlutur ríkisins þá 85%–90% af því. Það eru talsverðir fjármunir en endurgreiðslurnar mundu dreifast á þrjú ár. Það vegur nú ekki stórt í samhengi við ýmislegt annað, enda á þetta ekki einvörðungu að ráðast af því heldur verður að horfa til hins að hér er um mikilvægt félagslegt jafnræðis- og sanngirnismál að ræða.

Hér gengur hæstv. starfandi forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra í salinn og er handhægt að hafa hann í einum og sama manninum, eins og segir í vísubroti, því að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra, án þess að það þurfi að lengja umræðuna mikið, enda skal ég þá leifa af ræðutíma mínum, svari því ósköp einfaldlega: Hefur ríkisstjórnin tekið málið til skoðunar? Hver er afstaða núverandi ríkisstjórnar, og þá ekki síst fjármála- og efnahagsráðherra, til þess að fullnusta þetta samkomulag? Er þess að vænta — ef Alþingi verður ekki svo röskt að afgreiða einfaldlega málið og gera það að lögum í dag sem væri nú sómi að, það er afar einfalt og þarf ekki að vefjast fyrir mönnum ef vilji stendur til, en ég er ekki alveg svo bjartsýnn, herra forseti — að fjármálaráðherra muni þá sjálfur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sjá til þess að lagt verði til við Alþingi á þinginu sem byrjar 1. október að ríkið fái fullnægjandi lögheimildir til að efna samkomulagið? Það væri ósköp handhægt og þægilegt fyrir hæstv. ráðherra að skutla þessu inn í frumvörp, sem ég geri ráð fyrir að hann flytji, um ráðstafanir í ríkisfjármálum eða fjáröflunarfrumvörp tengd fjárlagafrumvarpi, bandorm eða hvað það nú verður, og þá mættu slíkar heimildir að sjálfsögðu mjög vel falla þar með í frumvarpi til fjáraukalaga eða annars staðar.

Það er rétt að taka það fram að samkomulagið, þegar það var í fæðingu, var kynnt fyrir forustumönnum þáverandi stjórnarandstöðuflokka, þar á meðal hæstv. núverandi fjármála- og efnahagsráðherra. Ég átti með honum fund og hæstv. ráðherra tók eftir atvikum vel í það, en hann er hér til svara þannig að ég þarf ekki að endursegja það. Ég gerði sömuleiðis ítrekaðar tilraunir til að ná fundi með formanni Framsóknarflokksins, hæstv. núverandi forsætisráðherra. Það gekk nú ekki en við áttum símtöl um málið og ég setti hann inn í efni þess og kynnti honum það þannig og málið var unnið þannig að þáverandi stjórnarandstöðuflokkum var fullkunnugt um að í fæðingu væri loksins þetta samkomulag. Það á því ekki að koma mönnum að óvörum. Vissulega heyrði ég þau sjónarmið þá og hef gert það áður og var nú ekki skrýtið, að mönnum fannst þátttaka lífeyrissjóðanna í þessu fullnánasarleg. Það væri fulllítið sem þeir tækju á sig og óþarflega mikið sem endaði með kostnaði ríkisins. Það sjónarmið skil ég vel, að mönnum finnist þetta skrýtin hlutföll. Menn gætu sagt sem svo að þeir vildu gera tilraun til að fá lífeyrissjóðina til að taka á sig stærri hlut. En ég get fullvissað menn um að allt var reynt sem hægt var til þess að sannfæra þá um að það gæti verið réttlætanlegt að þeir bæru þarna stærri hlut. Niðurstaðan varð þessi eftir gríðarlega langar, erfiðar og harðar viðræður. Ég verð því miður að segja að ég er ekki bjartsýnn á að það hafi neitt upp á sig að reyna að fara í þann leiðangur aftur. Við sátum fund eftir fund með forustumönnum lífeyrissjóðanna, fjórir ráðherrar í ríkisstjórn, og reyndum að sannfæra þá með öllum mögulegum rökum sem við gátum að þeir gætu vel réttlætt að taka eitthvað meiri hluta af kostnaðinum á sig, en þeir mættu vopnaðir sínum lögfræðiálitum og úttektum og niðurstaðan varð þessi. Ég mæli því með því að menn eyði ekki tíma í það, það mun fyrst og fremst tefja enn fyrir því, óttast ég, að hópurinn fái úrlausn sinna mála.

En ég vona að svör hæstv. fjármálaráðherra verði jákvæð og glaðastur manna skal ég þá taka þátt í því í októbermánuði að skutla í gegn þeim heimildum sem ríkið þarf til þess að framkvæmdin geti þá loksins farið á fulla ferð. Ef ekki og viðbrögðin verða eitthvað daufleg mun ég ekki láta málið niður falla.

Ég mælist svo til þess, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.