143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Nú í upphafi vetrar, við upphaf þings, er mikilvægt að við horfum til þeirra tækifæra sem við okkur blasa og hvernig við nýtum þau best. Við lifum í þessu landi og við lifum á þessu landi. Ísland er land tækifæranna.

Náttúra Íslands er ein helsta auðlind okkar. Við þurfum að búa þannig um hnútana að náttúruvernd og náttúrunýting fari saman án þess að gengið sé á einstök svæði. Landið er takmörkuð auðlind og náttúran hefur forgang. Að henni þurfum við að hlúa með skýrum markmiðum og framtíðarsýn um sjálfbæra notkun náttúruauðlinda landsins sem er ein af forsendum fyrir vexti og uppbyggingu. Virðing fyrir náttúrunni og gæðum hennar er grundvöllur þess að hér fari saman verndun og upplifun.

Við eigum einstakt land og erum ákaflega stolt af því, hreina íslenska náttúru sem við eigum að fá að njóta en við þurfum að gæta þess um leið að ekki sé gengið á mikilvægar auðlindir. Vinna stendur nú yfir að kortleggja ferðaþjónustuna með það að markmiði að móta tillögur að skipulagningu og útdeilingu fjár til svæða íslenskrar náttúru sem er aðgengileg fyrir ferðamenn. Er þá meðal annars horft til þjóðgarða, friðlýstra svæða eða annarra fjölsóttra náttúruperlna. Mikilvægt er að hafa skýra framtíðarsýn og bregðast við í tæka tíð áður en í óefni er komið.

Tækifærin skjóta upp kollinum. Ég vil nefna tvö sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Svokallað ásetningshlutfall sauðfjár hefur verið hækkað og mjólkurkvóti verður aukinn um 7 millj. lítra. Ásetningshlutfall er orð sem kannski fæstir hafa á hraðbergi en þýðir að íslenskir sauðfjárbændur eru hvattir til að framleiða meira og það mikið. Meiri framleiðsla á mjólk og kjöti kostar ríkissjóð ekkert umfram það sem núverandi samningar kveða á um.

Einnig má nefna þessu til viðbótar að stefnt er að því að lækka verð á raforku til ylræktar. Að mínu viti eru þetta grænir kostir, framleiðniaukning, betri nýting fjárfestingar.

Samkeppnishæfni og tækifæri til nýsköpunar eru verðug viðfangsefni hvort sem þau spretta frá hefðbundnum landbúnaði, lífrænum landbúnaði eða beint frá býli svo að fátt eitt sé nefnt. Það er okkar á Alþingi að sjá til þess að við mótum þessa stefnu og tryggjum regluverk sem inniheldur þessa hvata samhliða því að hugað verði að velferð dýra og kjörum starfsfólks. Það er í öllu falli skýrt og ánægjulegt að tækifærin eru til staðar í íslenskum landbúnaði.

En tækifærin liggja ekki síður í sjávarútveginum þó umhverfi og umræða sem honum er búin hér innan lands undanfarin ár hafi ekki stuðlað að jákvæðri þróun innan hans né því að viðhalda því samkeppnisforskoti sem við höfum haft á alþjóðlegum mörkuðum. Við þurfum að hætta að þrefa um sjávarútveginn, klára þessa umræðu og nálgast hana með nýjum hætti. Ég vil henda neikvæðu umræðunni frá síðustu stjórnartíð aftur fyrir okkur en halda áfram með þá vinnu sem var faglega unnin og breið sátt náðist um að langmestu leyti. Á þeim grunni, grunni sáttanefndarinnar svokölluðu frá haustinu 2010, er markmiðið að tryggja ákvæði um allar auðlindir í þjóðareign, að gera samninga milli útgerða og ríkisins um nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar á grundvelli aflahlutdeildar til tiltekins tíma. Það er eðlilegt og sanngjarnt að útgerðir greiði fyrir réttinn til nýtingar. Vinna að útfærslu þessara leiða er hafin.

Miklir möguleikar felast í vexti sjávarklasans í heild sinni. Þar liggja til dæmis fjölmörg tækifæri fyrir ungt fólk að mennta sig til framtíðar inn í arðbæra atvinnugrein og fyrirtæki sem starfa mörg hver í alþjóðlegu umhverfi. Ég vil nefna það hér að samkvæmt McKinsey-skýrslunni voru sjávarútvegur og að einhverju leyti orkugeirinn einu samkeppnishæfu atvinnugreinarnar með tilliti til framleiðni.

En það eru víða tækifæri. Velta tæknigeirans í sjávarútvegsklasanum jókst til dæmis um 13% í fyrra og var um 60 milljarðar.

Kæru landsmenn. Málefnaleg umræða er nauðsyn lýðræðinu og hverju máli. Í kvöld hefur farið fram málefnaleg samræða að langmestu leyti þó sitt sýnist auðvitað hverjum. En það mun ekki styrkja Alþingi eða auka virðingu þess að í stað málefnalegrar umræðu sé gripið til upphrópana eða rangfærslna eða jafnvel notuð uppnefni. Hér hafa ítrekað komið upp þingmenn og talað um að verið sé að leggja niður flutningssjóð á landsbyggðinni. Ef menn hefðu lesið fjárlagafrumvarpið, á bls. 336 og 337, eða þingmálaskrána hefðu menn séð að það stendur ekki til. Lesið þið fjárlagafrumvarpið og hættum að fara með rangfærslur. Með því að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs, og leggja fram hallalaus fjárlög og fyrirheit sem birtast í stefnuræðu forsætisráðherra, má sjá fyrstu skrefin í átt að betra og öflugra samfélagi á öllum sviðum. Missum ekki af þeim tækifærum. Sameinumst um að grípa þau og hagnýta landi og þjóð til heilla. — Góðar stundir.