142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna þessari umræðu um frumvarp til laga um viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila. Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni. Þó að hæstv. ráðherra hafi ekki getað gefið skýr svör heyrist mér að hann hafi skilning á þessu vandamáli enda er það svo sem orðið gamalkunnugt eftir tilraunir til að leiðrétta þá skuldaaukningu sem varð eftir hrunið.

Það er auðvitað mjög mikilvægt engu að síður að fá svör því nú líða nokkrir mánuðir þangað til við sjáum hver úrræðin verða. Það hefur verið gefin klár yfirlýsing um að hér verði almennar leiðréttingar. Það er smátt og smátt að skýrast að eitthvert tillit verði svo tekið til þess sem búið er að gera. Við eigum auðvitað eftir að fá svör við því að fullu og öllu. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur talað um að eðlilegt væri að skoða hvað menn hafa fengið, til dæmis í gegnum 110%-leiðina. Það muni þá verða dregið frá, að minnsta kosti að þeim hluta, ef um almenna leiðréttingu verður að ræða.

Þá hlýtur maður að spyrja: Verður það gert líka varðandi sérstaka skuldaaðlögun, greiðsluvandaúrræðin sem voru hjá umboðsmanni skuldara? Verður það gert með sérstöku vaxtagreiðslurnar, þ.e. sérstakar vaxtabætur sem allir fengu og voru allt upp í 30–50% af vaxtakostnaði hvers árs? Verða þær dregnar frá? Verður lánsveðsmálið tekið þar inn í og skoðað sérstaklega, því að það er ekki sjálfgefið?

Ég ætlast ekki til að þessu sé svarað á þessari stundu en það skiptir mjög miklu máli að svörin komi nokkuð fljótt vegna þess að þarna er enn þá 4 þús. manna hópur, að minnsta kosti, sem hefur beðið eftir svörum frá því að 110%-leiðin var ákveðin í desembermánuði 2010.

Það kom auðvitað einn vandi strax í ljós sem við lentum í vandræðum með þegar 110%-leiðin var farin. Það er samt ástæða til þess að vekja athygli á því, sem hér kom fram, að hún var unnin í mikilli sátt vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn vann þessi mál með stjórnarandstöðunni líka. Það varð þverpólitísk samstaða um að fara 110%-leiðina. Ég get upplýst það til gamans líka, vegna þess að það er ákveðinn misskilningur uppi: 110%-leiðin er ákveðin í desember, af hverju skyldi hún hafa verið 110%? Það var vegna þess að þá lá fyrir að fasteignaverð mundi hækka um 10%, fasteignamat mundi hækka um 10% í janúar. Í rauninni átti þetta að vera 100%-leið. En af því að menn vissu að hækkunin átti að koma til framkvæmda í janúar varð þetta 110%-leið.

Þá lá fyrir, þegar menn fóru út í þessa leið, að ákveðinn hópur, tveir hópar raunar, var annars vegar með ábyrgðarmenn á lánum og svo lánsveð hins vegar. Þá sögðu bankarnir og Íbúðalánasjóður: Þetta eru tryggðir peningar. Við ætlum ekki að gefa þá eftir eða borga til baka til fólks. Þetta eru tryggðir peningar, það eru örugg veð á bak við þetta, annars vegar ábyrgðarmaður og hins vegar lánsveð.

Framkvæmdin var þó þannig að sumir gerðu betur, sérstaklega bankarnir sem tóku það frumkvæði sjálfir, enda var þetta lágmarksákvæði, þ.e. að menn gátu gert betur og sumir gerðu það. Þeir skoðuðu hvort það að ganga að ábyrgðarmönnum eða lánsveðum mundi raska högum þeirra sem höfðu veitt ábyrgðina eða lánsveðin. Ef það stefndi í að viðkomandi aðili sem hafði lánað veð eða skrifað undir sem ábyrgðaraðili væri ekki borgunarmaður fyrir þessu og það mundi hugsanlega þýða að hann tapaði eignum sínum var þetta gefið eftir.

En þetta gekk ekki heilt yfir og það var glíman okkar á þessum tíma í samningum við lífeyrissjóðina. Röksemdin var sú að það að gefa eftir varðandi lánsveðin mundi bæta lánasafn lífeyrissjóðanna. Það átti ekki að vera til þess að tapa peningum, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal lætur í skína. Rökin voru þau, og voru í gegnum alla leiðréttinguna og er að mörgu leyti enn þá rökstuðningur núverandi ríkisstjórnar, að það muni bæta efnahagslífið og bæta almennt stöðu þeirra sem eiga lánin að menn hreinsi til í þeim og taki til og tryggi að endurgreiðslan verði betri í staðinn fyrir að menn stoppi greiðslur eins og sumir hafa gert.

Þetta var umhverfið sem við glímdum við. Því miður, eins og hér hefur komið fram, náðist ekki samkomulag um þetta fyrr en rétt fyrir kosningar. Þar með gáfum við ákveðin skilaboð, fyrrverandi ríkisstjórn, um það hvernig við vildum að þetta yrði leyst, þrátt fyrir að lausnin væri ekki fullnægjandi eða eins og við hefðum kannski helst viljað. Og nú biðjum við um að núverandi ríkisstjórn sendi þessum hópi klár skilaboð um hvað hún vilji gera — ekki á næsta ári, heldur sem fyrst. Þess vegna höfum við kallað eftir því að þetta mál yrði tekið fyrir og nú hefur hæstv. ráðherra komið og rætt það. Við biðjum um að þessum hópi verði svarað í byrjun nýs þings í október. Við náum þessu ekki í gegn í dag eða á þeim mínútum sem eftir eru af þessum fundi.

Þetta hefur til dæmis verið eitt af þeim málum sem hafa þvælst mjög fyrir í úrvinnslu hjá umboðsmanni skuldara. Þar hefur verið í boði greiðsluaðlögun, það hafa náðst samningar, það hefur verið farið í gegnum mjög langt ferli, allt upp í tveggja ára ferli, búið að leggja allar skuldir á borðið, búið að fella niður jafnvel tugi prósenta og síðan er sagt: Við ætlum að fella þessi lán niður. Þið borgið þetta, það er það sem þið ráðið við, en lánsveðið fellur á lánsveðshafann.

Staðreyndin er sú að ungt fólk er ekki tilbúið til þess að senda slíkan reikning yfir á fjölskyldu sína, foreldra eða systkini. Það hefur því horfið frá greiðsluaðlöguninni sem átti að hreinsa af þeim skuldirnar. Þetta er vandamálið í hnotskurn. Fólk er að pína sig endalaust, það getur ekki farið í gjaldþrot, því að þá fellur það yfir á fjölskylduna eða aðstandendur. Það er í raun og veru í skuldafangelsi til langs tíma ef við finnum ekki einhverja lausn á vandanum. Það er ástæðan fyrir því að við erum að glíma við þetta.

Ég ætla ekki að eyða tímanum hér lengur. Þetta mál er flutt af hv. þingmönnum Steingrími J. Sigfússyni og Katrínu Júlíusdóttur, en ég vildi skerpa á því að þetta mál var komið svona langt fyrir kosningar. Það er okkur mikið í mun að þessum hópi verði ekki gleymt, við skuldum honum skýr svör og heitum á hæstv. ríkisstjórn að sinna þessum málaflokki. Til þess er málið flutt, og við stöndum heils hugar á bak við það að reynt verði að fara þessa leið. Ef ekki þá verði þessum hópi að minnsta kosti sinnt sérstaklega í gegnum almennu aðgerðirnar þannig að hann fái úrlausnir í samræmi við aðra og losi sig þannig úr skuldafjötrum.