143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 sem er 1. mál þessa þings og fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar. Grundvallaratriði ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er ábyrg meðferð ríkisfjármála og skýr langtímasýn með ráðdeild og skynsamlega nýtingu sameiginlegra fjármuna þjóðarinnar að leiðarljósi. Jafnvægi í ríkisfjármálum stuðlar að auknum hagvexti og lægra vaxtastigi í landinu sem styrkir stöðu bæði heimila og fyrirtækja.

Með ýmsum aðgerðum er í frumvarpinu skapað svigrúm fyrir breyttar áherslur í samræmi við stefnu nýrrar ríkisstjórnar. Stuðningur er aukinn við lífeyrisþega, tekjuskattur einstaklinga og tryggingagjald er lækkað og fé lagt í ýmsar stórframkvæmdir.

Á grundvelli jafnvægis í ríkisfjármálum er hægt að sækja fram til bættra lífskjara. Undir þeim formerkjum er fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 lagt fram. Í því er gert ráð fyrir hallalausum rekstri á ríkissjóði, í fyrsta sinn frá árinu 2007.

Útgjöld ríkisins lækka sem hlutfall af landsframleiðslu á næsta ári með almennum hagræðingaraðgerðum, með ákvörðunum um að falla frá ýmsum nýlegum verkefnum fyrri stjórnvalda og með ráðstöfunum sem leiða til lækkunar vaxtagjalda. Afkoman er einnig bætt með tekjuaðgerðum, einkum bankaskatti sem nú er hækkaður og lagður í fyrsta skipti á fjármálafyrirtæki í slitameðferð.

Brýnasta viðfangsefni ríkisfjármálanna um þessar mundir er eins og undanfarin ár að vinna bug á hallarekstri og skuldasöfnun ríkissjóðs. Í kjölfarið á falli bankakerfisins haustið 2008 þurfti ríkissjóður að taka á sig þungar byrðar vegna endurreisnar fjármálakerfisins og efnahagsafleiðinganna sem komu fram bæði í hrapi skatttekna og stórauknum útgjöldum, einkum vegna vaxtakostnaðar og atvinnuleysisbóta.

Hefðu ekki nánast allar skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður árin á undan er vandséð hvernig hann hefði getað staðið af sér jafn stór áföll og raun ber vitni nema með miklu meiri aðstoð frá alþjóðaaðilum og nágrannaþjóðum en kynni að hafa verið til reiðu.

Stór hluti af skuldaaukningunni átti rætur að rekja til erlendrar lántöku til að auka gjaldeyrisforða landsins sem nam samtals nálægt 390 milljörðum kr. Endurfjármögnun fjármálakerfisins var jafnframt verulegur hluti af áföllnum skuldbindingum. Ef talin eru með framlög til Íbúðalánasjóðs og SpKef hefur endurfjármögnun fjármálastofnana aukið skuldir ríkissjóðs um hátt í 250 milljarða kr.

Þá þurfti að endurfjármagna Seðlabankann með útgáfu á skuldabréfi fyrir um 170 milljarða kr. í kjölfar þess að veðlán til viðskiptabankanna töpuðust, m.a. við það að forgangsröð krafna var breytt með setningu svonefndra neyðarlaga í október 2008.

Sá þáttur sem einna mest munar þó um á þessu tímabili er samfelld árleg skuldaaukning vegna halla á greiðsluafkomu ríkissjóðs sem var orðinn 350 milljarðar kr. í lok ársins 2012 og stefnir í að verða nær 400 milljörðum í lok yfirstandandi árs.

Þessar og aðrar skuldir ríkissjóðs eru orðnar rúmlega 1.500 milljarðar kr. sem nemur um 85% af vergri landsframleiðslu. Fyrirsjáanlegt hefur verið að þessa óheillaþróun yrði að stöðva áður en skuldastaðan færi að hamla enn frekar en orðið er getu ríkisins til að standa undir grunnþjónustu og velferðarkerfinu.

