142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hrósaði hv. þm. Pétri H. Blöndal hér áðan. Ég ætla að leyfa mér að draga aðeins úr því hrósi og fá það merkt í (Gripið fram í.) þingtíðindin. Mér finnst það ekki vera fallegur eða góður málflutningur að segja að það sem vaki fyrir okkur sé að skerða kjörin hjá verkafólki. Það er ekki það sem stendur til að gera. Ég ítreka það sem hv. þingmaður telur svo erfitt fyrir okkur, hinn almenna mann, að skilja varðandi visku hans í lífeyrismálum — ég er að segja þetta: Ef lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna rísa ekki undir skyldum sínum þá er það rétt að breyta þarf iðgjaldinu. Það þarf að taka ákvörðun um það og sú ákvörðun er rædd við kjaraborðið líka. Hún er líka rædd við kjaraborðið (Gripið fram í: … lögum …) þegar menn ræða um kaupið.

Í lögum hefur alltaf verið kveðið á um lífeyrisréttindin. Það hefur ekki breytt því að í samningaviðræðum við kjaraborð er horft á launin með tilliti til þeirra réttinda sem fólk nýtur og kostar peninga og kostar fjármuni. Að sjálfsögðu er það gert. Þetta er því heildstæð mynd sem alltaf er til umfjöllunar og umræðu við gerð kjarasamninga.