143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Hæstv. forsætisráðherra hefur nú flutt stefnuræðu sína og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014. Fjárlagafrumvarpið er helsta stefnuplagg ríkisstjórna. Þar eru kosningaloforðin sett í samhengi, áherslurnar raungerðar og forgangsröðun stjórnvalda lítur dagsins ljós. Segja má að stefnuræðan sé orðin en fjárlagafrumvarpið athafnirnar.

Þegar stefnuræða forsætisráðherra er rýnd og borin saman við þær áherslur sem birtast í fjárlagafrumvarpinu vantar því miður talsvert upp á samræmið. Hæstv. forsætisráðherra segir til dæmis í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Til að fjölga störfum og bæta kjör verður fjárfesting að aukast til mikilla muna á Íslandi.“

Fjárfestar halda nú að sér höndum vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra hefur skapað með miklum loforðum um alheimsmet um skuldaniðurfellingar til tæplega helmings heimila í landinu. Við slíkar aðstæður bíða þeir átekta, þeir sem ætla út í fjárfestingar sem gætu fjölgað störfum og bætt kjör. Óvissunni er enn haldið því að engar tillögur um heimildir til heimsmetsins eru settar fram í fjárlagafrumvarpinu. Óvissan er kostnaðarsöm fyrir öll heimili landsins.

Opinberar fjárfestingar skipta máli til að bæta innviði samfélagsins, skapa störf og ýta undir hagvöxt. Þrátt fyrir orð hæstv. forsætisráðherra um mikilvægi fjárfestinga og uppbyggingu innviða eru flest fjárfestingarverkefni sem undirbúin hafa verið á vegum ríkisins slegin út af borðinu. Bráðnauðsynleg verk eru þar á meðal, svo sem framkvæmdir við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og frestun þess verks vart möguleg.

Bygging verkmenntahúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands er einnig slegin af en fjármunir til hennar voru veittir í fjárlögum ársins 2012 og 2013. Sveitarfélögin sem standa að skólanum hafa lagt til hliðar fyrir sínum hlut í byggingunni, hönnunarsamkeppni er lokið og allt til reiðu. Ekkert framlag er til byggingarinnar í fjárlagafrumvarpinu en nemendur, starfsfólk og samfélagið allt bíður eftir nýrri námsaðstöðu sem gefur kost á fjölbreyttu námsframboði í tækni- og iðngreinum. Samt segir hæstv. forsætisráðherra í stefnuræðu sinni að á sviði menntamála verði lögð áhersla á að fjölga fólki með menntun í tækni- og iðngreinum.

Loka á einnig framhaldsskólum landsins á ungt atvinnulaust fólk og framlög til framhaldsskólanna eru enn skorin niður.

Talað er fjálglega um mikilvægi hagvaxtar til framtíðar en litið fram hjá því að ef auka á hagvöxt sem hver einstaklingur skapar er nauðsynlegt að raða menntuninni framar og tryggja gott aðgengi að námi á framhaldsskólastigi um allt land. Í fjárlagafrumvarpinu er hvergi að finna þær áherslur, heldur þvert á móti. Þó segir hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Til að hægt verði að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem birtast okkur í öllum landshlutum er mikilvægt að styrkja innviði um allt land; heilbrigðisþjónustu, skólahald og aðra opinbera þjónustu …“

Þetta eru falleg orð en stuðning við þennan fína ásetning vantar algerlega í fjárlagafrumvarpið. Hrópandi dæmi um það er að hætta eigi við byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Sveitarfélögin í Vestur-Skaftafellssýslu hafa lengi átt í vanda. Þekkingarsetrið er samstarfsverkefni og yrði lyftistöng fyrir svæðið sem bráðvantar slíkan stuðning. Áætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum er tekin niður þrátt fyrir að ör fjölgun ferðamanna kalli á verndun svæða með göngustígum og fleiru sem eykur öryggi þeirra sem um svæðin fara.

Í atvinnumálum er sama upp á teningnum. Hæstv. forsætisráðherra segir að stuðningur við nýsköpun og skapandi greinar verði aukinn en samt er skattafsláttur til nýsköpunarfyrirtækja lækkaður um fjórðung og stuðningur við skapandi greinar tekinn niður. Sóknaráætlun landshluta er slegin af og því fylgir að áhrif á þróun byggða eru færð frá landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Ég hef hér dregið fram dæmi úr Suðurkjördæmi einu um fjárfestingarverkefni sem voru í áætlunum fyrri ríkisstjórnar en eru nú skorin niður eða lögð til hliðar. Slík dæmi mætti taka úr fleiri kjördæmum og það verður gert í umræðu um fjárlagafrumvarpið sem hefst á morgun. Áhugavert er fyrir sveitarstjórnarmenn sem nú halda til höfuðborgarinnar á fjármálaráðstefnu að skoða hvaða stefna er nú sett í byggðamálum og áhrifin á einstök landsvæði. Hvaða áhrif hefur til dæmis niðurfelling flutningsjöfnunar á verðlag úti á landi eða lækkun á framlagi til húshitunar á köldum svæðum á kjör fólks sem þar býr?

Það er sitthvað orð og athafnir og munurinn er áberandi mikill á orðum hæstv. forsætisráðherra í kvöld og þeim athöfnum sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra boðar með fjárlagafrumvarpinu. — Góðar stundir.