Herra forseti. Öllum þessum skuldum fylgir gríðarlegur vaxtakostnaður. Í fjárlögum 2013 voru vaxtagjöld áætluð um 85 milljarðar kr. Frá árinu 2010 höfum við greitt 50 milljarða í vexti af lánum sem tekin voru til að endurfjármagna viðskiptabankana. Við gerum ráð fyrir rúmlega 11 milljarða vaxtakostnaði á næsta ári, bara vegna skuldsetningar sem til kom við endurreisn viðskiptabankanna. Halli undanfarinna ára sem stefnir í 400 milljarða í lok þessa árs, eins og áður segir, hefur verið fjármagnaður með innlendri skuldabréfaútgáfu og ef við horfum á vaxtagjöldin sem til falla vegna þeirrar útgáfu eru þau um 30 milljarðar árlega.

Til að setja þessar tölur í eitthvert samhengi skulum við gera ráð fyrir því að mikill viðsnúningur yrði á rekstri ríkissjóðs, jafnvel svo góður að ríkissjóður færi að skila myndarlegum afgangi, segjum til dæmis 50 milljörðum kr. á ári. Það mundi engu að síður taka áratug að lækka skuldastöðuna um þriðjung væri honum öllum ráðstafað til að greiða niður skuldir.

Í þessu sambandi mun því varla duga að horfa einungis til frekari ráðstafana í rekstrarreikningi ríkissjóðs, heldur mun einnig þurfa að ráðast í endurskipulagningu á efnahagsreikningnum. Árangursríkar ráðstafanir af slíkum toga gætu í senn lækkað skuldirnar og vaxtakostnaðinn sem gerði okur kleift að ráðstafa meiri afgangi til að greiða áfram niður skuldir og til að rýma til fyrir útgjöldum annarra málaflokka.

Þar getur til dæmis komið til álita sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum til að greiða upp skuldir sem stofnað var til við endurfjármögnun þeirra og sala annarra eigna og verðmæta. Til ársloka 2012 hafði ríkissjóður greitt bönkunum um 50 milljarða kr. í vaxtagreiðslur af þeim skuldabréfum. Þær greiðslur þurfti í reynd að fjármagna með lántökum. Er því til nokkurs að vinna ef unnt verður að nýta þessar eignir til að vinda ofan af samsvarandi skuldum. Góðu fréttirnar eru þær að þessar eignir virðast ætla að standa undir því verðmati sem byggt er á í efnahagsreikningi ríkisins.

Þá má nefna að endurskoða þarf stærð gjaldeyrisforðans með hliðsjón af þróun aðstæðna hverju sinni en hann hefur að miklu leyti verið fjármagnaður með erlendum lánum. Einnig þykir vera tilefni til að endurskoða fyrirkomulag á aðkomu ríkissjóðs að fjármögnun Seðlabankans og hvernig eiginfjárstaða bankans er ákvörðuð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stigið verði fyrsta skrefið í þessa átt með því að ekki verði greiddir frekari vextir til Seðlabankans með nýju skuldabréfi sem gefa þarf út í byrjun næsta árs í stað fyrra bréfs sem veitt var til að endurfjármagna bankann.

Út af fyrir sig hafa verið góð rök til þess að bréfið, eins og það var lagt inn í bankann í upphafi, bæri hóflega vexti. Í millitíðinni hefur afkoma bankans verið með ágætum, eiginfjárstaða hans hefur byggst upp ári til árs og er nú um 100 milljarðar. Það þykja því ekki vera til staðar lengur nein sérstök rök til þess, á meðan ríkissjóður er rekinn með tuga milljarða halla en Seðlabankinn með góðum afgangi, að halda áfram miklum vaxtagreiðslum til bankans. Það sýnist ekki vera nein sérstök þörf til þess, þeim mun frekari þörf er til að bæta rekstrarafkomu ríkissjóðs.

Samhliða áætlun um niðurgreiðslu skulda þarf að útfæra áætlun um hvernig mæta skuli um 350 milljarða skuldbindingum vegna lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna. B-deildirnar stefna að óbreyttu í þrot árið 2026 og þyrftu þá allt að 33 milljarða árlega þegar allt er talið.

Af öðrum skuldbindingum má nefna að ríkisábyrgðir vegna Íbúðalánasjóðs nema 940 milljörðum kr. Ríkissjóður hefur lagt Íbúðalánasjóði til 46 milljarða frá árinu 2009 sem að mestu hafa verið afskrifaðir. Reiknaður vaxtamunur útlána og lántöku sjóðsins nægir ekki til þess að standa undir rekstrarkostnaði, vanskil eru mikil við sjóðinn og uppgreiðsluvandinn er áfram til staðar. Verði þessar aðstæður óbreyttar er talið að leggja gæti þurft Íbúðalánasjóði til um 4,5 milljarða í rekstrarframlag í ár og á næsta ári, eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014. Við það mundu bætast frekari eiginfjárframlög og afskriftir ef fjárhagsstaða sjóðsins versnar enn frekar en nú eru aðgerðir í undirbúningi í ráðuneyti velferðarmála til að fyrirbyggja að það gerist.

