143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rýrt fannst mér svarið. Á síðasta kjörtímabili veit ég ekki betur en sett hafi verið lög um að persónuafslátturinn fylgdi verðlagi. Við skyldum líka alveg velta því fyrir okkur af hverju við þurftum að fara í þær aðgerðir sem við fórum í. Það var jú kannski vegna ákveðinnar skattstefnu sem viðhöfð hafði verið hér til ansi margra ára.

Mér fannst það koma skýrt fram hjá ráðherra að ekki eru nein sérstök áform um að taka þá sem lægst hafa launin og hækka þeirra afslátt eða þeirra mörk heldur einungis miðað við þá verðlagsbreytingu sem fyrirhuguð er. Og það að einfalda kerfið — það hefur ekki komið skýrt fram að það verði þeim til hagsbóta sem minnst hafa. Mér sýnist því að við höldum áfram á þessari braut. Eðlilega greiða þeir mest sem mest hafa, annað væri það nú, þeir hafa auðvitað til þess færi en hinir ekki. Það sem þarf að gera er að við þurfum að lyfta þessum 134 þúsundum upp og koma þeim í fyrsta lagi upp í mannsæmandi laun, eins og hann talaði hér um jaðaráhrif, og svo að afslátturinn verði þannig að þeir byrji mun síðar að borga tekjuskatt. Það hljóta alltaf að vera markmið okkar að þeir sem minnst hafa borgi minnst og hafi sem mest til ráðstöfunar. Það er auðvitað rétt að það eru margar aðrar aðferðir til þess en þetta er grundvallaraðferðin, jöfnunaraðgerð, sem síðasta ríkisstjórn kom á í gegnum þetta þrískipta tekjuskattsumhverfi.