142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir bæði framlagningu þessa frumvarps og ræðuna. Ég vil spyrja hann þriggja spurninga.

Í fyrsta lagi: Þarf ekki að taka fram að þau lán sem hér er um að ræða hafi runnið til kaupa á íbúðum? Ég get ekki lesið það út úr lagatextanum sjálfum. Eða er ætlunin að hafa öll lánsveð þarna undir? 41% er vegna annarra þarfa, framfærslu og annars slíks.

Í öðru lagi: Lán sem tekin voru fyrir 2004 hafa hækkað minna en eign sem keypt var, hlutfallslega hafa þau hækkað minna, og þau hafa líka að jafnaði hækkað minna en laun viðkomandi einstaklings. Er eðlilegt að fella slík lán niður? Er eðlilegt að maður sem hefur „grætt“ á því að hafa keypt eign fyrir 2004 vegna þess að eignin hefur hlutfallslega hækkað meira en lánið og hann á auðveldara með að borga af því að launin hafa hækkað meira en lánið — er eðlilegt að taka fé úr ríkissjóði til að borga það? Nú stendur ríkissjóður ekkert voðalega vel.

Í þriðja lagi er það spurningin um aðstoð foreldra við börn sín, þetta var yfirleitt þannig: Telur hv. þingmaður eðlilegt að maður sem hjálpaði börnunum sínum til að kaupa stærri íbúð en einhver annar gat keypt, einhver sem ekki átti foreldra sem höfðu laust veð — er eðlilegt að sá sem átti ríka foreldra fái niðurfellda skuld sem hinn fékk ekki, sá sem gat ekki keypt sér stóra íbúð?