143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Heimurinn er stór og menning hans alls er öll verðmæti. Nú lifum við á þeim tímum að við höfum ótrúlegan aðgang að erlendum menningarheimum. Sprenging hefur orðið í þekkingu á hinum ýmsu málefnum, þekking sem áður fyrr tilheyrði eingöngu fræðimönnum og þeim sem í dag væru kallaðir „übernördar“.

En heimurinn er ekki bara stór heldur misjafn. Hugmyndir fólks víðs vegar í heiminum eru reyndar svo frábrugðnar hver annarri að óheftum samskiptum milli menningarheima má líkja við einhvers konar nýja uppljómun, mjög sambærilega þeirri sem varð á 17. og 18. öld. Múrarnir milli menningarheima hafa fallið með tilkomu internetsins og það er gott.

Skilningur fólks á sögulegum hugmyndum og atburðum hefur einnig eflst til muna. Það er allt annað að ræða við einhvern í dag um nasisma en fyrir 20 árum. Ég man að í æsku minni var jafnan sagt að Adolf Hitler hafi verið rit- og ræðusnillingur mikill, en með tilkomu internetsins er hægt að fletta upp ræðum hans og metsölubók hans, Mein Kampf, og þá fæst fljótt útkljáð að maðurinn var meðalgreindur í mesta lagi og gjörsamlega vonlaus rithöfundur. Þá skilur maður að velgengni hans var fyrst og fremst afleiðing kúgunar og ofbeldis í skjóli almenns vantrausts til lýðræðis og borgararéttinda. Þar með hef ég lært eitthvað af því að lesa ræður úr bók Adolfs Hitlers, en til þess að öðlast þann skilning þurfti ég aðgang að Mein Kampf. Ég þurfti að geta lesið ræður hans og reyna að skilja þær á mínum eigin forsendum án tillits til þess hvort yfirvöld eða samtök gegn hatursáróðri ályktuðu sem svo að það væri mér hollt. Allt þetta krafðist þess að ég væri undir nógu litlu eftirliti og nógu frjáls til þess að samskipti við annað fólk, jafnvel stórhættulegt fólk, um viðurstyggilegt málefni sem einkennist nær alfarið af hatursáróðri samkvæmt íslenskum lögum.

En aftur yfir í nútímann. Í dag eru til ríki þar sem takmarkanir á netinu eru beinlínis gerðar til kúgunar, t.d. víða í arabaheiminum. Í hinum vestræna heimi eru slíkar takmarkanir jafnan ekki gerðar nema til verndar höfundarétti eða til að takmarka svokallaðan hatursáróður. En tæknin til þess að framfylgja slíkum lögum er sú sama og er notuð í Sádi-Arabíu og Kína til þess að hafa stjórn á því hvaða bókmenntir fólk kemst í. Leiðin til að njóta tjáningarfrelsis í Sádi-Arabíu er sama leið og notuð er til að komast í höfundaréttarvarið efni ókeypis hér í hinu svokallaða vestri. Það er þess vegna sem við píratar kennum okkur við þá iðju að komast í efni án tillits til höfundaréttar, ekki vegna þess að höfundaréttur og tjáningarfrelsi séu innri mótsögn sem hugtök eða vegna þess að við teljum það rétt fólks að hafa ókeypis aðgang að afþreyingu, heldur vegna þess að tjáningarfrelsi verður eingöngu tryggt í nútímaheimi með sömu aðferðum og verða notaðar til að brjóta á höfundarétti. Barátta vefsvæða á borð við deildu.net og thepiratebay.sx er nákvæmlega sama barátta og sú sem lýðræðissinnar í Sádi-Arabíu þurfa að heyja frelsi sínu til stuðnings í dag.

Ef vestræn stjórnvöld ætluðu sér í alvörunni að tryggja mannréttindi og lýðræði til frambúðar mundu þau hvetja fólk og styðja það til að komast fram hjá netsíunum og fram hjá eftirliti. En vegna þess að hér í vestrinu höfum við í reynd gleymt því hvernig umhverfi harðstjórnar lítur út höfum við gleymt að vera á varðbergi þegar einn segir: Brjótum bara aðeins á friðhelgi einkalífsins, síum netið bara aðeins, bara til öryggis og bara í þetta eina skipti þar til á morgun.

Yfirvöld og stórfyrirtæki víðs vegar um heiminn reyna nú eftir fremsta megni að endurbyggja múra milli menninga. Það er vitaskuld gert af misjöfnum ástæðum. Hérlendis mun umræðan væntanlega varða höfundaréttarbrot og klám. Vér píratar hyggjumst halda áfram að reyna að berja þá múra niður eftir okkar bestu getu því að hér er ekki bara í húfi framtíðarsýnin um hið góða líf í miðju Atlantshafi heldur sú framtíðarsýn að einn daginn verði mannkyn allt með sönnu kallað frjálst.