143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er komið inn á nokkur atriði. Þeirri spurningu er velt upp hvort það fari saman að boða skattalækkanir og tryggja jöfnuð í ríkisfjármálunum. Ég tel svo vera að þrátt fyrir miklar skattahækkanir og nýja skatta sem kynntir hafa verið til sögunnar, sumir tímabundið, hafi það ekki gerst að skatttekjurnar hafi vaxið í neinu samhengi við nýju skattana og skattahækkanirnar sem hlutfall af landsframleiðslu. Við erum enn langt langt undir því hlutfalli af landsframleiðslu sem við vorum áður í með skattana. Það tel ég til vitnis um að ekki sé ávallt hægt að ganga út frá því að hærri skattar skili meiri tekjum.

Það eru fróðlegar upplýsingar, sérstaklega í fyrra heftinu sem fylgir þessu fjárlagafrumvarpi, Stefna og horfur, um þróun skatttekna og hlutfall til dæmis virðisaukaskatts af heildarskatttekjunum sem ég vek athygli þingmanna á. Okkar trú er sú að með hóflegri skattheimtu muni takast að örva framtak og umsvif í samfélaginu sem muni skila ríkinu meiri tekjum til lengri tíma. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er lítill afgangur þegar við horfum til næstu ára sem kallar á áframhaldandi aðhald og eftir atvikum ráðstafanir til að bæta stöðuna enn frekar. Mér finnst staðan fram á við litið enn þá vera óviðunandi. Ég sé fyrir mér sölu á eignum til að geta til dæmis bætt þá stöðu og horfi þar sérstaklega til hluta í fjármálafyrirtækjunum.

Varðandi skuldaniðurfellingar og mögulegan kostnað við þær tel ég enga ástæðu til að gera ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu, enda eru þau mál í sérstökum farvegi. Það er rætt um að skapa það svigrúm sem mögulega skapast við uppgjör þrotabúanna (Forseti hringir.) til að taka þátt í þeirri aðgerð og að öðru leyti vísa ég til þess sem áður hefur komið fram (Forseti hringir.) um það mál.