Ætlun fyrri ríkisstjórnar var að reka ríkissjóð réttum megin við strikið á þessu ári en það verður ekki niðurstaðan. Þó var ekki gert ráð fyrir nema 3,7 milljarða halla á fjárlögum ársins 2013 en samkvæmt endurmati verður hann 31,1 milljarður. Eins og áður segir stóðu upphaflegar áætlanir til þess að vera kominn í góðan afgang, fjárlögin fyrir yfirstandandi ár gerðu hins vegar ráð fyrir lítils háttar halla en það stefnir í að afkomubatinn verði mjög takmarkaður milli áranna 2012 og 2013. Ástæðurnar eru af ýmsum toga, tekjuáætlun ársins er lægri en til stóð og jafnframt komu fram talsverðir veikleikar á útgjaldahlið eftir samþykkt fjárlaganna.

Vegna þessa var ljóst að án aðgerða stefndi í mikinn halla á næsta ári. Okkur reiknaðist það til að án aðgerða stefndi í um 27 milljarða halla. Auðvitað eru að baki slíkum útreikningum ýmsar forsendur sem menn geta tekist á um en svona blasti þetta við mér sem nýjum fjármálaráðherra ef ekki yrði gripið í taumana. Þetta skýrist af ýmsum þáttum, m.a. af því að við sáum fram á um 25 milljarða hækkun útgjalda frá fjárlögum 2013 vegna ýmissa skuldbindinga í tengslum við almannatryggingar og sjúkratryggingar, vegna verkefna í fjárfestingaráætlun fjárlaga 2013, framkvæmda á Bakka og margt mætti fleira nefna.

Ýmsir veikleikar á tekjuhlið 2013 hafa auðvitað áfram áhrif á tekjuhorfurnar fyrir árið 2014 og útlit var fyrir viðvarandi halla út kjörtímabilið ef ekki yrði gripið til viðeigandi ráðstafana. Hagvöxtur hefur mjög mikil áhrif, á yfirstandandi ári er áætlað að virðisaukaskattstekjur verði um 5 milljörðum lægri en vonir stóðu til í samþykktum fjárlögum. Það skýrist að miklu leyti vegna minni umsvifa.

Áframhaldandi hallarekstur er ekki kostur sem unnt er að taka. Því er gripið til ýmissa aðgerða til að stemma stigu við frekari halla á ríkissjóði ásamt tilheyrandi skuldasöfnun. Þar má nefna að gert er ráð fyrir að veltutengd hagræðing hjá ráðuneytum, sértækar aðhaldsaðgerðir og ákvörðun um að falla frá ýmsum nýlegum eða óútfærðum verkefnum skili samtals um 12 milljarða sparnaði.

Eins og áður segir er einnig gripið til aðgerða á tekjuhlið. Tekjur ríkissjóðs af bankaskatti, sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki eins og hann heitir í lögunum, nema 1,1 milljarði kr. í ár. Sá skattur verður hækkaður og skattstofninn breikkaður þannig að hann nái einnig til fjármálafyrirtækja í slitameðferð. Í lögum um bankaskattinn er nú að finna ákvæði sem undanþiggur fjármálafyrirtæki í slitameðferð þessum skatti. Ekki er talin ástæða til annars en að þau fyrirtæki greiði bankaskatt með sömu rökum og önnur fyrirtæki í þessum geira hafa gert undanfarin ár. Þau rök eru tíunduð í lögunum, en þar segir að skatturinn sé meðal annars lagður á til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hafi á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins.

Gert er ráð fyrir að tekjur af skattinum á næsta ári nemi 14,2 milljörðum og að þar af komi 11,3 milljarðar frá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð.

