143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma að örfáum athugasemdum. Það var mjög víða komið við í ræðu hv. þingmanns. Fyrst vil ég nefna að í nefndaráliti með breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar við gerð síðasta fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013 var sagt að 600 millj. kr. framlag til tækjakaupa væri tímabundið, það kom sérstaklega fram. En þegar hið tímabundna framlag fellur niður koma menn hér upp og segja: Það er verið að fella niður framlag til tækjakaupa. Staðreynd málsins er sú að við erum núna að vinna, ég og hæstv. heilbrigðisráðherra, að gerð langtímaáætlunar um þörfina fyrir tækjakaup bæði á Landspítalanum og á Akureyri.

Sagt er að gjald sé lækkað af útgerðinni, sérstaklega stórútgerðinni. Það er efnislega rangt vegna þess að breytingarnar sem gerðar voru í sumar leiða til þess að stórútgerðin greiðir hærra gjald en áður var. Minni sjávarútvegsfyrirtækin fengu reyndar lækkun en vandinn er kannski ekki síst til kominn vegna þess að síðustu ríkisstjórn mistókst að nýta fjögur ár til að koma á einhverju varanlegu kerfi og sátt um gjaldtöku af útgerðinni í landinu og heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða.

Það er talað um auðlegðarskattinn. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi sjálf sagt sem fjármálaráðherra að hún teldi rangt að framlengja þennan skatt. Er það misminni hjá mér eða hefur hv. þingmaður skipt um skoðun í millitíðinni?

Það er sagt að þessi ríkisstjórn ætli að afnema raforkuskattinn á stóriðjuna. Nei, það var fyrri ríkisstjórn sem ákvað að það yrði tímabundinn skattur sem félli niður frá og með 2016 og við það er staðið. Það er staðið við ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um raforkuskatt á stóriðjuna.

Um húshitun, já, stuðningur við niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar var aukinn um 175 milljónir (Forseti hringir.) á síðasta ári síðustu ríkisstjórnar. Sú hækkun er lækkuð um 75 milljónir.