142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í framsöguræðu var vikið að því hver stefna ríkisstjórnarinnar væri í þeim málum sem snúa að lánsveðum og útistandandi hluta þess vanda sem skapast hefur vegna þess að lífeyrissjóðir hafa ekki séð sér fært að fella niður kröfu sem byggir á lánsveði þrátt fyrir hina almennu 110%-niðurfærsluleið sem nokkuð breið samstaða tókst um á sínum tíma.

Ekki er hægt að ræða þetta mál án þess að láta þess getið að samkomulag sem gert var við lífeyrissjóðina var gert einungis fjórum dögum fyrir kosningar, 23. apríl, en kosið var 27. apríl. Í greinargerð með frumvarpinu kemur sú dagsetning réttilega fram en þar segir líka að menn hafi gert sér grein fyrir þessum vanda um vorið 2012.

Nú atvikaðist þetta þannig að okkur í stjórnarandstöðu þess tíma var gerð grein fyrir því að í fæðingu væri samkomulag og ég átti ágætissamtöl við þáverandi ráðherra sem fór fyrir málinu, (Gripið fram í.) atvinnu- og nýsköpunarráðherra þess tíma, sem hafði lengi unnið að málinu. Ég heyrði reyndar einnig frá lífeyrissjóðunum og gerði út af fyrir sig ekki athugasemd við að ríkisstjórnin gengi frá samkomulaginu, en það hlaut öllum að vera ljóst að kosningar voru eftir örfáa daga og það var ákveðin óvissa um það hvað þá tæki við.

Ég vil segja almennt um þetta mál að ég hef mjög mikinn skilning á því að þörf sé til að binda enda á þau útistandandi vandamál sem hér er verið að reyna að ná utan um. En þetta er ekki einfalt mál. Ef við veltum fyrir okkur til dæmis hvernig 110%-leiðin kom til framkvæmda á sínum tíma þá var hún framkvæmd þannig að fært var niður að 110% og eftir atvikum ef þörf krafði lengra niður samkvæmt því samkomulagi, jafnvel niður fyrir 110%, ef greiðslustaða viðkomandi skuldara var með þeim hætti. Og þegar sú greiðslustaða var skoðuð var meðal annars tekið með í reikninginn að viðkomandi gæti haft lán þar sem lánsveð var að baki, þannig að 110% úrræðið tók beinlínis með í reikninginn að það kynni að vera undirliggjandi lánsveð sem hafði þá verið horft til þegar greiðslustaða viðkomandi skuldara var stillt af.

Ég hef mikinn skilning á því sem segir í frumvarpinu um að reyna að jafna stöðu þeirra sem fengu niðurfærslu samkvæmt samkomulaginu frá 15. janúar 2011, sem sagt um 110%-leiðina, og annarra sem höfðu lánsveð. En maður verður samt að spyrja sig: Er staða þessara hópa nákvæmlega hin sama? Er hún að öllu leyti sambærileg? Þegar við tölum um 110% veð er hægt að líta þannig á að í lánsveðstilfellinu sé í reynd ekkert veð til staðar heldur megi ganga út frá því að krafa á lánsveðið sé gefin eftir óháð öllum öðrum aðgerðum sem er verið að grípa til. Ég verð í því sambandi sérstaklega að vísa til þess að þegar greiðslustaða skuldarans er metin var á sínum tíma líka tekið með í reikninginn hvað viðkomandi var að greiða af því láni sem lánsveð hafði verið veitt fyrir. Það hlýtur að skipta einhverju máli í þessari mynd.

Annað sem skiptir máli er að samkomulagið við lífeyrissjóðina gerir ekki ráð fyrir öðru í sjálfu sér en að ríkið taki á sig bróðurpartinn. Í þessu frumvarpi er talað um 90%, í samkomulaginu frá sínum tíma eða í þeirri viljayfirlýsingu sem vísað hefur verið til var talað um 88% og 12%, þ.e. að ríkið taki allan bróðurpartinn af þeim kostnaði. Samningurinn við lífeyrissjóðina er gerður fjórum dögum fyrir kosningar. Það eru ekki til fjármunir á fjárlögum yfirstandandi árs til að standa undir þeirri greiðslu sem þar er verið að ræða um og það er meginástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur ekki hrint þessu samkomulagi í framkvæmd.

