143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við heyrðum núna aðra stefnuræðu forsætisráðherra og ég held að við getum öll verið sammála um að hún var í hástemmdara lagi. Lýsing hans á Íslandi sem fyrirmyndarríki þar sem einungis herslumun vanti til að tryggja fullkomnun er fagur vitnisburður um árangur af ríkisstjórnarforustu jafnaðarmanna, fimm árum eftir efnahagshrun. Ég þakka hrósið fyrir hönd okkar jafnaðarmanna og met það við forsætisráðherrann að hann viðurkennir að hann taki við góðu búi. En ég er ekki viss um að við jafnaðarmenn eigum samleið með fyrirmyndarríki hans.

Það er gömul saga og ný að þeir sem vilja breyta landi í fyrirmyndarríki verða að byrja á sjálfum sér. Sönn fyrirmynd veitir skýrari skilaboð en nokkurt valdboð. Er það til fyrirmyndar hjá forsætisráðherra að byrja á að hækka framlög til sjálfs sín um 4%? Hækka framlög til ríkisstjórnar um 23%? Hverju svarar þessi ríkisstjórn spurningum nýs forstjóra á Landspítalanum: Hvernig á ég að spara meira ef þið sparið ekki neitt? Hverju svarar þessi ríkisstjórn gamla manninum sem ég heyrði af og glaður hefur borgað skatta alla sína ævi? Hann spyr núna þar sem hann lifir sína síðustu daga í líknandi meðferð milli sjúkrahúss og hjúkrunarheimilis: Í hvað munu mín legugjöld fara? Munu þau nýtast Landspítalanum eða fara þau í rekstrarkostnað ríkisstjórnarinnar?

Veruleikinn er víðs fjarri lýsingum forsætisráðherra í ræðunni. Hvernig á Ísland að verða, með leyfi forseta, „enn meiri fyrirmynd í umhverfismálum en nú er“ þegar fruntagangur hæstv. umhverfisráðherra gagnvart náttúruvernd og rammaáætlun ræður ferðinni? „Niðurskurði í heilbrigðiskerfinu er lokið,“ sagði forsætisráðherra og að forgangsraða ætti í þágu uppbyggingar, en leggur á sama tíma til að taka til baka það fé sem þegar hefur verið veitt til tækjakaupa á Landspítalanum, hætta við byggingu nýs Landspítala og leggja af áform um brýna uppbyggingu á heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um land.

Já, Ísland er gott land og hér viljum við helst búa. En nú er hvorki staður né stund fyrir foringja til að skrifa skáldsögur. Þessi ræða hljómaði eins og upphafskafli í skáldsögu sem gæti heitið „Einfarinn í fyrirmyndarríki sjálfs sín“. Það er saga sem getur ekki endað vel.

Ég hef áður bent á þá staðreynd að óboðleg svör ríkisstjórnarinnar skapa skaðlega óvissu og eru orðin sjálfstætt efnahagsvandamál. Hún boðar bara skammtímalausnir en finnst allar langtímalausnir flóknar, dýrar, óljósar og illframkvæmanlegar. Við þurfum ríkisstjórn sem treystir sér til að takast á við viðfangsefnin en horfir ekki í aðra átt og semur skáldsögur um verk sín.

Skammsýnin er augljósust í fyrirheitum um skuldalækkun. Forsætisráðherra hefur margboðað yfirvofandi heimsmet í þeirri keppnisgrein. Alheimsmet. Fjármálaráðherra kallaði áformin bara „vangaveltur“ í Kastljósi í gærkvöldi. Alheimsmetið er samt að koma. Einhvern tíma. Enginn veit reyndar hvenær.

Enginn hefur hins vegar greint afleiðingar slíkrar aðgerðar enda veit enginn hvernig hún verður á endanum. En jafnvel þótt þetta alheimsmet verði á endanum sett ber flestum saman um að þótt skuldirnar mundu lækka um 20% sé kaupmátturinn sjálfur það sem mestu skiptir, þótt afborganir af lánum lækki eitthvað dugi launin ekki til að láta enda ná saman. Og hvað með alla hina reikningana sem stöðugt hækka? Hvað með ótrygga atvinnu? Fjöldi manns er enn atvinnulaus eða fær ekki starf við hæfi. Fjöldi manns er enn í hlutastarfi og fær ekki að bæta við sig starfshlutfalli.