Á móti kemur að almennur fjársýsluskattur verður lækkaður um 1,1 milljarð. Nettóáhrif af breytingum á sköttum á fjármálafyrirtæki eru því jákvæð um 13,2 milljarða. Meginþunginn verður hjá fyrirtækjum í slitameðferð en einnig verður tilfærsla á skattbyrði frá minni fjármálafyrirtækjum til stærri.

Tryggingagjald verður einnig lækkað. Það lækkar í þrepum úr 7,34% í 7%. Um næstu og þarnæstu áramót lækkar það um 0,1 prósentustig í hvort sinn og um áramótin 2015/2016 um 0,14 prósentustig. Bein áhrif til lækkunar á útgjöldum fyrirtækja verða 3,8 milljarðar þegar breytingarnar verða komnar til framkvæmda að fullu. Samandregið munu skattar lækka á öll fyrirtæki nema stærri fjármálafyrirtæki. Ný ríkisstjórn hefur trú á því að minni álögur hafi jákvæð áhrif á gang efnahagslífsins, ekki síst hjá vinnuaflsfrekum atvinnugreinum og að þetta muni skapa svigrúm til fjárfestinga og kjarabóta til lengri tíma litið.

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir mikið aðhald og sparnað er það ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um velferðarkerfið. Frumvarpið felur í sér aukin framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og félagslegrar aðstoðar sem nema 5 milljörðum kr. vegna ýmissa breytinga á kjörum og réttindum þessa hóps en því til viðbótar vaxa þessi útgjöld um 3,4 milljarða vegna fjölgunar bótaþega og verðbóta á lífeyri. Að auki er lögð áhersla á að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og í því skyni lækkum við tekjuskatt um 0,8 prósentustig í miðþrepinu, en um 80% greiða skatt af tekjum sínum í því þrepi.

Átakið Allir vinna, með endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna byggingar og endurbóta íbúðar- og frístundahúsnæðis, verður framlengt. Frítekjumark vaxtatekna einstaklinga hækkað og með því um 200 milljónir skildar eftir hjá heimilunum sem ella hefðu runnið til ríkissjóðs í formi fjármagnstekjuskatts.

Sömuleiðis hækkar frítekjumark barna og launaþak í fæðingarorlofi auk þess sem virðisaukaskattur á bleium lækkar. Loks verður tímabundin hækkun vaxtabóta til handa tekjulágum fjölskyldum framlengd og nýleg hækkun barnabóta varin. Lög gerðu ráð fyrir talsvert mikilli lækkun vaxtabóta við áramót þar sem hámarksvaxtabætur til hjóna hefðu getað fallið úr um 600 þús. kr. á ári niður undir um 300 þús. kr. Við þessu er brugðist með því að framlengja gildandi ákvæði og munar verulegu fyrir tekjulágar, skuldsettar fjölskyldur. Hækkun barnabóta á yfirstandandi ári var umtalsverð, um 24%. Barnabætur höfðu reyndar verið skertar nokkuð hressilega árin á undan en í þeirri þröngu stöðu sem ríkissjóður er var ekki sjálfgefið að hægt yrði að standa við jafn mikla hækkun og raun ber vitni á þessu ári. Það er hins vegar niðurstaða ríkisstjórnarinnar að það skipti máli, ekki síst í ljósi upplýsinga frá Seðlabankanum um að það séu einmitt einkum barnafjölskyldur sem eiga erfitt með að ná endum saman.

Síðustu ár hafa verið ár samfelldra skattahækkana. Það er því sérstaklega ánægjulegt að geta hafið skattalækkanir á bæði heimilin og fyrirtækin. Við stígum varlega til jarðar en við gefum fyrirheit um áframhaldandi skattalækkanir.

Ný ríkisstjórn mun beita sér fyrir úttekt á skattkerfinu, bæði hvað varðar fyrirtæki og einstaklinga. Það verður unnið að því að auka skilvirkni kerfisins, draga úr letjandi áhrifum og skapa hvata til verðmætasköpunar. Sérstakt markmið verður að auka gegnsæi í skattlagningu einstaklinga. Flókið samspil útsvars, tekjuskatts með persónuafslætti og þremur skattþrepum, auk ýmissa bótakerfa, svo sem vaxtabóta og barnabóta með flóknum skerðingarreglum, leiðir til þess að nær útilokað er fyrir aðra en sérfróða að skilja skattkerfið.

