142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir góða ræðu. Ég hnaut reyndar um eitt og það var að lífeyrissjóðirnir hefðu tregðast við og ekki sýnt, ég held að hann hafi notað orðin félagslegan þroska.

Nú er það þannig að almennu lífeyrissjóðirnir geta ekki borgað lífeyri með neinu öðru en eignum sínum, ekki neinu öðru. Þess vegna er þetta bara spurningin um hvort þeir ætli að vera góðir við lántakendur sem tóku lán hjá þeim, hugsanlega eru þeir sjóðfélagar en kannski eru þeir það ekki lengur heldur fluttir í annan sjóð. Ætla þeir að gera vel við þá og skerða lífeyri hjá öllum? Það er hinn nakti veruleiki.

Það var gert ráð fyrir því að þeir mundu lækka kröfurnar um 12% í þessu fræga samkomulagi sem þarf að setja inn í lagatextann ef það á að hafa eitthvert gildi. Þeir eru í þeirri stöðu, þeir hefðu hugsanlega tapað, væntanlega 12%, vegna þess að það þarf þrennt að bregðast. Skuldarinn þarf að bregðast, hann þarf nánast að verða gjaldþrota, greiðslubyrði skuldarans þarf að bregðast, hann þarf að vera í þeirri stöðu að geta ekki borgað, og sá sem á veðið þarf líka að bregðast. Þá fyrst tapa lífeyrissjóðirnir eignum sínum og verða að skerða aðra sjóðfélaga.

Svo vil ég benda á, eins og áðan, að opinberu sjóðirnir — sem við erum báðir í og hv. þingmaður hefur stýrt slíkum sjóði í fjölda, fjölda ára, hann var formaður stjórnar LSR — þurfa ekki að skerða eitt né neitt. Þetta skiptir þá engu máli vegna þess að réttindin eru tryggð með lögum og iðgjaldið hækkar þá á ríkissjóð eða aðra launagreiðendur, þ.e. skattgreiðendur, sama fólk og er að tapa hjá almennu sjóðunum.