143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Ein minnisstæðasta bók sem ég hef lesið er lítið kver frá 17. öld sem heitir Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Ólafur var prestur í Vestmannaeyjum þegar Tyrkjaránið átti sér stað sumarið 1627. Hann var kominn nokkuð til ára sinna. Skyndilega birtust einn daginn í flæðarmálinu í Eyjum ókunnugir menn, ófrýnilegir, sem settu Ólaf, konu hans og börn og aðra Eyjamenn í poka, drógu upp á skipsfjalir, og svo var siglt alla leið suður til Alsír.

Á þessu átti Ólafur ekki von, þetta var óvænt, þetta var ný staða. Nú brá svo við að Ólafur var leystur úr prísundinni nokkuð snemma, á undan öðrum, en var þó eftir sem áður staddur í Alsír. Þá var ekkert annað að gera en að ganga heim. Við tók margra mánaða gönguför upp Evrópu endilanga sem Ólafur lýsir af fádæma æðruleysi og einlægni í bók sinni. Það sem sló mig við frásögn Ólafs var þetta: Hann vissi hvert förinni var heitið. Sérhvert skref var skref í rétta átt. Hann ferðaðist því yfir lönd Evrópu þar til hann var kominn aftur heim til Eyja.

Það er einmitt það sem er svo mikilvægt í kjölfar óvæntra áfalla, ef maður lendir í erfiðum kringumstæðum, að vita hvert förinni er heitið. Maður getur látið ótrúlegustu hluti dynja á sér ef maður veit hvert leiðin liggur og ef maður hefur trú á ferðinni og áfangastaðnum.

Herra forseti. Sama gildir um heila þjóð. Hún þarf að vita hvert förinni er heitið. Ef það er skýrt og ef okkur langar til að ná þeim áfangastað held ég að við sem búum í þessu landi vílum ekki fyrir okkur frekar en Ólafur að ganga af stað.

Tvennt einkenndi að mínu viti viðbrögðin við áfallinu mikla sem dundi á okkur fyrir fimm árum. Annars vegar sáum við reiðina. Hún var skiljanleg en hún hefur líka sína miklu galla. Reiðin kastar eggjum, hún reisir girðingar yfir Austurvöll þveran, hún sundrar. En á meðan jólatré brunnu átti sér stað önnur mun hljóðlátari og yfirvegaðri bylting úti um allt þjóðfélag. Fræðasamfélagið fór á fullt, listafólk, hugsuðir, hagsmunasamtök í atvinnulífinu, stjórnmálamenn, erlendar stofnanir, fullt af fólki fór á fullt af væntumþykju og ósérhlífni við að skilgreina hvert endurreisnin ætti að leiða okkur, við að skilgreina hvert förinni væri heitið. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var gefin út, yfirgripsmiklar úttektir og þingsályktunartillögur fylgdu í kjölfarið um það hvernig stjórnsýslan þyrfti að breytast, hvernig þingið þyrfti að breytast, hvernig fjármálakerfið þyrfti að breytast. Áætlanir um byggingu nýs Landspítala, sem er þjóðarnauðsyn, voru endurskoðaðar, lagaðar að breyttum aðstæðum, og fela í sér uppbyggingu á lífsnauðsynlegri grunnþjónustu og hagræðingu.

Hafið var djúpt og yfirgripsmikið ferli við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem fól í sér mikla von um betri grunngerð þjóðfélagsins. Og við þurftum að skilgreina stöðu okkar í heiminum og þurfum enn. Viðræður við ESB voru því hafnar með það að markmiði að finna út með samningi hvort við eigum erindi þangað inn. Verslunarráðið, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaþing, ASÍ, Samtök iðnaðarins, öll fóru þessi samtök af stað og skilgreindu sóknarfæri Íslands, hvaða aðgerða væri þörf til þess að rétta úr kútnum. Farið var í yfirgripsmikið verkefni við að kortleggja tækifærin í hverjum landshluta og fólk innan ferðaþjónustunnar, skapandi greina, í rannsóknum og þróun, í tækni og hugverkaiðnaðinum, allt lagði það tillögur í sarpinn um sókn og heilsteyptan rökstuðning fyrir því að úti um allt lægju vannýtt tækifæri. Upp úr þessu spratt fjárfestingaráætlunin, byggð á vinnu ótal Íslendinga við að skilgreina hvaða leiðir væru líklegar til þess að skapa okkur meiri tekjur í gegnum greinar sem geta vaxið og eru t.d. ekki bundnar kvóta. Tónlist er ekki bundin kvóta.

