143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn finnst mér málflutningur hv. þingmanns hálfundarlegur en minni á að það var fyrri ríkisstjórn sem innleiddi bankaskattinn og hann var lagður á banka í eigu þrotabúanna. Það er hægt að taka inn meira af þessum þrotabúum og það er lagt til í þessu frumvarpi. Og ef það er tæknilega mögulegt á ég ekki von á því að Samfylkingin verði á móti þeirri aðgerð.

Varðandi legugjöldin er hér verið að tala um að leggja skatt á okkar veikasta fólk. Það er enginn lagður inn á spítala nema hann sé fárveikur og í stuttan tíma ef svo er ekki. Þeir sem lengur dvelja á sjúkrahúsum eru fárveikir. Ég bara trúi því ekki fyrr en ég tek á að hægri stjórnin ætli að ganga svo langt að leggja skatt á okkar veikasta fólk til að láta það borga niðurskurðinn á Landspítalanum. Þetta mun náttúrlega aldrei verða.

Síðast, virðulegur forseti, var það verulega ósmekklegt af hv. þingmanni að blanda landsdómsmáli, sem afgreitt er, í þá umræðu sem hér fer fram. Það var langur vegur á milli að hægt væri að tengja það sem sú sem hér stendur sagði við það mál.