Gott dæmi er af hjónum sem eru að ljúka þriggja ára samningi um sértæka skuldaaðlögun. Þau ættu núna að geta staðið í skilum en konan missti vinnuna og reiðir sig nú á vinnu sem byggir á vinnumarkaðsverkefni Liðsstyrks. Það verkefni hyggst ríkisstjórnin nú leggja af. Þar með hverfur möguleiki þessara hjóna á að standa í skilum eftir allt það erfiði sem þau hafa lagt á sig síðustu þrjú árin.

Ég hef undanfarnar vikur farið víða um landið okkar, hitt þar fjölmarga og heyrt hvað á þeim brennur. Eitt stendur upp úr, tækifærin eru gríðarleg en skammsýni ríkisstjórnarinnar hjálpar okkur ekki að nýta þau. Íslenskt hugvit eykur vinnslugæði og nýtingu hvarvetna í sjávarútvegi, glæsileg fatahönnun er á Djúpavogi, ný tækifæri verða til í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum og nýjar brautir eru fetaðar í framsæknum framhaldsskólum í Grundarfirði og á Höfn. En aðstæðurnar eru þungar, léleg háhraðatenging, lakari lífskjör, ófullkomnar vegasamgöngur og óbærilegur flutningskostnaður.

Þess vegna komum við á kerfi jöfnunar á flutningskostnaði. Það kerfi hyggst ríkisstjórnin nú leggja af.

Þess vegna höfum við aukið framlög til jöfnunar húshitunarkostnaðar undanfarin ár, á versta niðurskurðartíma. Þau framlög hyggst ríkisstjórnin nú lækka.

Þessi ríkisstjórn talar um landbúnað sem grundvallaratvinnugrein en gerir honum ekki kleift að auka framleiðslu, fjölga störfum, þjóna erlendum mörkuðum og skapa þjóðinni gjaldeyristekjur.

Við vildum auka vald fólks á landsbyggðinni til að byggja upp og ráðstafa opinberu fé. Þess vegna settum við af stað sóknaráætlun og hún studdi við stórfelld og fjölbreytt uppbyggingarverkefni á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin hyggst nú leggja af sóknaráætlun og flytja ákvörðunar- og úthlutunarvaldið til Reykjavíkur. Þeir vita jú best hvað landsbyggðinni er fyrir bestu. Landsbyggðin verður líka af nærri 4 milljörðum í IPA-styrki sem enn frekar hefðu styrkt þar atvinnulíf. Það er engin framsýni og engin framtíðarsýn um atvinnusókn á landsbyggðinni af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Við sjáum fyrirtæki sem mega búa við afleiðingar veikburða gjaldmiðils og gríðarlegan vaxtakostnað ef þau vilja auka umsvif sín og bæta við sig fólki. Fyrir vikið hafa þau minna svigrúm til að borga góð laun og ríkisstjórnin er ekki eins rausnarleg við þau og útgerðina. Fyrirhuguð lækkun tryggingagjalds á næsta ári er tíundi hluti lækkunar veiðigjalds frá því í sumar og út næsta ár. Staðan í þeim leik er 10-1, útgerðinni í vil. Tíu fyrir stórútgerðina og eitt fyrir öll hin fyrirtæki landsins.

Hagvöxtur er lítill. Fjölgun starfa er nær eingöngu í þeim greinum þar sem menn nýta sér þá staðreynd að Íslendingar eru orðnir láglaunaþjóð. Þess vegna þarf að auka tækniþróun, styðja fyrirtækin í að fjölga vel launuðum störfum og fjölga fólki með starfsmenntun. Þess vegna jukum við gríðarlega framlög til Tækniþróunarsjóðs og rannsóknarsjóða. Ríkisstjórnin ætlar nú að taka lungann af því til baka. Þess vegna efndum við til starfsmenntaátaks til að auðvelda ungu fólki að mennta sig til fjölbreyttra starfa svo fyrirtækin gætu vaxið og ungmennin ættu raunverulegt val um annað en annaðhvort bóknám eða brottfall úr skóla.

Ríkisstjórnin ætlar að leggja það átak niður.

Í þinginu liggur tveggja daga gömul skýrsla um gríðarlegan árangur af átaksverkefnum okkar fyrir ungt atvinnulaust fólk undanfarin ár. Ríkisstjórnin ætlar að leggja þau öll af. Er nema von að maður spyrji hvar þessi ríkisstjórn hinna glötuðu tækifæra ætlar að skapa ný störf. Það finnst engin framtíðarsýn.