Svoleiðis atvinnu og svoleiðis tekjur þurfum við ofan á þær sem við höfum þegar til þess að kosta grunnþjónustuna, til þess að borga skuldir, til þess að lækka skatta. Og Landsvirkjun, öll vinnan þar, þar hefur farið fram stefnumótun sem snýst um að skapa þjóðfélaginu meiri tekjur, meiri arð af grænum auðlindum með sjálfbærri og hóflegri nýtingu. Og rammaáætlun um nýtingu og vernd var líka samþykkt eftir aðkomu ótal einstaklinga og samtaka, og ný náttúruverndarlög.

Jú, margt hefur gengið brösuglega á liðnum árum, margt má gagnrýna, en þessa vinnu, þetta frumkvæði, þennan áhuga Íslendinga og útlendinga á því að finna bestu leiðina heim fyrir íslenskt þjóðfélag út úr ógöngunum, má ekki drepa. Í því starfi öllu liggur gríðarlegur auður, og það sem meira er; það hefur í raun ríkt mikill samhljómur í því starfi öllu saman.

Upp úr þessum farvegi sprettur Björt framtíð. Hún er ekki stofnuð í reiði. Hún er stofnuð á þessum grunni, á grunni hinnar upplýstu stefnumörkunar, löngunar til þjónustu, löngunar til að komast með þjóðfélagið á betri stað með samráði og samvinnu.

Hvar stöndum við núna? Mig grunar að eftir alla þessa vinnu líði sumum núna dálítið eins og þeir hafi verið settir í poka upp á þilfar á ókunnugu skipi og séu á leiðinni eitthvert út í óvissuna. Læknir á Landspítala spyr sig sjálfsagt núna: Bíddu við, á sem sagt ekkert að byggja upp á Landspítalanum? Á hann að drabbast niður? Ríkir sátt um það? Fólk með ný og framsækin fyrirtæki í tækni og hugverkaiðnaði, kvikmyndagerð, tónlist, hönnun, tölvuleikjum, lyfjaframleiðslu, sem þarfnast stuðnings á upphafsmetrum starfsemi sinnar eða til þess að komast á erlenda markaði og vaxa þar, hvað á það að halda þegar það les fjárlögin? Á það að færa starfsemi sína annað? Er þess ekki þörf hér? Fjölmargar spurningar vakna.

Ætlum við að hafa krónu hérna áfram og samt ekki gjaldeyrishöft? Hvernig á það að virka? Á að virkja í botn og ætlum við að halda áfram að selja orkuna okkar ódýrt til álvera? Á virkilega að setja hundruð milljarða í að lækka skuldir þeirra Íslendinga sem eiga mest af eignum og eru ekki í miklum vanda? Er það sanngjarnt?

Stjórnmál snúast um stefnu. Á þessum tímapunkti vakna svo ótalmargar spurningar um nákvæmlega hana; hver er hún? Þrátt fyrir allt óeigingjarna starfið sem ég lýsti hérna áðan, skýrslur, úttektir, er óvissan alltumlykjandi. En stefnan er þarna einhvers staðar og hana þarf að ræða.

Stundum vill því bregða við að stefna er falin með fullyrðingu um nauðung. Því er haldið fram að eitthvað sé ekki hægt og að hlutir verði að vera svona og svona. Því er t.d. haldið fram að ekki sé hægt að auka fjárveitingar til heilbrigðismála. Það er rangt. Því er haldið fram að ekki sé hægt að fjárfesta í fjölbreyttu atvinnulífi. Það er líka rangt. Fjárlögin eru uppfull af stefnu. Í fjárlögum er allt fullt af ákvörðunum sem hafa verið teknar einhvern tíma en geta verið öðruvísi ef við viljum. Allt er hægt, kæru landsmenn.