Farið verður í endurskoðun á vörugjöldum og virðisaukaskattskerfinu með það að markmiði að draga úr bili milli skattþrepa, fækka undanþágum og auka skilvirkni. Áhersla verður lögð á gott samráð í undirbúningi og tímasetningu breytinganna.

Ég vil segja sérstaklega varðandi breytingar á virðisaukaskattskerfinu að hafi ég tekið rétt eftir er ágætissamhljómur á þinginu milli flokka um þær. Það er ágætissamhljómur hjá aðilum vinnumarkaðarins við hugmyndir um að gera breytingar í þessa veru. Ég bind þess vegna vonir við að við getum átt gott samstarf við að undirbúa slíkar breytingar en þær verða í eðli sínu alltaf gríðarlega viðkvæmar, bæði vegna neikvæðra áhrifa á þróun neysluverðsvísitölunnar, vegna þess að það eru svo margar nauðsynjavörur komnar í lægra þrepið, geta þessar breytingar verið erfiðar í framkvæmd og þeim mun mikilvægara að menn reyni að finna samstöðu, sérstaklega ef menn eru sammála um að breytingarnar gætu verið til góðs til lengri tíma litið. Ég horfi ekki á breytingar á virðisaukaskattskerfinu sem sérstaka tekjuöflun fyrir ríkið til skamms tíma, hins vegar trúi ég því að virðisaukaskattskerfið muni verða betra tekjuöflunarkerfi fyrir ríkið til lengri tíma ef þessar breytingar ná fram að ganga með því að fækka undanþágum og draga úr bilinu á milli þrepanna.

Við höfum séð að illa útfærð og óhófleg skattheimta getur lamað framtak einstaklinga og dregið úr fjárfestingu og vinnuframboði auk þess sem tilviljanakenndar skattbreytingar og aðrar opinberar fjármálaaðgerðir leiða til óvissu sem aftur hamlar fjárfestingu. Af öllum þessum ástæðum þarf að vanda vel til verka þegar ríkisfjármálastefnan er mörkuð og skapa traust milli þeirra sem hafa vald til að leggja á skatta og þeirra sem greiða þá.

Eftir framlagningu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2014 hefur ýmislegt verið sagt í opinberri umræðu sem mér finnst ástæða til þess að staldra stuttlega við. Því er haldið fram að ný ríkisstjórn sé að kasta frá sér skattstofnum. Menn minnast sérstaklega á veiðigjöld í því sambandi. Hér er rétt að taka fram að þegar ný ríkisstjórn tók við voru lög um innheimtu veiðigjaldsins á næsta ári í raun og veru ekki framkvæmanleg. Það voru uppi hugmyndir um að taka marga milljarða til viðbótar við það sem áður hafði verið innheimt í veiðigjöld en ný ríkisstjórn stóð frammi fyrir því að lögin fyrir komandi fiskveiðiár voru óframkvæmanleg. Þegar skattstefnan fyrir sjávarútveginn var ákvörðuð í framhaldinu varð það niðurstaða ríkisstjórnarinnar að ekki væri hægt með góðu móti að ganga lengra í þessari skattheimtu. Við höfum verið talsmenn þess allt síðasta kjörtímabil að í reynd hefði verið gengið of langt, sérstaklega þegar horft er til þess hvernig veiðigjöldin leggjast á einstök útgerðarfyrirtæki. Af þessari ástæðu finnst mér nokkuð holur hljómur í þeirri gagnrýni að ríkisstjórnin sé að kasta frá sér skattstofnum sem fyrri ríkisstjórn hafði ekki einu sinni útfært, hvað þá heldur reynt að innheimta þær háu fjárhæðir sem nefndar eru í þessu samhengi.

Bankaskattur sem fyrri ríkisstjórn virðist ekki hafa þorað að leggja á þrotabúin tekur nú inn rúma 11 milljarða frá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð. Eins og áður segir innheimti fyrri ríkisstjórn aldrei þessi háu gjöld af útgerðinni eins og hún segir að ný ríkisstjórn eigi að gera.

Það er sagt að útgerðin njóti sérstakra forréttinda í skattkerfinu. Það er öðru nær, útgerðin greiðir alla skatta sem önnur fyrirtæki greiða en því til viðbótar greiðir hún um 10 milljarða í sérstakt veiðigjald. Í hverju liggja þá forréttindi þessarar greinar?