Í fjárlagafrumvarpi er tekið út allt fé til markaðssetningar til að afla erlendrar fjárfestingar í samræmi við óbeit forsætisráðherra á uppbyggingu erlendis frá. Ríkisstjórnin slær af brýnar uppbyggingarframkvæmdir við skóla og heilbrigðisstofnanir víða um land og byggingu nýs Landspítala. Hún lækkar framlög til uppbyggingar grænnar atvinnustarfsemi sem allir flokkar voru sammála um á síðasta þingi. Hún kippir grundvellinum undan allri uppbyggingu skapandi greina sem gætu orðið atvinnulífinu mikil lyftistöng. Þeim er sannarlega að takast að hægja á hjólum atvinnulífsins.

Um allt land heyrist sama sagan þegar spurt er um afkomu. Launin duga ekki. Enginn veit hvernig á að láta enda ná saman þegar líður á mánuðinn. Nýútskrifaðir kennarar, með 310 þús. kr. í byrjunarlaun, teljast nú til millitekjuhópa og fá í nýju fjárlagafrumvarpi fyrirheit um skattalækkun sem skilar þeim heilum 600 krónum. Hvorki meira né minna.

Fjármálaráðherrann boðar því réttilega að menn eigi að stilla kröfugerð í hóf.

Það eru að verða til tvær þjóðir í þessu landi. Annars vegar er fámenn forréttindastétt sem veit ekki aura sinna tal. Hin þjóðin, hinn mikli fjöldi í opinberri þjónustu og hefðbundnum atvinnugreinum, er bundin við laun í ógjaldgengri krónu sem stöðugt rýrnar og hækkandi skuldir og sér ekki fram úr því hvernig á að kaupa innfluttar nauðsynjar, hvernig á að endurnýja bílinn, ísskápinn eða þvottavélina.

Í Sovétríkjunum í gamla daga fékk forréttindastéttin ein að versla innfluttan varning í búðum fyrir útvalda. Hér þarf ekkert svoleiðis kerfi. Íslenska krónan sér alveg um að draga okkur í tvo dilka, fjölmennan hóp lágtekjufólks og svo fámennan hóp forréttindafólks sem hefur ráð á því að kaupa það sem einu sinni var á allra færi að kaupa. Við blasir hættan sem alltaf fylgir Íslandi í höftum, að við taki gamalkunnug hringrás mikilla kauphækkana og verðbólgu, sem éti síðan upp ávinninginn af kauphækkununum, vörurnar hækki í búðunum og verðtryggðu skuldirnar hækki á greiðsluseðlunum. Þá vill það okkur til happs að heildarsamtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð, óska eftir samvinnu við ríkisstjórnina um greiningu á aðildarumsókn okkar að ESB því að samtökin telja að í því ástandi sem við búum við sé mikilvægt að leiða aðildarviðræðurnar til lykta.

Alvöruríkisstjórn þyrfti að hafa sjálfstraust til að taka í þessa útréttu sáttarhönd en sitjandi ríkisstjórn afþakkar boðið því að henni dugar ekki að semja skáldsögur fyrir okkur hér í kvöld, hún vill líka segja hagsmunasamtökunum til um það hvernig þau mega meta hagsmuni sinna félagsmanna.

Þjóðarhagur kallar á samstillt átak. Það þarf að byggja á hreinskiptni og raunsæi. Það dugar ekki að skrifa skáldsögur um tilbúinn veruleika eða veita innstæðulaus loforð.

Virðulegi forseti. Nú eru fimm ár frá hruni. Við sem vorum hér í þessum sal hina dimmu haustdaga fyrir fimm árum og greiddum atkvæði með neyðarlögum til varnar sjálfstæði Íslands munum geyma minningar um þessa daga alla ævi og sjá atburðina sífellt í nýju ljósi.

Mig langar að deila með ykkur einni minningu frá þessum tíma, minningu sem verður mér sífellt hugstæðari. Fyrstu vikur þess örlagahausts einkenndust af einlægum stuðningi fólks við kjörna fulltrúa, hvar í flokki sem þeir stóðu. Ókunnugir fóru yfir götu til að ná til manns, til að klappa á bak, taka í hönd og hvetja mann áfram gegn þjóðarvá. Síðan, á einhverjum tímapunkti sem erfitt er að ákvarða, fékk fólk skömm á pólitík og í skugga þeirrar skammar stöndum við hér enn þann dag í dag. Hvernig endurvekjum við trúnaðinn við fólkið sem einu sinni fór yfir götu, lagði lykkju á leið sína til að hvetja og styðja? Við því er að mínu viti bara eitt svar, að tala af alvöru við fólkið í landinu um lífið í landinu. Og segja satt. Þá fyrst er um eitthvað að tala og þá fyrst leysist úr læðingi samstöðuaflið til góðra verka. Þess óska ég okkur. — Góðar stundir.