143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg við hvaða uppslátt þingmaðurinn átti. Ég tel mig ekki hafa verið með neinn uppslátt hér. (Gripið fram í.) Það held ég.

Hægri pólitíkin hefur nefnilega gengið út á það að auka hlutdeild sjúklinga, kostnaðarhlutdeildina. (Gripið fram í.) Vinstri pólitíkin hefur gengið út á það reyna að lækka.

Ekki gleyma þeim aðstæðum, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem fyrri ríkisstjórn tók við og vegna hvers hún er til komin. Við skulum hafa hugfast að það er ekki svo að fyrri ríkisstjórn hafi verið með það á stefnuskrá sinni að greiða 90 milljarða í vaxtakostnað, það fór enginn fram með þá stefnu. Það eru margar ástæður sem verða til þess að ekki er hægt að framkvæma stefnu eins og þið eruð væntanlega að glíma við núna, nema þetta sé akkúrat það sem þið viljið gera, að hæstv. ríkisstjórn vilji fara þessa leið, að þarna endurspeglist raunveruleg pólitík og raunveruleg stefna, þ.e. að taka gjald af sjúklingum í staðinn fyrir, eins og mér heyrðist hann geta verið mér sammála um í aðra röndina nú þegar hann er hérna megin borðsins, að vilja lækka hlutdeild sjúklinga í kostnaði.

Það er mjög mikilvægt og alveg grundvallaratriði að hafa það á hreinu í umræðunni að ástæður þess að ekki var hægt að framkvæma ýmislegt sem vinstri stjórnin vildi gera er komið til vegna aðstæðna sem ekki voru skapaðar af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það er alveg klárt.