Auðlegðarskatturinn verður lagður af á næsta ári. Skattur sem leggst þungt á eldra fólk sem býr í skuldlausu húsnæði er í eðli sínu skattheimta sem gengur ekki upp nema í gjaldeyrishöftum sem við ætlum að afnema. Við erum sammála um það. Fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra Samfylkingarinnar hafði lýst því yfir opinberlega að hún mundi ekki vilja framlengja þennan skatt. Er það í lagi þegar sá ráðherra segir það en þegar ný ríkisstjórn tekur við og ákveður að láta skatt sem Vinstri grænir og Samfylkingin höfðu ákveðið sem tímabundinn skatt renna út er það ekki í lagi? Þá er það ekki í lagi.

Rætt hefur verið um legugjöld sem eiga að skapa Landspítalanum tekjur upp á um 200 milljónir af 40 milljörðum sem renna til Landspítalans. Í heild fara yfir 45 milljarðar til sjúkrahúsa og sjúkrahúsþjónustu. Þetta er 0,5% af heildarupphæðinni. Ef þetta er það eina sem ágreiningurinn snýst um þegar kemur að stuðningi við spítalana hef ég svo sem ekki miklar áhyggjur. En við þurfum að skoða gjöld af þessum toga í samhengi við greiðsluþátttöku sjúklinga almennt og velta því fyrir okkur hvort eðlilegt sé að sumir sleppi án nokkurra gjalda frá sjúkrahúsþjónustu meðan aðrir sitja uppi með reikninga upp á kannski nokkra tugi þúsunda vegna svipaðrar eða algerlega sambærilegrar þjónustu og er verið að veita hinum.

Auðvitað er gjaldheimta í heilbrigðiskerfinu alltaf sérstaklega viðkvæm og ekki neitt sérstakt ánægjuefni en ég lít svo á að tillögurnar sem snúa að heilbrigðiskerfinu séu raunhæfar. Þetta er heiðarleg tilraun til að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu þannig að við á sama tíma getum varið grunnþjónustuna og unnið að markmiðinu um hallalaus fjárlög sem er hin eina raunverulega viðspyrna sem við getum haft til lengri tíma til að bæta í á þessu sviði og öðrum.

Sambærileg gjöld eru lögð á í öðrum löndum, t.d. í Finnlandi, Svíþjóð og í Þýskalandi. Þar borga sjúklingar matargjöld og ég get fullyrt að hvorugur flokkanna sem situr nú í ríkisstjórn lagði þau á þar. Þess vegna kalla ég eftir því að menn taki þessa umræðu í örlítið víðara samhengi og skoði þátttöku sjúklinga í kostnaði við heilbrigðiskerfið á breiðum grunni.

Við í stjórnarflokkunum höfum orðið fyrir gagnrýni eftir framlagningu frumvarpsins fyrir að lækka skatta ekki nægilega mikið á fyrirtæki. Eins og ég benti á hér undir stefnuræðu forsætisráðherra í gær eru stigin fyrstu skrefin, þau eru í rétta átt. Við gefum fyrirheit um að halda áfram á sömu braut og við hljótum jafnframt að horfa til þess sérstaklega þegar rætt er um tryggingagjaldið hversu mikilli byrði það veldur fyrirtækjunum í landinu. Þetta er launatengd gjaldtaka á sama tíma og fyrirtækin hafa hækkað laun um það bil tvöfalt umfram umsamdar launahækkanir. Það breytir því ekki að við trúum því að það sé rétt að halda launatengdum sköttum í hófi. Út á það gengur stefnan um lækkun tryggingagjaldsins.

Sumir segja að það sé jafnframt röng forgangsröðun í skattalækkun á heimilin með því að lækka einungis miðþrep tekjuskattsins. Bent er á að þeir sem borga skatta í lægsta þrepinu hafi ekkert upp úr slíkri lækkun. Því er til að svara að þeir eru þegar í lægsta þrepinu. Við verjum verðtryggingu persónuafsláttarins og skattleysismörkin halda áfram að hækka í þessu frumvarpi eins og lög gera ráð fyrir. Þeir sem eru í lægsta þrepinu hafa sérstaka vernd í lögunum eins og þau eru fyrir. Þetta hljótum við að taka með í reikninginn þegar við berum saman það hvernig skattkerfið kemur við einstaka tekjuhópa.

