143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við lestur þessa mikla stefnuplaggs ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar kemur fram skýr stefnumörkun um skattalækkun og niðurskurð í ríkisútgjöldum og ætti ekki að koma á óvart vegna þess að það er einmitt það Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á.

Hæstv. fjármálaráðherra ræðir um mikilvægi þess að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og ná heildarjöfnuði og ég tek heils hugar undir það vegna þess að það er almenn aðgerð, það kemur öllum til góða að ná því saman. Það skiptir máli í efnahagslegu tilliti, skiptir máli fyrir stöðu þjóðarinnar og þol hennar til þess að þola utanaðkomandi áföll. En jöfnuðurinn er veikur, aðeins 500 millj. kr. á árinu 2014 og er viðvarandi veikur næstu þrjú árin.

Hæstv. ríkisstjórn hefur boðað skuldaniðurfellingu til heimila og heimildir til þess er ekki að finna í fjárlagafrumvarpinu. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé nauðsynlegt að heimildir komi í fjárlög til þess að fara í þá miklu aðgerð til helmings heimila í landinu. Ég spyr líka hvort hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki áhyggjur af því að kostnaðurinn sem óvissan skapar um þessa miklu aðgerð, sem talað hefur verið um sem heimsmet, muni koma niður á heildarjöfnuðinum til lengri tíma og eins hvort það muni ekki tefja að hægt verði að greiða niður skuldir ef farið er í almenna skuldarniðurfellingar (Forseti hringir.) en jafnframt í sérstakar niðurfellingar fyrir (Forseti hringir.) heimili í greiðsluvanda sem hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hefur boðað.