143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:12]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Kæru Íslendingar. Í mínum huga skiptir meginmáli að við vinnu okkar takist að stuðla að jafnrétti og jafnræði og draga úr misskiptingu ásamt því að hvetja til atvinnusköpunar, framþróunar og virkrar þátttöku einstaklinga í þjóðfélaginu. Þegar hafa verið stigin mikilvæg skref í þessa átt þó að vissulega þurfi að stíga fleiri skref á kjörtímabilinu.

Þegar ég tala um jafnrétti á ég við jafnrétti í víðu samhengi. Í Norðausturkjördæmi er sama hvar stungið er niður fæti, alltaf ber á góma málefni sem snerta jafnrétti til búsetu. Þar falla undir samgöngur, nettengingar, flutningskostnaður, húshitunarkostnaður, trygg dreifing raforku, aðgangur að námi og aðgangur að heilbrigðisþjónustu. Það er þess vegna mikilvægt að skoða allar ákvarðanir Alþingis í ljósi heildaráhrifa á mismunandi hópa samfélagsins. Þannig getur Alþingi lagt sitt af mörkum til aukinnar samstöðu og samkenndar í samfélaginu því að mikil lífsgæði eru fólgin í sátt um megingerð samfélagsins. Með góðri samvinnu getum við öll búið við góð skilyrði í þessu landi.

Síðasta árið hef ég velt mikið fyrir mér muninum á því að þurfa á stuðningi samfélagsins að halda og því að eiga rétt á stuðningi. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að samhliða löngu tímabærri og fyrirhugaðri endurskoðun á almannatryggingakerfinu og húsnæðiskerfinu fari fram umræða um að þær félagslegu lausnir sem samfélagið kemur sér saman um nýtist þeim sem á þeim þurfa að halda.

Markmið slíkrar endurskoðunar er að ná samstöðu um að þeir sem hafa tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði geti verið stoltir af því að greiða í sameiginlega sjóði sem síðan nýtast öllum þjóðfélagsþegnum. Lítum öll í eigin barm áður en við gerum kröfur á aðra. Mikilvægur liður í þessu er að við endurskoðun almannatryggingakerfisins verði horft á starfsgetumat í stað örorkumats, þ.e. horft á hvað einstaklingurinn getur í stað þess að horfa á hvað hann getur ekki. Möguleikar koma í stað hindrana.

Virðulegi forseti. Til þess að við höfum úr meiru að spila á næstu árum er brýnt að auka verðmætasköpun í landinu og eins og skýrt kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra höfum við alla burði til þess. Verðmætasköpun í sjávarútvegi og landbúnaði hefur á síðustu árum aukist, m.a. með betri nýtingu ýmiss hráefnis sem áður var hent. Á þessum sviðum eru óþrjótandi möguleikar við framleiðslu nýrra afurða með aukinni tækni og þekkingu.

Ágætur maður sem starfar í sjávarútvegi og nýlega hóf að nýta líftækni í sinni framleiðslu orðaði þetta þannig, með leyfi forseta, „að það væri eins og tjald hefði verið dregið frá og við blöstu óþrjótandi möguleikar“. Slík eru tækifærin sem bíða okkar.  

Það er mikilvægt að samhliða atvinnuuppbyggingu séu gerðar strangar kröfur til umhverfismála og það er staðreynd að strangar kröfur um úrgangslosun hafa einmitt á stundum leitt til nýsköpunar. Við höfum allt til að vera leiðandi þjóð við umhverfis- og náttúruvernd. Náttúruvernd þarf að byggja á þremur stoðum, góðri fræðilegri uppbyggingu og fræðslu, félagslegum tengslum sem næst vettvangi og fjármagni til starfseminnar. Það er mikilvægt að stíga raunhæf og viðráðanleg skref hverju sinni og þar með axla þá mikilvægu ábyrgð sem fylgir nýtingu lands og sjávar til atvinnuuppbyggingar. Auk þess verðum við Íslendingar að vera í forustu við náttúruvernd á norðurslóðum.

Hér inni eru 63 þingmenn sem ég veit að allir eru tilbúnir að vinna saman að því að gera gott samfélag betra. Ég hlakka til 143. þings, fullviss um að hér verður unnið gefandi starf, bæði fyrir einstaklingana sem hér starfa og ekki síður fyrir samfélagið allt.