Ég lít þannig á að mál sem snerta stöðu þeirra sem hafa veitt lánsveð eða tekið lán og fengið lánsveð hljóti að falla í sama farveg og skuldamál almennt, þ.e. að þau hljóti að þurfa að skoðast samhliða öðrum úrræðum sem nú eru til skoðunar, en ég ætla ekki að draga í efa orð framsögumanns þessa máls þegar hann segir að hann telji ólíklegt að frekari viðræður við lífeyrissjóðina skili mikið meiri árangri. Mér sýnist að það sé alveg skýr lína hjá lífeyrissjóðunum að þeir telji sig geta réttlætt þessa eftirgjöf upp að þessu marki, um 10–12%, og þá væntanlega eins og ég hef skilið það með því að segja: Ja, það yrði á endanum okkar kostnaður af því að leysa til okkar veð, standa í uppboðum og innheimtuaðgerðum ef látið yrði reyna á tryggingar fyrir lánunum. Og með vísan til þess fyrirséða kostnaðar geti þeir tekið á sig þetta hlutfall af niðurfellingu lánsins, enda taki ríkið á sig allan kostnaðinn að öðru leyti.

Það sem yrði þá sérstakt í þessu máli er að í öðrum tilvikum hafa lántakendur ýmist fengið leiðréttingu vegna endurútreiknings á gengistryggðum lánum — það finnst mér kannski að sé dálítið sérstakt tilvik vegna þess að í raun eru menn þar bara að fá réttan útreikning á lánin sín, þeim hafa ekki verið færðar neinar gjafir, þeir hafa þá í raun og veru fengið réttan lagalegan skilning á samningsstöðu sinni — en aðrir hafa fengið niðurfelld lán með 110%-leiðinni og þar með talin lánsveð í frjálsum samningum við sína viðskiptabanka, bankarnir hafa sýnt þeim þætti málsins góðan skilning.

Í tilviki Íbúðalánasjóðs tel ég mig muna það rétt að af þeim sem voru með yfirveðsetningu, yfir 110%, hafi u.þ.b. helmingurinn sótt um að fá leiðréttingu. Af þeim helming sem sótti um hafi helmingurinn fengið niðurfellingu þannig að 3/4 þeirra sem voru með yfir 110% hafi þá annaðhvort fengið neitun eða einfaldlega ekki sótt um, væntanlega þá vegna þess að viðkomandi hafi ekki talið sig uppfylla skilyrði eða ekki verið tilbúinn til þess að undirgangast þau skilyrði sem þar voru undir.

Hér erum við hins vegar að tala um það sem stendur út af. Það eru þau tilvik þar sem menn hafa fengið leiðréttingu upp á 110% en eftir stendur þetta lánsveð. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eitt verði látið yfir alla ganga alveg óháð greiðslustöðu og alveg óháð því að þegar lánin voru stillt af í 110%, eða eftir atvikum neðar, hafi þá þegar verið tekið tillit til þess að til staðar væri greiðslubyrði af láni sem lánsveð hafði verið veitt fyrir. Mér finnst það vera alla vega til umhugsunar, en ég held að vandfundinn verði sá þingmaður á Alþingi sem kemur hingað upp og gerist alveg sérstakur talsmaður þess að alls ekki verði tekið á þessum lánsveðsmálum og enginn fái felldar niður skuldir sem byggja á lánsveðum. Það er ekki sérstaklega vinsælt hlutverk.

Mér finnst hins vegar miklu skipta þegar við tölum okkur til niðurstöðu um þetta að tryggt sé að það úrræði haldist vel í hendur við röksemdafærsluna fyrir því sem þegar hefur verið gert og í því sambandi verði hæfilegt tillit tekið til þess að það er ekki hið sama skuldsetning og greiðsluvandi.