Virðulegi forseti. Það hefur verið halli á rekstri ríkissjóðs frá árinu 2008. Ég hef hér rakið hversu mikil skuldasöfnun ríkisins vegna hallarekstrarins er orðin. Þótt nú sé lagt fram fjárlagafrumvarp með lítils háttar afgangi er ljóst að áfram verður að herða umgjörð ríkisfjármálanna. Frá árinu 1992 hefur verið byggt á rammaskipulagi við fjárlagagerðina en nær undantekningarlaust hefur verið vikið frá upphaflegum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um útgjaldaramma í fjárlagaferlinu. Þá hafa umtalsverðar fjárheimildir verið veittar í fjáraukalögum ár hvert og þar með enn frekar vikið frá upphaflegum útgjaldaramma. Það virðist hafa verið allt að því ófrávíkjanleg regla að útgjöld aukist frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og að meðaltali hefur frávikið verið um 12% undanfarin tíu ár.

Því er brýnt að þróa skýra, skilvirka og heildstæða umgjörð um opinber fjármál þar sem tekin er afstaða til þeirra þátta sem nútímalöggjöf um opinber fjármál tekur jafnan til, þar á meðal hagstjórnarlegra þátta. Unnið er að frumvarpi um opinber fjármál sem lagt verður fram á þessu þingi. Þar verður leitast við að styrkja allt fjárlagaferlið og tryggja efnislega umræðu um heildarframlög til málaflokka í stað umræðna um fjárheimildir til einstakra stofnana og viðfangsefna sem oft hafa reynst tafsamar og ómarkvissar. Með því móti verður skapaður grundvöllur fyrir hnitmiðaða umræðu um almenna stefnu í ríkisfjármálum fremur en einstakar ráðstafanir, ekki síst í efnahagslegu samhengi.

Markmiðið er að tryggja vandaðan undirbúning stefnumörkunar í opinberum fjármálum, breytt og skýrari ábyrgðarskil löggjafar- og framkvæmdarvalds, aukinn aga og festu við opinbera fjárstjórn og framkvæmd fjárlaga, bætt eftirlit og síðast en ekki síst skýrari sýn á langtímamarkmið í fjármálum hins opinbera. Mér finnst sjálfsagt að láta þess getið að undirbúningur að gerð þessa frumvarps fór að mestu fram í tíð fyrri ríkisstjórnar, í upphafi í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þess vegna hef ég góðar væntingar um að gott samstarf geti tekist um að veita málinu framgang þegar það kemur hér fram. Ég ætla ekkert að fullyrða um að málið komi fullbúið þótt aðdragandinn hafi verið þó nokkur en veit að gott samstarf getur tekist hér í þinginu um að gera þá þær breytingar sem nauðsyn krefur og tryggja að þessi mikilvægu markmið verði í framhaldinu fest í lög.

Það verður mælt fyrir um einfaldari framsetningu fjárlaga og að alþjóðlegum stöðlum við skýrslugerð og eftirlit verði fylgt. Það eykur gegnsæi við undirbúning, mótun og samþykki fjárlaga og gerir einstaklingum jafnt sem fyrirtækjum kleift að afla sér greinargóðra upplýsinga um þróun opinberra fjármála. Áætlað er að innleiðing helstu efnisþátta frumvarpsins taki tvö til þrjú ár. Ég mundi gjarnan vilja sjá það gerast hraðar, ég mundi gjarnan vilja sjá okkur starfa sem mest í anda þeirra breytinga sem frumvarpið boðar um leið og það hefur verið samþykkt á þinginu.

Virðulegi forseti. Samandregið er niðurstaða þessa fyrsta fjárlagafrumvarps nýrrar ríkisstjórnar að ríkissjóður verður rekinn með afgangi árið 2014 í fyrsta sinn í sex ár. Sú niðurstaða næst með sértækum aðgerðum þrátt fyrir skattalækkanir, hærri bótagreiðslur almannatrygginga, verulegan stuðning við barnafólk og óbreyttar vaxtabætur til hinna tekjulægri. Um leið er stuðlað að fjárfestingu sem leiðir til hagvaxtar og kemur öllum Íslendingum til góða.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar. Óska ég eftir góðu samstarfi við nefndina og vona að takast megi að afgreiða frumvarpið í samræmi við markmið þess um hallalausan rekstur ríkissjóðs á næsta ári.