143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því sem snýr að þessum bankaskatti að þrotabúin voru sérstaklega undanþegin skatti, þannig að málið snýst ekki um að erfitt hafi verið erfitt að útfæra það. Þrotabúin voru tekin út. Sagt var: Þrotabúin eiga ekki að greiða þennan skatt. (Gripið fram í.)

Ég skrifaði um það greinar og vakti athygli á því en ég man ekki eftir því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi tekið undir málflutning minn. Ef svo hefur verið gert þá fór það algjörlega fram hjá mér. Það liggur alveg fyrir að ef við notum túlkun — eða við getum sagt hina pólitísku túlkun Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem ég er ekki sammála, mér finnst hún mjög sérkennileg, þá veitti síðasta ríkisstjórn sérstaka undanþágu fyrir þetta ríka fólk og hlífði því sérstaklega við skatti. Ef við ætlum að vera í sömu pólitísku hjólförum og Samfylkingin og Vinstri grænir, sem ég mæli að vísu ekki með — þau tóku ríkasta fólkið í heiminum og veittu því sérstakan afslátt.

Það er áhugavert að segja að hagstjórnarmistökin hafi fyrst og fremst verið gerð áður en Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking fóru saman í ríkisstjórn, það er áhugavert að heyra það, sérstaklega í ljósi þess hvernig sumir hv. þingmenn Samfylkingarinnar gengu fram í landsdómsmálinu. En það liggur þá alveg fyrir og er bara gott að fá kvittun upp á það að ríkisstjórnin sem ég sat í, og ég tel að hafi ekki náð fullkomlega að vera til, gerði víst ekki nein hagstjórnarmistök.

Ég spurði líka um hvernig það mætti vera að síðasta ríkisstjórn, sem hækkaði kostnaðarhlutdeild sjúklinga umtalsvert, bregst við með þessum hætti við þegar einn þátturinn er tekinn út, þ.e. legugjöldin, því að það er svo sannarlega ekki hægt (Forseti hringir.) að ráða það af gerðum hennar að hún hafi verið á móti því að sjúklingar (Forseti hringir.) greiddu fyrir þjónustu.