143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:30]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er stefnubreytingu að finna í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Hún ásamt því fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í gær er til vitnis um að hafin er markviss vinna að þeirri stefnubreytingu sem kjósendur kölluðu eftir síðastliðið vor.

Það er engum greiði gerður með því að dylja hvernig ástand mála er hér á landi. Við þurfum að horfast í augu við að svona getur ekki gengið áfram eins og við höfum hagað okkur. Við getum ekki safnað skuldum með endalausum halla á ríkissjóði og við getum heldur ekki stillt allri umræðu upp í hástöfum og stillt málefnum og fólki upp gegn hvert öðru. Staðan er alvarleg. Hún er flestu fólki fyllilega ljós enda er fólk almennt vel upplýst og raunsætt. Við þurfum að sýna hógværð og auðmýkt í stórum og alvarlegum vanda.

Í umræðu um stjórnmálaviðhorfið hér á haustdögum sagði ég að ástandið í þjóðfélaginu væri viðkvæmt. Við höfum sannarlega strekkt á þolinmæði okkar fyrir ástandi liðinna ára og við skulum gera okkur grein fyrir því að hættumörkin eru mörg og þau eru víða. Umhverfið er viðkvæmt og ég nefni sérstaklega umhverfi heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsfólk. Á þessum tímamótum við upphaf kjörtímabils er tekið við þjóðarbúi sem hefur þurft að glíma við miklar þrengingar.

Það þarf ekki að gera lítið úr glímu liðinna ára. Við erum hins vegar ekki öll sammála um áherslur og stefnu. Raunveruleikinn er sá að margir innviðir okkar samfélags þurfa margir verulegt átak. Þar getum við margt talið upp og ég nefni langvarandi viðhaldsskort á vegum landsins, fjarskipti, rafmagnsmál og fleira.

Áherslur liðinna ára hafa líka verið umdeilanlegar. Ég fullyrði að við höfum sóað fjármunum í verkefni sem vel hefðu mátt bíða. Í skýrslu Hagfræðistofnunar um þróun starfa hjá hinu opinbera má sjá og álykta að við höfum flutt störf frá heilbrigðisstofnunum til eftirlitsstofnana. Ef þetta er staðreyndin verð ég að viðurkenna að ég felli mig ekki við slíkar áherslur.

Ég fylgdist með opnum fundi stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar um skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð. Fram kom á fundinum traustur rökstuðningur og málflutningur gesta nefndarinnar sem hrekur meginniðurstöður skýrslunnar. Ég verð að viðurkenna að ég hef efasemdir um verklag, fyrirkomulag og starfsemi margra rannsóknarnefnda Alþingis. Þar virðist skorta á agaða stjórn og skýra verklýsingu. Væntanleg er skýrsla um fall sparisjóðanna og nemur nú áætlaður kostnaður vegna þeirrar skýrslu um 500 millj. kr., um hálfum milljarði.

Enginn má skilja orð mín svo að ég sé á móti rannsóknum eða vilji ekki láta leiða í ljós staðreyndir um mistök sem við getum öll lært af. Ég dreg þetta hérna fram vegna þess að mér finnst að ekki hafi verið farið fram af hófsemd og auðmýkt fyrir því sem við öll eigum að virða og gæta að, sem er skattfé almennings. Við getum ekki mætt til umræðunnar með slagorðum sem eiga sér ekki stað í raunveruleikanum. Umræðan um veiðileyfagjöld er dæmi um slíka umræðu.

Staðreyndin er sú að sjávarútvegur hefur aldrei greitt jafn háa skatta til samfélagsins og nú. Það voru áform um enn meiri skattahækkanir. Það er hins vegar tákn um rökþrot að segja að útgerðinni hafi verið gefnir milljarðar og hver hefur ekki heyrt tölur um 10 milljarða í því samhengi? Að sama skapi ættum við þá að segja að þrotabúum föllnu bankanna hafi verið gefnir tugir milljarða á undanförnum árum vegna undanþágu sem þeir fengu frá bankaskatti.

Svona umræða elur aðeins af sér meira sundurlyndi og meira hatur. Við getum ekki ár eftir ár komið í þingsali með nýtt fjárlagafrumvarp sem inniheldur niðurskurð en skilar samt hallarekstri. Stefnan nú er að stöðva hallarekstur. Stefnubreyting nýrrar ríkisstjórnar snýr að því að slaka á sífellt hækkandi sköttum og gjöldum, að leggja til endurreisnar efnahagslífsins súrefni til handa heimilum. Það er síðan aðila á vinnumarkaði að fylgja því eftir með raunsæjum kjarasamningum sem innifela alvöru kjarabætur.

Nýsköpun er mikilvæg og ekki síður mikilvægt að við byggjum á gömlum og traustum atvinnugreinum. Stefnuræða hæstv. forsætisráðherra innifelur einmitt þá nauðsynlegu og löngu tímabæru áherslu að horfa til þess sem við eigum og kunnum. En áhersla okkar og gildismat þarf að breytast víðar. Við eigum ekki peninga til að gera allt sem okkur langar til. Við verðum að átta okkur á því hvað eru raunveruleg verðmæti. Við þurfum ekki að velja á milli þess að vel sé farið með umhverfi okkar og náttúru og að við nýtum það og notum. Og þetta er heldur ekki spurningin um listalíf eða spítala. Við getum sameinast um að sækja fram.

Mér kemur í hug endurnýjun íslenskra fiskiskipa og íslensks skipasmíðaiðnaðar og að hefja nýtt tímabil í skipasmíði með áherslu á orkusparandi skipaflota eða jafnvel ganga enn lengra og miða við það að smíða skip sem nota nýja og innlenda orkumiðla.

Sannast sagna hefur verið erfitt og óvinsælt hér á landi að gagnrýna kostnaðarmyndun í smásöluverslun. Ítök hennar eru sterk og sendiboðar gagnrýni oftar en ekki teknir niður. Mér kemur í huga í þessu sambandi sérstaklega ein frétt. Verslunarkeðja greiðir 60% arð til eigenda sinna og fréttir herma að það gangi enn betur á þessu ári. Það er greinilega færi til að slaka á í álagningu og snúa til lækkunar á verðlagi. Er það ekki dæmi um hluti sem við verðum að sameinast um? En svar verslunarkeðjunnar er að það þurfi að splundra landbúnaðarkerfinu og handgengnir fjölmiðlar hlaupa á eftir og láta umræðuna snúast um það.

Stefnubreytingin er skýr. Það er hóflega farið fram. Hér er gefið til kynna að við megum vænta þess að við getum á Íslandi hafist handa við nýja sókn og nýtt sóknarskeið.