143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:12]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Við göngum nú til þings og það verður að segjast að hjá mér, nýjum þingmanninum, ríkir mikil eftirvænting og tilhlökkun til að takast á við þetta mikla og krefjandi verkefni að vera fulltrúi þjóðarinnar.

Við þingmenn sem kosnir voru í fyrsta sinn inn á hið háa Alþingi í apríl síðastliðnum fengum reyndar smjörþefinn af þessu starfi á sumarþinginu og fengum ágæta innsýn inn í störf, siði og venjur þessarar stofnunar. Það var ómetanleg reynsla og gott veganesti inn í framtíðina.

Fólki er mikið niðri fyrir þegar það ræðir um stöðuna sem við erum í í dag. Ég hef talið það skyldu mína sem þingmanns að vera jákvæður og reynt eftir fremsta megni að biðja fólk um að anda rólega og gefa nýrri ríkisstjórn tíma til að koma stefnumálum sínum á rekspöl, því hvað sem öðru líður vil ég og við í Bjartri framtíð aðstoða hæstv. ríkisstjórn til allra góðra verka. Það tekur samt óneitanlega mikið á að vera endalaust jákvæður og leika Pollýönnu alla daga þegar veruleikinn er jafn ískaldur og hann er.

Það virðist vera sama hvar drepið er niður fæti, alls staðar vantar fjármagn til að halda uppi lágmarksþjónustu í heilbrigðiskerfinu, í löggæslunni og félagslega kerfinu. Menntakerfið þjáist af fjárskorti. Samningar eru lausir um áramót hjá launaþegasamtökum og eins og umræðan er er ljóst að mikið mun ganga á þegar til samninga verður gengið og ekki gefin tomma eftir í þeirri viðleitni að rétta hag launþega.

Hæstv. forseti. Í mínum augum er það göfugt starf að vera stjórnmálamaður þar sem sá sem það stundar á að vinna að heill og hamingju þjóðar sinnar. Hann á að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og umbjóðendum sínum. Stjórnmál eru ekki leikur og þau eiga ekki að snúast um að vera í liði og að hlýða foringjanum. Viðmið okkar sem veljumst til þessara starfa eiga ætíð og undantekningalaust að vera kjósandinn og þjóðin. Heiðarleikinn stenst álagið ef fólkið segir satt og byggir ákvarðanir sínar á áreiðanlegum heimildum og felur ekki ástæður gjörða sinna. Sá sem fer að dæmi heiðarlegs manns bætir ekki aðeins sjálfan sig heldur heiminn allan.

Ég óska hæstv. forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni alls hins besta á komandi missirum. Ég hvet hann og hæstv. ríkisstjórn hans til að sýna auðmýkt í störfum sínum, því að þeim sem sýnir auðmýkt finnst til um verk annarra og er mjúklyndur í hjarta. Hann hefur í sér löngun til að hlúa að sprotunum sem vaxa í stað þess að traðka á þeim. Ég vil líka minna hæstv. ríkisstjórn á að hún er ekki bara ríkisstjórn þeirra sem greiddu henni atkvæði sitt í kosningunum heldur er hún ríkisstjórn allra Íslendinga, hvar sem í sveit þeir eru settir. Ég skora á hana að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem annað völdu í kosningunum og minni á orð herra Ólafs Ragnars Grímssonar, hæstv. forseta okkar, frá þingsetningunni í gær þar sem hann vitnaði í frelsishetju okkar Íslendinga, Jón Sigurðsson, og sagði, með leyfi forseta:

„Þjóðin sjálf á höfuðvaldið, og enginn á með að skera úr málefnum þeim, sem allri þjóðinni viðkoma, nema samkvæmt vilja flestra meðal þjóðarinnar.“

Hæstv. forseti. Það er hægt að taka undir margt sem fram kemur í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, sem var þróttmikil og hvetjandi, en ég saknaði þess að ekki var minnst á þann valkost sem innganga í ESB er fyrir okkur Íslendinga og hvenær leiða á það mál til lykta og kynna það fyrir þjóðinni. Okkur getur greint á um þetta mikilvæga mál en það er lágmarkskrafa að gefa fólki kost á að kynna sér hvað felst í inngöngu.

Herbert Spencer, enskur heimspekingur og fræðimaður, sagði eitt sinn, með leyfi forseta:

„Til er sú afstaða sem virðir allan fróðleik að vettugi, hunsar öll rök og festir manninn ætíð í kviksyndi fáviskunnar ævina á enda. Þetta er sú afstaða að vera á móti einhverju án þess að hafa kynnt sér það.“

Hæstv. forseti og kæru landsmenn. Ég ber þá von í brjósti að traust og virðing muni einkenna störf okkar á komandi þingi og að við berum gæfu til þess að vinna saman við að leysa vanda þjóðarinnar. — Góðar stundir.