143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Góðir landsmenn. Hrunið, sem var í senn efnahagslegt og samfélagslegt, orsakir þess og afleiðingar, ætti að vera okkur í fersku minni og áminning um það hvernig getur farið þegar menn sjást ekki fyrir í eigin upphafningu um óskeikulleika þeirra sem allt gera best og stærst. Það var einmitt boðskapur rannsóknarnefndar Alþingis að íslensk stjórnvöld og leiðtogar þjóðarinnar hefðu ekki kunnað fótum sínum forráð þegar þeir þustu um víðan völl með drambið eitt að vopni og neituðu að horfast í augu við hina aðsteðjandi vá í einhæfu efnahags- og atvinnulífi.

Þetta er ekki rifjað upp hér vegna sérstakrar löngunar til að dvelja í liðinni tíð heldur sökum þess að það eru því miður mörg teikn á lofti um að sagan geti endurtekið sig, að útrásarveikin og berstrípuð frjálshyggjan séu að hefja innreið sína á nýjan leik.

Forsætisráðherra talar um fyrirmyndarríkið og ekki verður sagt að hann bjóði nýja Íslendinga sérstaklega velkomna í ríki sitt.

Iðnaðarráðherrann boðar að ríkisstjórnin ætli, gott ef ekki í eigin persónu með haka og skóflu að vopni, að vekja upp stóriðjustefnuna um leið og hann sker niður framlög til uppbyggingar ferðaþjónustu, kvikmyndaiðnaðar, nýsköpunar og skapandi atvinnugreina.

Umhverfisráðherrann hyggst fullkomna niðurlægingu málaflokksins hjá núverandi ríkisstjórn með því að hætta við byggingu þekkingarseturs á Klaustri, fella niður framlög til uppbyggingar friðlýstra svæða og þjóðgarða og kæfa náttúruminjasafn í fæðingu.

Og ekki lætur menntamálaráðherrann sitt eftir liggja. Menningar- og listastarfsemi í landinu fær heldur betur að finna til tevatnsins og heggur þá sá er hlífa skyldi. Sérstök ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu og framtíð skólastarfs í háskólum og ekki síður aðförinni að framhaldsskólum, svo vitnað sé í kennarasamtökin. Svona eru efndirnar á fögrum orðum forsætisráðherra um mikilvægi lista, menningar og nýsköpunar.

Þannig væri hægt að halda áfram. Stefin eru gamalkunnug. Gjöldum er létt af þeim sem best eru settir eins og þegar útgerðinni sem malar gull um þessar mundir voru réttir 10 milljarðar en ríkissjóður svo réttur af með gistigjaldi á sjúklinga, lækkun barna- og vaxtabóta og auknum gjöldum á skólafólk. Breiðu bökin eru ævinlega hin sömu þegar þessir tveir flokkar rugla saman reytum í Stjórnarráðinu. Þessar áherslur ríma vel við það sem þjóðin bjó við á árunum fyrir hrun, hina hörðu hægri stefnu, og sporin hræða.

Loforðin voru digurbarkaleg í aðdraganda kosninga. Þá kynntu báðir stjórnarflokkarnir útfærðar hugmyndir um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila: engar nefndir, engir starfshópar, aðgerðir strax. En þau mál voru svo kirfilega sett í nefndir, stungið í kolabing forsætisráðherra strax eftir stjórnarmyndun og þar eru þau enn. Það sem forsætisráðherra hefur helst um þau mál að segja er að kolamoksturinn gangi vel. Því var líka heitið að settir yrðu 12–13 milljarðar í Landspítalann en við sjáum efndirnar í fjárlagafrumvarpinu sem dreift var í gær.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar varði velferðarkerfið og menntakerfið eins og frekast var kostur við miklu erfiðari aðstæður en nú ríkja. Þá var lagður grunnur að sókn til framtíðar í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum ásamt metnaðarfullri áætlun um fjárfestingu í mannauði og margháttuðum innviðum samfélagsins. Þessu er nú ýtt til hliðar. Sáttin hér á landi um samfélagslega heilbrigðisþjónustu er rofin með sjúklingaskatti og þar er haldið inn á nýja braut sem aðeins getur leitt til átaka. Fjárfesting í menntun, rannsóknum og vísindum er skorin niður og þannig er stoðum kippt undan mikilvægri verðmætasköpun til framtíðar og reikningurinn sendur næstu kynslóð.

Forsætisráðherra dró upp glansmynd í stefnuræðu sinni en það er engu líkara en að forsætisráðherra hafi ekki kynnt sér fjárlagafrumvarp formanns Sjálfstæðisflokksins. Misræmið er sláandi og það er fjárlagafrumvarpið sem verður að lögum en ekki stefnuræðan.

Ný ríkisstjórn verður að fá að sanna sig í verkum sínum. Það sem við höfum þó séð boðar ekki gott. Uppbyggileg, málefnaleg og harðskeytt stjórnarandstaða er hverri ríkisstjórn nauðsynleg og ekki mun af veita. Það lýðræðislega aðhald munum við vinstri græn veita á grunni stefnu okkar um jöfnuð, félagslegt réttlæti, umhverfis- og náttúruvernd, sjálfbært atvinnulíf og fjölbreytt mannlíf.