Ríkisstjórnin hefur þegar með opnum augum afsalað samneyslunni tekjum. Hún hefur lækkað virðisaukaskatt á gistiþjónustu og núna áformar hún að lækka tekjuskattsprósentu um 0,8% í milliþrepi. Það er lækkun sem skilar í mesta lagi einhverjum hundraðköllum á viku til einstaklinga. En þarna fara milljarðar úr ríkiskassanum. Það er fé sem hægt væri að nota til þess að gefa umtalsvert í varðandi fjárfestingar í atvinnulífinu og til að hefja endurreisn Landspítalans og samt afnema stimpilgjöld á skuldbreytingum og lækka tryggingagjald. Ein einföld spurning blasir við, fullkomlega málefnaleg og aðkallandi: Hvort viljum við lækka einn skatt smá eða bjarga Landspítalanum? Ríkisstjórnin virðist hafa tekið afstöðu. Í því felst stefna. Mér finnst sú stefna röng.

Við í Bjartri framtíð leggjum sýn okkar og rök í púkkið hér á þingi. Við viljum hafa góð áhrif á stjórnmálin. Í því felst að við viljum upplýsta umræðu og að ákvarðanir séu teknar með opin augu og á grunni bestu upplýsinga. Við viljum ábyrg stjórnmál. Í því felst líka að við munum ekki eiga í neinum vandræðum með að styðja mál sem við teljum góð af hálfu ríkisstjórnarinnar ef við komumst að þeirri niðurstöðu.

Við leggjum fram þó nokkuð af þingmálum í upphafi þessa fyrsta þingvetrar okkar. Í dag lögðum við fram þingsályktunartillögu um gerð gjaldmiðilsstefnu. Við metum það svo að spurningin um hvaða gjaldmiðil eigi að nota á Íslandi til framtíðar sé gríðarlega mikilvæg og að henni verði að svara með rökstuðningi.

Við leggjum fram frumvarp um að hið opinbera geri eigendastefnu fyrir Landsvirkjun. Þar verði á lýðræðislegan og opinn hátt fjallað um alla þá miklu hagsmuni fyrir þjóðina sem felast í því að eiga fyrirtæki eins og Landsvirkjun. Við leggjum líka til að hugsanlegur ábati af lagningu sæstrengs til Bretlands verði kannaður betur.

Okkur eru mannréttindi og lýðræðismál hugleikin. Við munum því leggja fram frumvarp um lögfestingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við leggjum líka fram ásamt öðrum frumvarp um réttindi og stöðu uppljóstrara. Við látum til okkar taka í neytendamálum og leggjum til bætta upplýsingagjöf eftir ákveðnum leiðum, til neytenda um heilsu og hollustuvernd. Í barna- og fjölskyldumálum leggjum við til að jöfn búseta barna á tveimur stöðum verði viðurkennt fjölskylduform og að umgengnisforeldrar séu viðurkenndir sem foreldrar í opinberum gögnum.

Við leggjum fram mál sem felur í sér lýðræðisuppeldi fyrir börn. Við viljum setja þjóðinni stefnu í áfengismálum. Við viljum kortlegggja göngustíga og ferðamannaleiðir. Við leggjum fram mál sem felur í sér að handhafar forsetavalds fái lægri laun í fjarveru forseta, sem skapar sparnað sem því nemur. Og við leggjum til frumvarp um að bæta aðstöðu stúdenta sem leigja á almennum markaði. Þetta leggjum við bara fram í þessari atrennu. Við ætlum okkur að vinna vel.

Við erum málsvarar þeirrar lífsskoðunar að opin, upplýst umræða þar sem hver og einn leggur sitt af mörkum leiði ætíð til bestu niðurstöðunnar. Leiðin til árangurs með þessum aðferðum er mörkuð hindrunum. Ég tel þó að á svo mörgum sviðum þjóðfélagsins höfum við Íslendingar verið á réttri leið og í raun fangað með víðtækri samræðu, eins og ég hef lýst, hvert við viljum stefna. Nú þarf að halda ferðinni áfram.

Að sjálfsögðu þarf alltaf að taka stöðuna, líta á áttavitann, endurmeta leiðina. En það sem veldur mér áhyggjum núna er að ríkisstjórnin ætlar á allt of mörgum sviðum að hætta við það sem vel hefur verið ígrundað og áætlað. Við óskum rökstuðnings. Við spyrjum: Hvert er þá förinni heitið? Hvað heitir sá áfangastaður? Hvað heitir það land?

Skref fyrir skref, eins og séra Ólafur Egilsson sem fór yfir Evrópu alla á tveimur jafnfljótum árið 1627–28, erum við staðráðin í að ganga með þessu þjóðfélagi, með ykkur, kæru landsmenn, heim; heim til betra Íslands, heim til bjartari framtíðar.